23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (1977)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Frsm. (Jón Magnússon):

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að nefndin hefði bygt nál. sitt á því, að þetta mál væri einungis bæjarstjórnarmál. Það er alveg rjett, að nefndin lítur svo á, að bæjarstjórnin eigi að skipa þessu máli, svo sem til hefir verið stofnað, sjerstaklega samkvæmt lögum nr. 50, frá 27. júní 1921.

Það er aldrei nema satt, að þetta mál snertir fleiri en Reykjavík eina, en svo er um mörg mál, sem talin eru bæjarmál og bærinn ræður einn yfir samkvæmt stjórnarskránni og öðrum lögum.

Jeg neita því ekki, að setja megi hámark á húsaleiguna. En eins og jeg tók fram áðan, tel jeg þingið ekki eiga að gera það.

Dæmi það, er hv. 5. landsk. þm. (JJ) tók, um að til væri svo há húsaleiga, að hún væri hærri á ári en kaupverð hússins, má vera að sje til. En það má vera dæmalaust meinleysi leigjenda, að fara ekki til húsaleigunefndar, til þess að fá það leiðrjett. Þá heyrðist mjer háttv. þm. segja, að minna aðstreymi myndi verða hingað, ef húsaleigan yrði lækkuð. En jeg held einmitt hið gagnstæða. Því jeg lít svo á, að hin háa húsaleiga sje frekar til að fæla frá en auka innflutning fólks til borgarinnar.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að bæjarstjórnin hefði forsómað í tvö ár að ráða bót á þessu húsnæðismáli, þá er það ekki alveg rjett, því að lögin frá 1921 eru ekki orðin tveggja ára gömul enn þá.

Jeg tel því alls ekki rjett að taka þetta mál frá bæjarstjórninni, úr því einu sinni búið var að fela henni það, fyr en þá búið væri að sýna sig, að hún vanrækti það.

Um mat á húsaleigu er það að segja, að jeg held að hvergi sje farið lengra nú með það en láta það einungis ná til leiguíbúða. Það getur verið, að það nái lengra í Rússlandi.

Það má vera, að húsaleigan haldi kaupi fólks uppi að einhverju leyti. Þó hygg jeg, að það sje margt annað, sem heldur kaupinu alveg eins mikið uppi. Og jeg efast um, að kaup lækkaði hjer, þó að frv. þetta yrði að lögum, því að verkamenn myndu halda kaupinu uppi eins lengi og þeir gætu. Enda er jeg ekki viss um, að kaup það, er nú er, verði of hátt í nánustu framtíð.

Þá spurði hæstv. þm. (JJ), hvernig nefndin myndi taka í það að hækka laun embættismanna, sökum hinnar háu húsaleigu. Jeg skal taka það fram, að mjer finst allósanngjarnt að spyrja svo nú, þegar þetta mál er aðeins að koma inn í hv. Nd. Auk þess tel jeg slíkar spurningar sem þessa tæplega leyfilega á Alþingi. Þær gætu verið rjettar á kjósendafundi.

Ekki er það rjett, að lítið hafi verið bygt af húsum hjer síðan 1914, því að stór hluti af bænum hefir verið bygður síðan af mörgum fátækum mönnum bæjarins. Yrðu þeir því illa úti, ef þetta frv. yrði að lögum.

Jeg hygg, að rjettast sje að mat sje á húsaleigunni, en ekki hámark sett með ákveðinni hundraðstölu. Og jeg veit ekki hvort bæjarstjórnin ætlar að miða matsverð íbúðanna við verð húsanna, sem nú er verið að byggja, eins og hv. þm. (JJ) sagði. Jeg kannast ekki við, að til sje í þinginu neinn flokkur, sem standi nærri embættismönnum, eins og háttv. 5. landsk. þm. (JJ) var að tala um. Jeg held, að við eigum að standa jafnnærri öllum stjettum og sýna enga hlutdrægni, hvaða stjett sem á í hlut. Þó má vera, að það takist misjafnlega stundum.

Aðalatriðið, sem fyrir mjer vakir í þessu máli, er, að jeg tel ólíklegt, að málinu sje betur borgið með lögum frá þinginu, en með því að láta bæjarstjórnina ráða.

Um það, hvort fresta eigi þessu máli, hefir nefndin ekki borið sig saman. En jeg lít svo á, að þá gæti orðið nokkurskonar hringur, þar sem bæjarstjórnin biði eftir þinginu og þingið eftir bæjarstjórninni. Því að bæjarstjórnin teldi þýðingarlaust að setja skyldumat á íbúðir, ef þingið samþykti svo hundraðsgjald á eftir.

Annars læt jeg hæstv. forseta ráða, hvort hann tekur málið af dagskrá eða ekki.