21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2038)

96. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg sje, að hjer á að gera meira en að samþykkja þessa undanþágu frá bannlögunum. Það á líka að gera hið litla, sem eftir er af þeim, einskisvert. — Annars saknaði jeg þess mjög í ræðu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), og skaði að það skyldi ekki líka koma fram, að hann teldi það óhæfu að vera að sekta vínsala um þessar 100 kr. (JóhJóh: Jeg tók bara það fáránlega í frv.!). En það er víst ekki fáránlegt, að dómararnir hafa ávalt beitt lægstu sektarákvæðunum.

Þá hefir það og reynst allerfitt að sanna slík brot. Hefir jafnvel komið fyrir að eiður tveggja lögregluþjóna hefir ekki dugað. Hið fáránlega við þessar brtt. mínar er það, að þær ganga í bága við „praksís“ dómaranna, eins og ummæli hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sýna.

Hann vill ómögulega að þeir ríku sjeu sektaðir í hlutfalli við tekjur þeirra. Þessi aðferð, að sekta menn eftir efnum, hefir verið reynd í Finnlandi og þótt gefast vel. En sennilega er hv. þm. Seyðf. ókunnugt um það.

Jeg get lofað því, að jeg muni þola hjer eftir, eins og hingað til, að fullir menn slæpist hér um göturnar. En sú getur tíðin komið, að löggjöf þeirra Finnanna verði talin af þjóðinni jafnrjett eins og löggjafarheimspeki þeirra Seyðfirðinganna.

Að hreppstjórum sje veitt vald til að dæma í svona málum, álít jeg ekki hættulegt. Til þess þarf enga sjerstaka lagakunnáttu, ef lögin eru ljós.

Jeg skal játa það, að frv. þetta sje fáránlegt, ef það er fáránlegt að taka af dómurum landsins freistinguna til þess að dæma seka menn altaf í lægstu sekt fyrir að brjóta lög, sem eiga að vernda heilsu og siðgæði. Háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) taldi öll tormerki á því, að hægt væri að fá vitneskju um tekjur þeirra manna, er sekta ætti. En hvernig hefir verið farið að því hingað til að fá vitneskju um tekjur manna? Er ekki í hverju sveitarfjelagi skattanefnd og í hverri sýslu yfirskattanefnd og í Reykjavík skattstjóri? Allir þessir aðiljar eiga að vita mjög nákvæmlega um tekjur þeirra. Að minsta kosti ætti það ekki að vera erfitt að því er snertir embættismenn landsins, enda kom það fram í ræðu háttv. þm. Seyðf., að hann ætti ekki örðugt með að ákveða tekjur lækna. En hvers vegna geta læknar eigi látið vera með að brjóta þessi lög — og ef þeir brjóta þau, hvers vegna á þá eigi að hegna þeim eins og öðrum? Jeg lít svo á, að gagn það, sem hafa má af gömlum lögfræðingum, sje aðallega það að láta þá færa í form, það sem þeim hugkvæmari menn bera fram. Og það er nú einu sinni svo, að sumum lögfræðingum okkar dettur sáralítið í hug, og því álít jeg það eigi rjett, að þeir noti sjerþekkingu sína eingöngu á þann hátt að segja nei við öllu því, sem að einhverju leyti er nýmæli og til umbóta. Þeir tímar munu koma, að eigi dugi slíkt tómlæti, er um nýmæli er að ræða. Þá verður hætt við, að golan, sem flestir ráðherrar vorir virðast fyrirlíta, skoli sumum þeirra í burtu, sem ekki hafa haft annað að segja um það, sem nýtt er, en blákalt nei hins innantóma manns.