21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

87. mál, samkomutími reglulegs Alþingis

Þorsteinn Jónsson:

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) endaði ræðu sína með því, að það væri ekki af því góða að vera að hringla með samkomutíma Alþingis. Og jeg er sannfærður um, að það sje rjett, að Alþingi hefði aldrei átt að hringla með hann.

Það var þegar snemma á 10. öld, er Alþingi var sett, að heppilegra þótti að halda það að sumri til. Hjelst sá siður alla tíð til ársins 1800, er Alþingi var niður lagt. Er mjer ekki kunnugt, að á öllu því tímabili hafi heyrst raddir um að hafa vetrarþing. Þetta kom auðvitað af því, að á sumrum var langþægilegast að halda þing, sökum veðráttunnar, og þá voru ferðalög auðveldari en á vetrum. Eftir að Alþingi var endurreist og til ársins 1909 voru ávalt haldin sumarþing, en þá var því breytt, og var fyrsta vetrarþing háð 1909. Ekki leið þó á löngu áður menn yrðu óánægðir með vetrarþingin, og voru samþ. lög í þinginu 1912, þar sem samkomutíminn var aftur færður til sumarsins. Þessi stutta reynsla, sem fengist hafði, var þegar búin að sýna mönnum fram á þá ókosti, sem vetrarþingunum fylgdu. Og þeirrar reynslu hefði ekki átt að þurfa með. Öllum, sem þektu til íslensks vetrarveðurfars og íslenskra samgangna, hefði átt að vera lóst, að það fyrirkomulag, að hafa þing að vetri til, getur ekki lengi staðið.

Nú vildi svo óheppilega til, að þegar nýja stiórnarskráin var sett, 1920, var enn hringlað með samkomutímann. Síðan hafa að vísu engin stórvandræði hlotist af að hafa samkomutímann að vetrarlagi, en undanfarnir vetur hafa líka verið óvenjumildir, svo að ferðalög hafa gengið sæmilega. En þar með er ekki sagt, að svo verði jafnan í framtíðinni, og ekkert er líklegra, ef vetrarþing halda áfram, en að þingmenn, sem búa í fjarlægum landshlutum, komist stundum alls eigi til þings, eða þá ekki fyr en meira eða minna er liðið á þingtímann.

Sumstaðar eru miklir örðugleikar að komast til skips á vetrum, svo sem er viða á Austfjörðum. Þar er viða yfir fjallgarða að fara, einhverja þá verstu á landinu. Er þá oft tvísýnt, hvort maður kemst klaklaust úr þeim ferðalögum. Hefir t. d. tvisvar komið fyrir mig nú á undanförnum vetrum, þegar jeg hefi þurft að fara til þings, að jeg hefi þurft að leggja upp í tvísýnu veðri úr Borgarfirði eystra, til þess að ná í skip á Seyðisfirði. Höfum við flm. frv. átakanlega reynslu fyrir okkur í þessu efni. (BH: Það hafa fleiri).

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) gerði lítið úr þeirri ástæðu hv. flm. (SvÓ), að þm. væri oft stefnt í voða með vetrarferðalögum. Kvað hann þeim ekki vandara um en öðrum. Það getur nú máske rjett verið. En þegar hægt er að sýna fram á, að vetrarþingin koma í bága við hagsmuni þjóðfjelagsins, þá ætti það að vera ástæða, sem taka mætti tillit til. Það má vel vera, að ekki sje mikill munur á kostnaði við hitun alþingishússins, hvort sem þing er háð á sumrum eða vetrum. En það er ýms annar kostnaður, sem mikill munur verður á. Má þar sjerstaklegt til telja ferðakostnað þingmanna. Það er vitanlegt, að hann verður miklu meiri á vetrum en sumrum, sjerstaklega hjá þm. úr fjarlægum landshlutum. Og komi það fyrir, — sem áreiðanlega verður fyr eða síðar, ef þing verður haldið framvegis á vetrum —, að skip tefjist í hafi, svo að fresta verði setningu þings í marga daga, kanske svo vikum skiftir, þá sjá allir, hvílíkan kostnað slíkt hefir í för með sjer fyrir ríkið.

Það má vel vera, að sumir hv. þm. vilji bíða eftir þeirri reynslu, þótt dýrkeypt sje, en þess verður ekki mörg ár að bíða, að þessi breyting komist á.

Þá var hv. 4. þm. Reykv. (MJ) að minnast á vinnubrögðin. Vildi hann halda því fram, að betur yrði unnið á vetrum en sumrum. Jeg skal ekki fara út í það, á hvað tíma árs menn sjeu best fallnir til vinnu. En jeg ætla, að þingmenn hraði meir störfum sínum á sumrum og leggi sig betur fram, til þess að geta fyr komist heim.

Þá talaði hv. þm. um það, að þm. af flestum stjettum væri hentugra að sitja á þingi á vetrum. Um þetta eru mjög skiftar skoðanir. Bændur deila um, hvort betra sje, og auðvitað er alt af vont að þurfa að vera frá heimilum sínum, svo að þessu leyti eru þeir best settir, sem heima eiga í Reykjavík. En mjer kemur einkennilega fyrir, að kennari við háskólann skuli koma fram með þessar skoðanir um vetrarþing. Það geta allir sjeð, að óhentugt er fyrir menn að gegna tveim fullkomnum störfum samtímis. (MJ: Jeg undantók einmitt kennara). Annaðhvort hlýtur að verða útundan. (MG: En að vera jafnframt kennari á Akureyri ). Jeg býst ekki við, að það verði til bóta fyrir störf kennara að vera að heiman á vetrum.

Það vill einmitt svo til, að nú eiga 2 háskólakennarar og 2 skólastjórar í Reykjavík sæti á þingi. Jeg býst ekki við, að það sje til bóta fyrir störf þeirra, að þing eru háð að vetrinum til. Þau hljóta að liða við það. (MG: En barnaskólakennarar á Akureyri?). Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) býst við, að jeg haldi þessa ræðu sjálfs mín vegna. Því fer fjarri, en hver þekkir best sjálfan sig, og því heldur hv. 1. þm. Skagf. að mjer sje farið sem honum, þegar um eiginhagsmuni er að ræða.