20.02.1923
Efri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

2. mál, sýsluvegasjóðir

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Alþingi hefir tvívegis skorað á stjórnina að gera tillögur um að auka framlag til vegagerða, fyrst 1915 og svo aftur endurtekið 1919. Hið lögákveðna gjald til sýsluvega er nú samkvæmt 20. gr. vegalaganna kr. 3.00 af hverjum verkfærum manni. En það er alt of lítið, þar sem kröfurnar um bætta akvegi eru altaf að aukast, og auk þess hvílir viðhald á flutningabrautum á mörgum sýslum.

Er því auðsætt af þessu, að auka þarf framlag til sýsluveganna. Samkvæmt kröfu þingsins 1919 samdi vegamálastjóri frumvarp til laga um sýsluvegasjóði. er lagt var fyrir þingið 1921. Var það samþykt í neðri deild, en varð ekki útrætt í efri deild. Stafaði það aðallega af því, að það kom mjög seint fram, svo að háttv. deild þótti tíminn of stuttur, er hún gat haft það til meðferðar. Líka var það tekið fram hjer í deildinni, að vafasamt væri, hvort grundvöllur frumvarpsins væri rjettur, sjerstaklega að því er snertir gjöld af hlunnindajörðum. t. d. í eyjum úti, og jörðum, sem sjerstaklega njóta sjávarhlunninda, og húsum í kaupstöðum. Bar nefndin hjer í deildinni því fram rökstudda dagskrá, er frv. var afgr. með til stjórnarinnar með áskorun um að undirbúa það á ný.

Í fyrra var frv. ekki borið fram, en er nú komið fram fyrir vilja vegamálastjóra og þingsins, og eru nú teknar til greina þær breytingar, er samgöngumálanefnd efri deildar 1921 telur í nál. sínu æskilegar. Þannig er lágmarksskatturinn færður niður úr 2% í 11/2%. En aðalbreytingin er þó sú, að lögin verða nú aðeins heimildarlög fyrir sýslunefndirnar að leggja á nýjan fasteignaskatt, er varið verði til vegabóta, í stað sýsluvegagjaldsins. Og þurfa því þær sýslur, sem litla vegi hafa, alls ekki að nota þau, og yfir höfuð að tala er hverri sýslunefnd sett það í sjálfsvald. hvort hún vill nota lögin eða ekki.

Sje jeg svo eigi ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar nú, og legg til, að frv. verði, að umræðunni lokinni, vísað til samgöngumálanefndar.