21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2036)

96. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg get látið mjer nægja að hafa stutta framsöguræðu í þessu máli, því ástæðurnar, sem fylgja frv., gera grein fyrir tilgangi þess.

Frv. er samið með það fyrir augum, sem nú er á daginn komið, að sú undanþága frá bannlögunum, að inn yrðu flutt ljettari vín, næði fram að ganga.

Nú er þá komið þannig, að það eina, sem hægt er að gera í baráttunni gegn áfenginu, er að reyna að fyrirbyggja ofdrykkju með því að láta þá hljóta hæfilega sekt eða refsingu, er spilla velsæmi með ofdrykkju eða lauma sterkum vínum inn í landið.

Ef sett er hæfilega hátt gjald á hvern lítra, þá verður það hvöt fyrir ólöglega vínsala að hafa ekki miklar birgðir, því það gæti borgað sig illa, ef þeir hlytu sektir við og við.

Þá er annað atriðið, sem er og til bóta, eins og rjettarfari er háttað hjer, en það er, að sektirnar sjeu miðaðar við efni brotamannsins. Sektirnar hafa hingað til verið ákveðnar svo lágar, að hina ríku hefir ekkert munað um að láta þær af hendi. Hitt er minni háttar atriði, að hreppstjórar fari með dómsvald í þessum málum, en verður óhjákvæmilegt, til að geta framfylgt lögunum, að fleiri en sýslumenn fari með dómsvald í þessum málum, til þess að allir þeir geti orðið sektaðir, sem sjást drukknir á almannafæri.

Ef frv. þetta verður látið ganga til 2. umr., sem jeg geri ráð fyrir, þá leyfi jeg mjer að leggja til, að því verði að umr. lokinni vísað til allsherjarnefndar.