17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

123. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg skal ekki fara út í það mál, hvort þetta er sparnaður eða ekki. En það er rangt, ef hv. 5. landsk. þm. (JJ) heldur því fram, að þessir menn eigi ekki rjett til sömu þjónustu og aðrir landsmenn, eða að fá messur svo að svari til prestsþjónustu 3. hvern sunnudag á hverri kirkju. (JJ: Eða 7. hvern). Þó það sje kanske til, þá má það ekki vera sjaldnar en 3. hvern sunnudag. Og þar sem einn prestur hefir 3 kirkjur, þá hafa sóknarmenn heimtingu á prestsþjónustunni þannig. 300 kr. er auðvitað engin borgun fyrir þjónustuna.

Hvað ferðir Mosfellssveitarmanna til Reykjavíkur snertir, þá fara þeir með mjólk og annað hingað, enda reikna þeir víst borgun fyrir ferðir sínar; að minsta kosti legst mikill kostnaður á þetta hjá Mjólkurfjelaginu. Var óþarfi að koma því inn í þetta mál.

Hvað það snertir að setja prest í þetta embætti, þá álít jeg það tæplega færa leið, án þess að bera málið undir sóknarmenn.