03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

52. mál, berklaveiki

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Eins og greinargerð frv. ber með sjer, er það upphaflega samið af dýralækninum hjer í Reykjavík. hr. Magnúsi Einarssyni, en borið fram af landbúnaðarnefnd Nd.

Eins og sjá má af greinargerðinni hefir nefndin átt tal við dýralækni Magnús Einarsson, og ljet hann þá í ljósi, að þó að frv. þetta væri eigi að öllu leyti eins úr garði gert og hann hefði ætlast til, þá væri hann því engu að síður meðmæltur. Það er sannað mál, að sjúkdómur þessi er mjög hættulegur. Hefir dýralæknirinn í Stykkishólmi, sem er staddur hjer í bænum um þessar mundir, sagt mjer, að hann hafi haldið áfram rannsóknum sínum í grendinni við þennan bæ í Arnarfirði, þar sem veikin kom fyrst í ljós, og fundið sjúkdóminn í 3 nautgripum á næstu bæjum. Dýralæknirinn á Akureyri hefir grun um það, að sjúkdómur þessi eigi sjer stað í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, og hefir hann látið fara fram rannsókn í þeim sýslum. Jeg segi, látið fara fram, af því að hann hefir eigi verið við þær rannsóknir sjálfur, nema þá sumstaðar, en fengið annan til þeirra. Þótti manni þeim, sem rannsóknirnar hafði á hendi, ástæða til að ætla, að sjúkdómur þessi væri þar, en hve yfirgripsmikil eða ábyggileg þessi rannsókn hefir verið, skal jeg láta ósagt. Kostnaðurinn við hana var greiddur af nautgripaeigendum. Þar sem vissa er fengin fyrir því, að sjúkdómur þessi er til, og sterkur grunur um, að hann sje víða, er nefndin einhuga um, að nauðsynlegt sje að frv. nái fram að ganga. Hefi jeg svo eigi meira við að bæta, en óska, að frv. verði vísað til 3. umr. og látið ganga fram í þessari háttv. deild.