28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

102. mál, bankaráð Íslands

Jónas Jónsson:

Jeg skal nú ekki að sinni fara út í mál, sem ekki liggur hjer fyrir, heldur snúa mjer að hv. frsm. minni hl. (BK) og taka framsöguræðu hans til athugunar, sem var að efni til „kritik“ á sjálfu frv., sem liggur fyrir.

Jeg held, að hv. minni hl. hafi ekki áttað sig á því, að þjóðin er fyrir löngu orðin óánægð með fyrirkomulagið á bankaráði Íslandsbanka. Bankaráðið hefir aldrei starfað neitt.

Síðustu mánuðina hefir það að vísu haldið fundi, en einungis, til ógagns. — Bankaráðsstaðan hefir verið bitlingur, þinginu og flokkum þess til óvirðingar. Bitlingur þessi hefir sjerstaklega lent hjá þeim mönnum, sem stóðu að stofnun Íslandsbanka eða hafa síðan reynst traustur lífvörður hans.

Þessu bankaráði Íslandsbanka, sem eftir upplýsingum hv. frsm. minni hl. (BK) mun ekki vera af þessum heimi, því hann taldi bankann utan veraldarinnar, hafa engar skyldur nje vandi verið lagðar á herðar, en þar á móti mikil laun. — Það var því ekki að undra, þótt það kæmi á annan hv. minni hl. nefndarmann (SHK), sem setið hefir sólarsinnis í þessu bankaráði og fengið þar mikil laun fyrir litla vinnu, þegar hann sá, að hjer gat orðið um röskun á því að ræða. Það er því ekki ósennilegt, að hv. frsm. minni hl. (BK) hafi verið „innblásinn“ af honum, þegar hann hjelt því fram í ræðu sinni, að ekki mætti ætlast til neinnar vinnu, nema laun kæmu fyrir. En þetta ákvæði, um að bankaráðinu verði ekki launað af bönkunum, er bygt á þeirri fyrirlitningu, sem er orðin almenn á því fyrirkomulagi, sem verið hefir á bankaráðinu, og jafnvel þeim mönum, sem margir hverjir hafa sóst eftir þessum bitlingum.

Þegar það er athugað, hve mikið ólán það hefir verið, að atvinnuvegir landsins hafa enga hlutdeild getað átt í því, hvernig Íslandsbanki hefir varið fje sínu, en að erlendu hluthafarnir hafa getað leikið sjer með fje bankans eftir eigin vild, þá er furða, að hv. frsm. minni hl. (BK) skuli gera svo lítið úr því ráði, sem skipað á að vera trúnaðarmönnum atvinnuveganna. Honum er þó máske vorkun, þótt hann telji bankaráð ekki geta framkvæmt „kritiska revision“, því eftir hans dómi hefir bankaráð Íslandsbanka ekki verið fært um það, og annað betra fyrirkomulag á bankaráði getur hann ekki hugsað sjer.

Þá eru sparisjóðirnir eftirlitslausir. Að vísu hefir áður á þingi verið borið fram frv. um eftirlitsmann fyrir sparisjóðina, en náði þá ekki fram að ganga. En syndagjöldin vegna eftirlitsleysisins eru líka að koma fram á þeim. T. d. er einn sparisjóður nú svo nauðulega staddur, að hann hefir orðið að neita að taka sínar eigin innlánsbækur upp í sín eigin lán, nema þá með stórum afföllum, eða líkum „kurs“ og hlutabrjef Íslandsbanka hafa selst erlendist nú síðustu ársfjórðunga. Fleiri sparisjóðir eru illa staddir, þó þessi sje verst staddur. Þessi sparisjóður. Eyrarbakkasparisjóðurinn, er nánast skoðað útibú frá Íslandsbanka. Sýnist sparisjóðurinn ekki hafa haft neina blessun af áhrifum þeim, er hann hefir fengið frá hluthafastjórninni þar.

