02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi í athugasemdunum við frumvarp þetta tekið fram aðalatriðin, sem það er bygt á. Jeg er vitanlega ekki viss um, að það nái fram að ganga; en þar sem það fjallar um einn mikilvægasta þáttinn í þjóðlífi okkar, fanst mjer rjett að bera málið fram í þinginu, til þess að hægt væri að sjá, hvernig þjóðarfulltrúarnir vildu leysa úr vandanum.

Frumvarpið fer fram á, að húsaleigan í kaupstöðum landsins verði 12% af virðingarverði húsa og lóða, hvorttveggja miðað við síðasta fasteignamat.

Aðalástæðan fyrir frv. er sú, að húsaleigan hjer í Reykjavík, og yfirleitt í öllum kaupstöðum landsins, er orðin hin mesta byrði, sem nær beint eða óbeint til allra landsmanna. Er hjer því um landsmál að ræða.

Síðan 1914 hefir lítið verið bygt í kaupstöðum, sem stafar af peningaskorti og fleiru. Hins vegar hefir fólki fjölgað mikið í flestum þeirra. Hafa menn því út úr neyð boðist til að borga hærri húsaleigu en rjett var og þeir í raun og veru gátu borgað. Og eru dæmi til, að hús hafa verið leigð fyrir 10 sinnum hærri leigu en var fyrir 1914. Eru því hús, sem bygð voru um og rjett eftir 1907, búin að margborga eigendunum frumverð sitt. Er það vitanlega gott fyrir þá, sem húsin eiga, en það hefir áhrif út frá sjer á marga vegu. Í fyrsta lagi á þann hátt, að öll laun embættis- og starfsmanna ríkisins þurfa að vera hærri, sökum hinnar óeðlilega háu húsaleigu, en þau þyrftu annars að vera.

Stærsti liðurinn í þessu máli er þó sá, að alt verkafólk og allir sjómenn verða að miða kaup sitt við þessa háu húsaleigu. Og þar sem allar afurðir, bæði til lands og sjávar, hafa stórfallið síðan 1920, er auðsætt, að ef þessi háa húsaleiga heldur áfram, hlýtur hún að valda vandræðum á marga vegu.

Jeg talaði í sumar t. d. við einn af stjórnendum Eimskipafjelagsins, og spurðist fyrir um það, hvers vegna Noregur væri ekki tekinn inn í siglingasvæði fjelagsins. Hann svaraði því, að það væri ekki hægt, sökum þess, að Eimskipafjelagið gæti ekki kept við Bergenska fjelagið vegna dýrtíðar í Reykjavík, og ætti húsaleigan mestan þátt í því.

Jeg sje nú eigi annað en að þetta sje mál, sem snertir alt landið, og ef húsaleigan stendur ein eftir sem „klettur úr hafinu“, eftir að alt annað verðmæti er fallið, gæti vel farið svo, að við yrðum ekki samkepnisfærir gagnvart þjóðum, sem framleiða sömu vörur.

Það er ómótmælanlegt, að ef frumvarp þetta nær fram að ganga, þá hefir það tap í för með sjer fyrir allmarga menn, sem hafa bygt eða keypt hús síðan 1914. Mjer datt í hug í fyrstu að gera greinarmun á því, en fjell frá því aftur. En það gæti komið til greina seinna, við nánari rannsókn málsins. — Einnig gæti komið til athugunar, hvort ekki væri rjett að setja ákvæði um, að húseigendur gætu losnað við leigjendur á fleiri vegu en frumvarpið gerir ráð fyrir, því að jeg hefi aðeins tekið vanskil á húsaleigu til greina.

Jeg leyfi mjer svo að leggja til, að frv. verði vísað til allsherjarnefndar, að umræðunni lokinni.