14.04.1923
Efri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get ekki látið þetta frv. svo hjá mjer fara, að segja ekki um það nokkur orð frá sjálfum mjer. Jeg var „skotinn“ í frv. þessu fyrst, þegar það kom fram, og jeg get hugsað að eitthvað svipað komi fram síðar, ef bæjarstjórnin gerir ekkert í málinu. En jeg hefi hallast að því, að þetta sje fyrst og fremst bæjarmál, og því vil jeg gefa bæjarstjórninni tækifæri til að koma því í horf. Að vísu horfir ekki vænlega um, að bæjarstjórnin geri nokkuð, en hjer er verið að herða á henni til að nota þá heimild, sem hún hefir til að takmarka húsaleiguna. En jeg sakna eins, sem átti að koma fram í þessu máli, og það er áhugi hjá leigjendum hjer í bænum. Frá þeim hefir ekkert heyrst, en þvert á móti hafa húseigendur stofnað fjölment mótmælafjelag.

Jeg hefi átt tal við einn foringja verkamanna um þetta, þar var enginn áhugi fyrir þessu frv., heldur þvert á móti. Þetta þótti mjer undarlegt, og hefir það áhrif á atkvæði mitt í þetta sinn. En geri bæjarstjórnin ekkert, þá álít jeg, að þingið verði að taka málið upp síðar.