Það má nú segja, að það hafi ekki komið að sök fyrir Landsbankann, þótt þar hafi ekki verið bankaráð. En það er þó ekki að þakka aðgerðum þingsins 1909, því þær urðu síst bankanum til hagsmuna, og meðal annars má segja, að síðan og fram á árið 1917 hafi bankinn verið lokaður fyrir bændur. Enda ekki undarlegt, eftir framkomnum ummælum hv. 2. þm. G.-K. (BK), að svo væri meðan hann stjórnaði honum. En það má telja sjerstakt, að þingi og stjórn hepnaðist svo að skifta um stjórn Landsbankans 1917, að hann hefir síðan eflst landi og lýð til blessunar og orðið fær um að hjálpa landsstjórninni á þessum þrengingartímum.

Það er engin trygging fyrir því, þó að nú sem stendur sje góð stjórn á Landsbankanum, að það haldist til lengdar. Sjávarútveginum og verslun kaupmanna stjettarinnar fylgir svo mikil áhætta, að það er engin trygging fyrir því, að bankastjórnin geti ætíð haft nægilegar gætur á því, að atvinnuvegir þjóðarinnar borgi sig án stuðnings annara stjetta í landinu. Eins og allir menn vita, hefir tekist óheppilega til með rekstur Íslandsbanka og útibús Landsbankans á Ísafirði, og svo getur oftar komið fyrir. Frv. þetta gengur út á það að setja allar peningastofnanir landsins undir eftirlit þjóðfjelagsins. Það má auðvitað kalla það ráðstjórn, eins og hv. 2. þm. G.-K. (BK). En eftir skrifum þess hv. þm. að dæma, þá virðist hann vera harla ókunnugur þeim hlutum. Er eigi að undra, þó að hann bresti þekkingu á þjóðskipulagi fjarlægra landa, þar eð hann, eftir vitnisburði hv. 4. landsk. þm. (JM), ber ekkert skyn á bankamál, enda þótt hann hafi töluvert fengist við þau mál og telji sig auðvitað manna færastan í þeim efnum. Jeg álít að háttv. 4. landsk. þm. (JM) hafi haft rjett að mæla í þessu efni, og þykir mjer leitt, að hann skuli eigi vera viðstaddur hjer í þessari hv. deild í dag, því að jeg vil á engan hátt draga úr heiðri þeim, sem honum ber fyrir þessa mannlýsingu.

Jeg skal taka það fram, að mig skiftir litlu dómar manna, og það allra helst manna eins og hv. 2. þm. G.-K. (BK), um bankaþekkingu mína, en fyrir mjer er það aðalatriðið, að hver hugsun sje rjett hugsuð, og þetta frv. byggist á þeirri skoðun, að bankarnir eigi að vera til fyrir þjóðina. Frv. fer eigi fram á annað en að þjóðin ráði sjálf bönkunum og beri ábyrgð á þeim, en eigi einstakir pólitískir spekulantar, sem stundum vill koma fyrir, eins og þegar reknir eru frá valinkunnir sæmdarmenn einungis til þess að koma einhverjum þingmönnum í stöður þeirra. Er þjóðinni varla betur borgið með því en fyrirkomulagi því, er frv. fer fram á.

Í nál. minni hl. er það tekið fram, að það tíðkist hvergi, að bankaráð sje skipað, sem eigi að ráða yfir fleirum en einum banka í senn. Eru það engin mótmæli gegn kenningunni, þó að það sje ekki algengt. Það mætti þá alveg eins segja, að við yrðum að hafa her og flota, af því að aðrar þjóðir hafa það. En af hverju höfum við eigi her og flota? Það er fyrst og fremst af því að við erum svo fámennir, og auk þess höfum við enga þörf fyrir það. Við höfum nú reynt bankaráð fyrir einn banka — og það hefir gefist eins, og menn vita — eigi vegna þess að það hafi verið svo vont út af fyrir sig, heldur af því að það er bygt á óheppilegum grundvelli. Það er nú svo komið, að jafnvel þeir, sem prísa sig sem ákveðna samkepnismenn, telja það aðalgallann á fyrirkomulagi bankanna hjer, að það sje samkepni á milli þeirra. En það er einungis af því að þá vantar sameiginlegt „forum“ til að mætast á.

