17.03.1923
Efri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2024)

73. mál, bifreiðaskattur

Flm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg þarf ekki að hafa langar umræður um þetta frv. — Á þingi 1921 var mikið rætt um þennan skatt, og voru skoðanirnar þá mismunandi og átti frv. erfitt uppdráttar. Meiri hluti fjhn. lagði þá til, að frv. væri felt, (sbr. þskj. 422, 1921), og færði góð og gild rök fyrir, sem ennþá eru í fullu gildi, þó að frv. að lokum næði samþykki.

Sömu ástæður og þá voru færðar gegn frv. eru að vísu enn fyrir hendi, en jeg vildi þó eigi ganga svo langt nú að fella skattinn alveg niður, en fer aðeins fram á lækkun á skattinum af fólksflutningabifreiðunum.

Þær þrjár höfuðástæður, sem færðar voru til varnar frv. 1921, voru þessar:

1) Bifreiðarnar orsökuðu skemdir á vegunum,

2) Þær væru „luxus“ og

3) Skrásetning þeirra hefði í för með sjer talsverðan kostnað.

Um þetta er það að segja: 1. ástæðan, sem þótti veigamest þá, hefir nú að baki sjer nokkra reynslu, er sýnir, að bifreiðarnar skemma vegina lítið meira en ýms önnur farartæki, t. d. vagnar. 2. atriðið, að bifreiðarnar sjeu „luxus“, er einnig horfið. Einstakra manna bifreiðar eru úr sögunni, eða því sem næst, og yfirleitt má segja, að bifreiðar sjeu orðnar nauðsynleg farartæki. 3. ástæðan heldur sjer enn að vísu, en ekki getur skrásetning bifreiða haft sjerlega mikinn kostnað í för með sjer, svo sú ástæða er veigalítil, og þarf ekki að hafa skattinn háan hennar vegna.

Skatturinn gerir ferðirnar dýrari, og er það óheppilegt hjer, þar sem svo er ástatt, að bifreiðaferðirnar útiloka ekki og keppa ekki við önnur farartæki, enda eru þær nauðsynlegar.

Frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, fer fram á, að mannflutninga- og vöruflutningabifreiðar borgi jafnan skatt, enda er munurinn á þeim orðinn svo lítill, þar sem vöruflutningabifreiðar flytja einatt fólk, og sumar beinlínis yfirbygðar fyrir mannflutninga. Þær eru að vísu óþægilegri fyrir fólk, en geta verið ódýrari, þar sem þær borga miklu lægri skatt og flytja fleira fólk í einu.

Önnur hlið þessa máls er sú, sem að ríkissjóði veit, hversu mikið tapast af skattinum, ef frv. þetta nær fram að ganga. Jeg veit nú ekki nákvæmlega, hverju skattur þessi nam árið sem leið, en eftir því, sem næst verður komist, þá hefir hann orðið um 22 þús. kr. En að gera áætlun um, hve miklu lækkunin myndi nema eftir frv. þessu, er ómögulegt, þar sem ekki er hægt að greina á milli þess, hvað vöruflutninga- og mannflutningabifreiðar hafa borgað. Það, sem fyrir mjer vakir, er það að lækka gjaldið, en fella það ekki burt, svo jafnan verði þó uppborinn sá kostnaður, er af skrásetningunni leiðir, og þó meira.

Jeg vil vona, að frv. þetta nái fram að ganga og að þeir, sem voru móti frv. 1921, geti orðið á það sáttir, að gjaldið sje lækkað niður í 2 kr. á hestafl. Vil jeg svo leggja til, að frv. gangi, að aflokinni umr., til fjárhagsnefndar.