17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2059)

123. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

í máli þessu eru tvær stefnur hjer í deildinni. Annars vegar er flm. og allshn., sem vilja stofna hjer nýtt embætti, en hins vegar stjórnin, sem veigrar sjer við að ganga svona langt, en vill setja í embættið um stundarsakir. Hvorug leiðin er góð. Jeg get ekki fallist á, að það sje rjett að fjölga prestsembættum nú, og furðar mig á því, að menn, sem taldir eru varfærnir, skuli ekki einnig vera varfærnir á þessu sviði, Hjer er ekki aðeins um kostnaðinn að ræða, heldur og ilt fordæmi. Það er óþarfi að eyða fullum prestslaunum í starf, sem hægt er að framkvæma fyrir minna fje. Jeg ljet í dag útbýta þáltill., sem gengur í þá átt að spara þetta fje með því að fara aðra leið en upprunalega var ákveðin. Það er auðvelt að fá góða, gamla presta, sem sestir eru hjer að, til þess að taka að sjer starf þetta. Þeir hafa lítið að gera, sitja löngum á Landsbókasafninu við lestur frómra bóka. En þeir eru sjer oft úti um aukaatvinnu. Jeg hygg, að jeg fari ekki rangt með það, að fyrir nokkrum árum hafði einn af mestu kennimönnum þessa lands 1000 krónur á ári fyrir það að messa fyrir troðfullu húsi í Reykjavík annanhvern sunnudag. þetta sýnir, að hægt er að komast að skynsamlegum samningum, ef það aðeins er reynt. Nú eru greiddar 700 kr. á ári fyrir guðsþjónustur á Kleppi. Auðvelt væri að sameina það hinu nýja starfi. Með þessu móti er hægt að hjálpa brauði þessu án þess það þurfi að kosta ríkissjóð nema um 300 kr. á ári í viðbót við þóknunina til guðsþjónustu við spítalann, og hygg jeg, að það sje besta lausnin á þessu máli.