Þá segir minni hl. í 2. lið nál., að hann fái eigi sjeð, að Alþingi hafi rjett til að skipa nýtt bankaráð fyrir Íslandsbanka ofan á það, sem fyrir er. Jeg skal taka það fram, að frv. gerir ráð fyrir, að hægt verði að ná samningi um þetta við bankann. Og jeg er viss um, að Alþingi gæti vel fengið þann samning, ef eigi á annan hátt, þá með því að segja bankanum það, að landið lánaði honum eigi fje, nema hluthafar beygi sig undir breytt skipulag. Nú hefir hæstv. forsrh. (SE) getið þess, að hann muni koma með frv. um að skipa sjerstakan eftirlitsmann, til þess að líta eftir hag bankans, enda þótt í bankanum sjeu 3 bankastjórar og bankaráð. Og hæstv. forseti hefir tjáð mjer, að Clausen, bankastjóri Privatbankans, sem er af dansklunduðum Íslendingum álitinn eitthvað milli guðs og manna, hafi sagt, að bankaráðsfyrirkomulagið sje mjög óheppilegt. Ætti því að vera auðvelt fyrir þjóðina að koma þessari breytingu á.

Þá kem jeg að 3. lið í mótbárum hv. minni hl. nefndarinnar, þar sem hann heldur því fram, að annar aðalatvinnuvegur landsins, sjávarútvegurinn, sje algerlega útilokaður frá því, eftir frumvarpinu, að taka þátt í vali slíks bankaráðs. Er þetta hin mesta blekkingartilraun, því hverjir eru þeir, sem að sjávarútveginum standa? Eru það ekki mennirnir, sem vinna að honum, verkamennirnir á skipunum og í landi og eigendurnir? Það hefir líka komið fram í ritdeilu, er form. verslunarráðsins, Garðar Gíslason, átti í fyr meir, að hann álítur kaupmenn og útgerðarmenn eiginlega alveg það sama, og hve litinn greinarmun menn gera á kaupmönnum og útgerðarmönnum, sjest enn fremur á því, að í símaskránni er einn af stærstu útgerðarmönnum þessa bæjar, Thor Jensen, kallaður stórkaupmaður, en ekki útgerðarmaður. Má af þessu sjá, hversu fáránleg fóstur fæðast í huga þessara háttv. þm., sem í minni hl. eru, og er þó annar þeirra framgenginn bankastjóri, en hinn framgenginn bankaráðsmaður. Skilja þeir eigi, að ef kaupmannastjettin og verkamannastjettin hafa helming atkvæða í bankaráðinu, hvor um sig, þá hefir sjávarútvegurinn að minsta kosti helming fulltrúanna, og ef stjórnin er sjávarútvegsstjórn, þá hefir sjávarútvegurinn meiri hluta í bankaráðinu? Að þessu hefir verið komið þannig fyrir í frv., er af því, að kaupmannastjettin hefir sína fulltrúa, þar sem verslunarráðið er, og verkamenn hafa líka mjög fast skipulag. Tel jeg ekki, að íslenskir útvegsmenn hafi neitt slíkt fast skipulag, nema helst hjer í Reykjavík. Að vísu hefði getað komið til mála með Fiskifjelagið, að það tæki þátt í þessu bankaráði, en það fjelag er mjög lauslega „organiserað“. Álít jeg, að eigi hafi verið hægt að ná betur til stjettanna í heild sinni heldur en með þessu móti. Vona jeg, að það sjáist á frv., að jeg hefi reynt af ítrasta megni að vera óhlutdrægur í þessum tillögum. Ef jafnvægi er milli bæjanna og sveitanna, þá hefir með frv. tekist að fá fulltrúa fyrir kaupmanna- og verkamannastjettina tilnefnda í bankaráðið á sanngjörnum grundvelli. Hv. 2. þm. G.-K. (BK) gat þess í ræðu sinni, að sjómenn væru ekki atvinnurekendur. Er það hinn mesti barnaskapur, og ætti það þá, eftir kenningu hv. þm. (BK), engu að skifta atvinnuvegi landsins, þótt verkamenn og sjómenn hyrfu úr sögunni. Er hætt við, að hjer færi þá eins og í Rómaborg forðum, er verkamennirnir fluttu sig út úr borginni og höfðingjarnar komu til þeirra og báðu þá að koma aftur. Treysti jeg mjer ekki til að fræða þá menn, sem eru svo skyni skroppnir að halda því fram, að verkamenn komi ekki framleiðslunni við.

