09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

123. mál, skipun prestakalla

Flm. (Björn Kristjánsson):

Eins og getið er í ástæðunum fyrir frumvarpi þessu, er það borið fram eftir ósk safnaðarfundar í Mosfellsprestakalli, sem haldinn var 12. nóv. 1922.

Fundur þessi sendi áskorun til kirkjustjórnarinnar, þess efnis, að Mosfellsprestakall fái að halda sjer framvegis eins og það hefir verið.

Mál þetta var fyrst lagt fyrir hjeraðsfund Kjalarnessprófastsdæmis 20. sept. f. á., og telur sá fundur með öllu óhjákvæmilegt, að Mosfellsprestakall haldist framvegis sem sjerstakt prestakall, svo sem verið hefir, og telur nauðsyn á að breyta prestakallalögunum frá 1907 í þessu sambandi.

Loks er á allfjölmenum safnaðarfundi, sem haldin er í Reykjavík 7. okt. f. á., lýst yfir því, að dómkirkjuprestunum sje með öllu ókleift að þjóna Lágafells- og Viðeyjarsóknum, og jafnframt skorar fundurinn á þing og stjórn að breyta lögum um skipun prestakalla þannig, að Mosfellsprestakall verði sjálfstætt prestakall hjer eftir sem hingað til.

Að síðustu sneru hlutaðeigendur sjer til biskupsins, og skrifar hann allítarlegt brjef til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 13. febr. 1923, og mælir með því, að prestakallið fái að halda sjer óbreytt.

Færir hann þar til ástæðna meðal annars, að síðan prestakallalögin voru sett, hafi dómkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík vaxið úr 6 þús. upp í 12 þúsundir manna. Hafi verksvið dómkirkjuprestanna þannig aukist um helming síðan lögin voru sett. Geti þeir því með engu móti tekið við þjónustu þessara safnaða, nema þá því aðeins, að þriðja prestinum verði bætt við Reykjavíkur dómkirkju.

Auk þessa beri á það að líta, að eigi Reykjavíkurprestarnir að þjóna þessum söfnuðum, þá muni aukatekjur þær, er þeir fengju í þeim, ekki hrökkva fyrir ferðakostnaði, hvort sem þeir ferðuðust á hestum, bifreiðum eða með mótorbát inn í Viðey.

Það er nú tæpt ár síðan sjera Magnús á Mosfelli dó, og hefir prestakallinu verið þjónað síðan af prófastinum í Görðum og prestinum á Reynivöllum.

Það hefir komið til tals að setja þarna prest, en um það er almenn óánægja, því að óhjákvæmilegt er talið, að prestakallið fái að standa óbreytt.

Að frv. þetta kom svona seint fram, stafar af því, að hlutaðeigendur sendu skjöl þessi til stjórnarinar í þeirri von, að hún legði frv. þetta fyrir þingið. Og hafa skjölin legið hjá hæstv. stjórn nú alllengi.