12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

19. mál, vitabyggingar

Jón Þorláksson:

Jeg verð að taka undir með hv. 2. þm. Skagf. (JS), og er þá jafnframt gott til þess að vita, að hæstv. stjórn hefir verið þetta sama ljóst. En það er stefna, sem full nauðsyn er á að vara alvarlega við, þegar þingið hefir ekki lengur tök á fjárhagsmálum landsins og stjórninni eru heimilaðar allskonar framkvæmdir, sem fje þarf til, með öðrum lögum en fjárlögunum. En það er bæði eðlilegt og sjálfsagt, að láta þetta alt — einnig vitana — koma fram í fjárlögunum sjálfum, eins og hæstv. atvrh. (KIJ) tók líka fram. En það væri líka jafnframt rjett, að þetta kæmi skýrt fram í vitalögunum sjálfum, að lántökur til vitabygginga skyldu teknar upp í fjárlög hvers árs, og ætti nefndin, sem með þetta fer, að athuga þetta.