23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (1976)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Af því jeg býst við, að þetta mál heyri undir mig, vil jeg styðja tillögu hv. 5. landsk. þm. (JJ), að það verði tekið af dagskrá. Það er öllum kunnugt, að húsaleigan hjer er afarhá. Og lög nr. 50, 27. júní 1921, um húsnæði í Reykjavík hafa enn sem komið er ekkert verið notuð til þess að draga úr henni, og eru orðin nú nær því tveggja ára gömul.

En nú stendur einmitt svo á, að bæjarstjórnin hefir til meðferðar frv. til reglugerðar um húsnæði hjer. Tel jeg því rjett, að málinu sje frestað nú fyrst um sinn, til þess að sjá, hvernig reglugerð þessari reiðir af. Því verði hún samþykt, verður frv. þetta ef til vill óþarft.