09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2052)

123. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

Jeg get tekið undir með hv. 4. landsk. þm. (JM) um það, að í raun og veru sje um tvo strauma að ræða í trúarlífi þjóðarinnar. Hefir trúarlífið að sumu leyti vaxið, en það hrekur þó eigi skoðun mína á þessu máli. Er trúaráhugi manna nú mest bundinn við hreyfingar utan þjóðkirkjunnar, eins og t. d. Guðspekifjelagsins og spiritismans, hjer í bæ að minsta kosti. Athugasemd hans um það, að menn geri nú alment meiri kröfur til presta en áður, er alveg rjett. En það leiðir til þess, að þeir prestar, sem góðir eru, njóta sín betur með því að láta þá fá tækifæri til að messa sem oftast og viðast. Er því af þeirri ástæðu hæpið að fjölga föstu prestaköllunum. Fólkið í Mosfellssveit, getur hæglega náð í góða presta bæði úr Reykjavík, Hafnarfirði og Görðum. Álít jeg eigi rjett að binda prestaköllin, en reyna heldur að hjálpa fólkinu til að ná í góða presta.