22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1989)

19. mál, vitabyggingar

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Eins og kunnugt er hafa verið samin og samþykt ekki alls fyrir löngu heildarlög um síma og brýr hjer á landi. Það lá því nærri að vænta þess, að slíkt frv. sem þetta yrði á næstunni lagt fyrir þingið. Því fylgir sá kostur, að með því næst betra heildaryfirlit (System) í þessum málum. Sá galli er hins vegar þó á þessu frv., eins og á lögunum um síma og brýr, að það fer eins og þau gersamlega utan við fjárlögin. Verður afleiðingin sú, að oft hlýtur að koma fram stórkostlegur tekjuhalli í raun og veru á árinu, því að útgjöldin koma fram á landsreikningnum á sínum tíma, en tekjur engar, nema lán einhverntíma fyrir löngu, sem oft hefir verið eytt til annars en ætlast var til. Er slíkt mjög óviðfeldið og getur enda orðið hættulegt, að þingið hafi ekki vald á öllum stærri útgjalda- og tekjuliðum ríkissjóðsins. Verða fjárlögin í raun rjettri með þessu móti fölsk. Rjett á litið ættu öll gjöld og tekjur ríkisins að koma fram í fjárlögunum eða fjáraukalögunum. Þetta mætti þó laga með því að setja tekjumegin þá upphæð af teknu láni árlega gegn útgjöldunum; á þennan hátt hyrfi þessi halli og þingið fengi tækifæri til að athuga hvern útgjaldalið á samgöngutækjum fyrir sig, eins og vera ber.

Þetta mál kom fyrir þingið í fyrra og var vel tekið, en vísað til landsstjórnarinnar til frekari undirbúnings. Er það nú fram komið í annað sinn fyrir áskorun þingsins og vitamálastjóra. — Skal jeg leyfa mjer að leggja það til, að því, að umr. lokinni, verði vísað til samgöngumálanefndar.