Þá kem jeg að 4. lið, þar sem hv. minni hl. getur ekki hugsað sjer, að nokkur vilji starfa launalaust í bankaáðinu. Er von, að háttv. 2. þm. G.-K. (BK) geti það ekki, þar sem hann nokkur undanfarin ár hefir haft hæstu embættislaun fyrir að gera ekki neitt, og bar það fyrir sig, til að öðlast þetta hnoss, að hann væri sjúkur og þar að auki öreigi. Er það ekki hollara fyrir þjóðfjelagið að ganga inn á þá braut, sem frv. bendir á, heldur en að troða í menn bitlingum fyrir ekki neitt. Álít jeg, að í þessu komi fram hjá hv. þm. (BK) svo lág og auðvirðileg hugsun, að hana þurfi ekki að hrekja, — hún gerir það sjálf.

Í 5. lið nál. hv. minni hl. segir, að „landsstjórnin virðist betur fallin til að velja menn til að endurskoða sparisjóðina heldur en bankaráð, sem er þannig valið, og það mun ríkisstjórnin framkvæma, ef fje er veitt til þess“. Það er nú svo. Það er á allra vitorði, að Sparisjóður Eyrarbakka hefir nú undanfarið verið í þeirri mestu niðurlægingu, en landsstjórnin hefir ekkert gert í því máli og enga rannsókn látið fara fram. Fæ jeg því ekki sjeð, að það sje sjálfsagt að láta landsstjórnina velja endurskoðendurna.

Þá kem jeg að 7. lið. Þar er talað um, að ómögulegt sje að ákveða, hvernig veltufje bankanna skuli skiftast milli atvinnugreina landsms. Jeg býst við, að sumum í þessari hv. deild hafi eigi verið vel við fyrispurn þá, er jeg kom með hjer á öndverðu þingi um þetta atriði. Þeirri fyrirspum hefir nú verið svarað á þann hátt, að sakir annríkis bankanna verði ekki hægt að gera grein fyrir skiftingunni fyr en á næsta þingi; en þá vona jeg, að það verði gert. En jeg hygg, að það sje eigi fjarri sanni, að veittar hafi verið 10 krónur til sjávarútvegs, á móti 1 krónu til landbúnaðar. Verður eigi ófróðlegt að sjá, þegar skýrslurnar koma frá Landsbankanum, hversu mikið fje Gullbringu- og Kjósarsýsla hefir fengið á móti öðrum sýslum landsins árin 1909 —17. Jeg álít það lífsspursmál, að peningum landsins sje ekki haldið fyrir bændum, eins og hingað til hefir verið gert, enda býst jeg ekki við, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) og hv. 2. þm. S.-M. (SHK) geti gert það til lengdar, því vondur málstaður verður ekki varinn í það óendanlega. Jeg skal taka það fram, eins og hv. 1. þm. Húnv. (GÓ), að það er einkum talað um það, að Ríkisveðbankinn og veðdeildin sjeu aðalbankarnir fyrir bændur, en þar er því til að svara, að Ríkisveðbankinn er óstofnaður enn og veðdeildin hefir eigi síðan stríðskreppan hófst gert nógu mikið fyrir þessa menn. Jeg skal játa það, og jeg hefi tekið það fram fyr á þessu þingi, að veðdeildin hefir ekki lánað út mikið fje síðan bankastjóraskifti urðu 1918, en af hverjum 6 krónum úr veðdeildinni hafa 5 farið til sjávarútvegsins í kaupstöðum, en aðeins ein til sveitanna. Álít jeg því nokkuð hart að vera að tala um, að sú stofnun sje sjerstaklega fyrir landbúnaðinn. Og jeg álít, að ef Ríkisveðbankinn kemst á, þá eigi að skifta fje hans til helminga milli atvinnuveganna, og er það ekki nema sanngirniskrafa. Þá talaði hv. 2. þm. G.-K. (BK) um ráðstjórnarfyrirkomulag í þessu sambandi. Við skulum nú athuga þá hlið málsins dálítið nánar.

Í bankaráðinu er um 4 aðilja að ræða: kaupmenn, verkamenn, bændur og landsstjórn. Jeg verð að játa það, að jeg er svo fáfróður, að mjer er ekki kunnugt um, að nokkurt ráðstjórnarfyrirkomulag sje þannig. