23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (1975)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Jónas Jónsson:

Hv. allshn. hefir lagt til að vísa máli þessu frá með dagskrá. Jeg vil því leyfa mjer að bæta nokkrum orðum við það, sem jeg sagði í framsöguræðu minni. Ef dagskrá þessi verður samþykt, þá er það sama og að drepa frv. Jeg býst við að víkja síðar að því, hvort sú leið er tiltækileg. En jeg álít, að nefndin byggi á alröngum grundvelli, þeim, að húsaleigan sje bæjarmál, sem bæjarstjórninni beri að ráða fram úr. Þetta mál er landsmál, eins og hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) rjettilega tók fram, og ef ekki fæst sæmileg lausn á málinu, þá á landið að taka í taumana. Því gerði hv. 2. þm. Rang. einnig ráð fyrir, að það gæti átt sjer stað. Ástæðan til þess, að þetta er landsmál, er sú, að mikið aðstreymi er til Reykjavíkur utan af landi. Bærinn fyllist af fólki, húsnæðiseftirspurnin verður mikil og húsaleigan fer upp úr öllu valdi. Við þetta aðstreymi til Reykjavíkur tæmast sveitirnar, sjer til skaða, og Reykjavík tapar líka. Atvinnuleysi verður hjer meira eftir því sem fólkinu fjölgar. Því er það ekki eftirsóknarvert, að bærinn vaxi meira að sinni. Ef landið gerði einhverjar ráðstafanir til þess, að vöxtur bæjarins yrði hægfara, þá yrði það öllum til góðs. Það kom ekki fram hjá hv. frsm. (JM), hvernig húsaleigan grípur inn í hag allra landsmanna. Menn hafa algerlega vanrækt að athuga þetta, og bæjarstjórnin hefir verið óforsvaranlega aðgerðalaus í þessu máli. Húsaleigan kemur ekki aðeins hart niður á leigjendunum, heldur og á húseigendum sjálfum, ef þeir eru framleiðendur. Framleiðendur þrá, að leigan lækki, til þess að kaup geti lækkað. Það yrði mikill þáttur í því að minka dýrtíðina hjer, ef leiga á búðum lækkaði. Ef þessi salur, sem við sitjum hjer í, væri búð á hentugum stað í bænum, þá mundi hún alls ekki kosta minna en 600 kr. á mánuði. Því sjá allir, að búðaleigan hleypir vöruverðinu upp. Jeg endurtek það, að það er ólíklegt, að framleiðendur hjer geti staðist útgjöld við húsaleiguna, ef verð á íslenskum afurðum heldur áfram að falla. Það eru jafnt sjávarútvegsmenn og sveitabændur, sem óska að kaup lækki, en slíkt getur ekki orðið meðan húsaleigan helst óbreytt. Nú er komin fram krafa frá starfsmönnum landsins um 25% launaviðbót, miðað við Reykjavík. Með þessu viðurkenna flm., sem eru þm. Reykjavíkur, að Reykjavík sje dýr staður. Jeg held því nú fram, að það sje mikið á ábyrgð þessarar hv. deildar, ef hún samþykkir dagskrána, hvort hækka þarf laun þessara starfsmanna landsins um 25%.

Jeg hitti í morgun einn af starfsmönnum landsins, sem á 4–5 börn. Hann sagði svo frá sínum ástæðum: „Jeg hefi 3500 kr. laun. Jeg bý í húsi, sem bygt var 1903. Húsaleiga mín er á annað þúsund krónur á ári. Auk mín búa 3 menn aðrir í húsinu, og húsaleiga okkar allra til samans er meira en upprunalega kostaði að reisa húsið.“ Með öðrum orðum: Húsið borgar sig á hverju ári. Er nú nokkurt vit í því, að þjóðfjelagið grípi ekki inn í, er um slíkt okur er að ræða? En þannig er það í flestum gömlum húsum. Þetta er alvarleg spurning fyrir fulltrúa þjóðarinnar. Eiga þeir að bæta launakjör starfsmanna landsins í Reykjavík, til þess að þeir geti staðist húsaleiguna? Jeg vil nú spyrja hv. frsm. (JM), hvort hann álíti, að hægt sje að neita henni, og hvort hann álíti, að meðferð þessa máls hjer í dag komi henni ekki við.

Það kom fram hjá hv. frsm., að sumum mönnum væri sýnt ranglæti með frv. mínu. Það er satt; en hann viðurkendi, að það væri ekki gott að gera mun á gömlum og nýjum húsum. Ef maður lítur annars yfir þennan bæ, þá sjest, að það er hverfandi litið, sem bygt er síðustu árin. Bærinn er mest bygður fyrir 1914. En það er til tvennskonar mælikvarði á húsaleiguna. Undir annan mælikvarðann falla gömul hús, sem eru bygð fyrir 1914, en undir hinn nýju húsin og svo eitthvað af gömlu húsunum, sem hafa skift um eigendur síðan þau vorn bygð og keypt við dýru verði. Nú skulum við setja svo, að undir þennan seinni flokk falli svo sem 500 húseigendur. Það er bara ágiskun, því vissu er ekki hægt að fá. Þá verð jeg að halda því fram, að hagsmunir þessara 500 manna sjeu ekki eins mikils virði og hagsmunir allra leigjenda í bænum, sem geta verið 15000, ef talið er alt vandafólk með húsföður, og í viðbót hagsmunir allra framleiðenda annarsstaðar á landinu. Það er ekki hægt að komast hjá ranglæti að einhverju leyti. Ef dagskráin verður samþykt, þá verður þessum 500 húseigendum hjálpað, en 90% allrar þjóðarinnar sýnt ranglæti. Mjer finst þetta ósköp einfalt mál. Hjer vegast á hagsmunir fárra húseigenda annars vegar, en hins vegar hagsmunir allra framleiðenda, verkamanna, embættismanna, námsmanna o. s. frv.

Það hittist einmitt svo á, að jeg var rjett áðan að tala við skólameistarann á Akureyri. Sagði hann mjer, að í vor hefði útskrifast frá Gagnfræðaskólanum þar mjög gáfaður piltur, sonur prests á Norðurlandi. Faðir hans hafði ekki treyst sjer til að senda hann hingað suður til framhaldslærdóms, aðeins fyrir þá sök, hve dýrt væri að lifa hjer, og væri húsaleigan stærsti þátturinn í því. — Mjer þykir því næsta undarlegt, ef flokkur sá, sem stendur næst embættismönnunum og vill gæta hagsmuna þeirra, sker niður þessa tilraun til að bæta úr þessu mikla böli, sem ekki kemur minst niður á þeirri stjett.

Annars vil jeg leyfa mjer að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann taki mál þetta af dagskrá, þegar umræðunni er lokið, því að dagskrá allsherjarnefndar byggist á þeim rökum, að bæjarstjórn Reykjavíkur muni nú mjög bráðlega afgreiða reglugerð um húsnæði í Reykjavík, þar sem sjeu ákvæði um skyldumat á öllum leiguíbúðum. — En ef svo skyldi fara, að mál þetta dagaði uppi hjá bæjarstjórninni, og hún gerði ekkert í því, væri illa farið, ef búið væri að fella þetta frv. hjer, og þar af leiðandi ekki hægt að taka það upp aftur. Þykir mjer því rjett, að beðið sje nú nokkra daga með þetta mál hjer, til þess að sjá, hvað bæjarstjórnin gerir. — En hins vegar skal jeg lofa hv. allsherjarnefnd því, að draga það ekki undan atkvæðagreiðslu hjer í hv. deild. Því að jeg vil einmitt að það sýni sig, hvernig menn greiða atkvæði um það. Jeg vil einungis, að málinu sje frestað, þar sem rökstuðningur hv. nefndar er bundinn við það, sem gert verður hjer innan lítils tíma.

Að endingu vil jeg gefa þær upplýsingar, að mikill hluti bæjarstjórnar mun ætla að binda skyldumatið við það verð, sem er á húsum núna, sem vitanlega er óhagstæðasti mælikvarði fyrir þjóðina í heild sinni. Er slíkt mat eiginlega alveg gagnslaust.

Jeg sje ekki, að hjer sje nema um tvent að ræða, annaðhvort að miða leiguna við nýju húsin eða hin gömlu. Sje það gert á þeim grundvelli, sem jeg lagði til, þá tapar vitanlega nokkur hluti húseigenda. En sje það aftur á móti bygt á hinum grundvellinum, tapar almenningur.