04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2005)

19. mál, vitabyggingar

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hefi raunar fáu við að bæta það, sem jeg sagði í málinu við 1. umr. Breytingar nefndarinnar eru í sjálfu sjer allar óverulegar, nema 6. brtt., um að 3. gr. falli burt. Hvaða snertir 5. brtt., þá stafar hún sýnilega aðeins af prentvillu í frv. stjórnarinnar. Eins og jeg tók fram í Nd., þá býst jeg ekki við, að heimildin til lántöku yrði notuð fyrst um sinn, þótt hún stæði í lögum. Því að, þótt stjórnin vildi leita fyrir sjer með lán, þá er hæpið, að hún mundi geta fengið það nú. Það mundu sennilega líða nokkur ár, uns það væri hægt.

Af þessum ástæðum sje jeg ekki, hvers vegna 3. gr. má ekki standa, úr því að ákvæði hennar verða þó ekki notuð fyrst um sinn, og ekki fyr en eitthvað um hægist. Aðrar breytingar nefndarinnar eru, sem sagt, engar efnisbreytingar, og get jeg því ekki sjeð neitt athugavert við það, þótt þær verði samþyktar.