05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1953)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Aðeins fáein orð til að svara háttv. þm. Dala (BJ), fyrst hann ætlar nú að gerast spurnarmerki háttv. deildar; en svo hátt kemst hann ekki að verða alþjóðkjörið spurnarmerki, eins og hann komst sjálfur að orði nýlega um annan þm.; hann verður, held jeg, að láta sjer nægja að vera Dalakjörinn í því efni.

Jeg ætla mjer nú ekki að svara, heldur að beina til hans nýrri spurningu, því jeg vænti, að það megi fleiri en hann gerast spurnarmerki hjer. Ef einhver hefir gert samning um verkakaup, er þá rjett að ganga á gerða samninga og rifta þeim þegar aftur? Menn vita vel, að hjer var gerður samningur við embættismenn árið 1919 um dýrtíðaruppbót, og geta menn því ekki lækkað hana, þó menn vildu. Jeg þræti ekki um það við hv. 1. þm. Reykv. hvort óviðeigandi sje að veita embættismönnum húsaleigustyrk eða þeir vilji ekki hafa hann, því að ef svo er, þá er ekkert við því að segja; honum verður ekki neytt upp á neinn.

Afstöðu háttv. 2. þm. Reykv. (JB) skil jeg vel; hann vill hækka laun embættismanna til þess að geta svo borið sig saman við þá á eftir, þegar hann er að krefjast hærri launa til handa verkamönnum.