23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (1974)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get ekki látið þetta mál fara fram hjá mjer án þess að fara um það nokkrum orðum. Jeg álít það fullkomlega rjettmætt, að frv. þetta er fram komið, þótt allshn. vilji ekki fallast á það nú í bili. Húsaleigan hjer í Reykjavík er orðin vandræðamál fyrir alt landið; hún hefir áhrif á kaup og vöruverð og heldur við dýrtíð í landinu. Og sumstaðar hjer er hún ekki langt frá því að nálgast okur. Því er það alls ekki að ófyrirsynju, að hv. flm. (JJ) hefir dottið í hug að koma fram með þetta frv.

En ástæðan fyrir því, að jeg vildi ekki fara lengra að sinni, er sú, að bærinn hefir nú húsaleigulög og virðist hafa hug á að gera eitthvað í þessu máli. Því vildi jeg ekki demba þessum lögum á núna, þó að bæjarstjórnin sje búin að hafa heimildina í 2 ár. Jeg get betur felt mig við það form að hafa skyldumat. Það hefir að vísu sína galla, en gæti þó orðið sanngjarnara. Jeg hefði helst kosið að fresta þessu máli, en ýta undir bæjarstjórnina að koma reglugerðinni frá sjer. Ef dagskráin verður samþykt, en svo fer, að ekkert verður úr reglugerðinni, þá álít jeg forsvaranlegt af landsstjórninni að gefa út bráðabirgðalög um þetta efni. Því að þó þetta, eftir eðli sínu, heyri undir kaupstaðina, þá hefir þó húsaleigan svo mikil áhrif á land alt, að jeg álít forsvaranlegt af ríkisvaldinu að gripa inn í.