12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

19. mál, vitabyggingar

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er aðeins fátt, sem jeg þarf að taka fram um þetta mál. Nefndin hefir tekið ágætlega í frv. og ekki breytt því neitt verulega. Hvað viðvíkur breytingunni í 3. gr. frv., þá er það hvorttveggja, að hún er ekki mikil, enda sýnilegt, að ekki muni takast að byggja vitakerfið á 8 –10 árum. Hefir og vitamálastjóri fallist á þetta.

Sama er að segja um breytinguna á 4. gr., um ljósmagnið, að það er álitið rjettara að hafa það á valdi stjórnarinnar að ákveða bæði legu og ljósmagn, ef þurfa þykir.

Um rekstrarkostnaðinn, sem af þessu frv. mundi leiða, er það að segja, að hann fer varla mikið fram úr því, sem vitagjaldið er. Það er nú um 160 þús. kr., en rekstrarkostnaðurinn um 150 þús. kr. Að öðru leyti þarf jeg ekki að fjölyrða um málið, en vil aðeins mæla með því við hv. deild, að frv. fái að ganga greiðlega hjer í gegn.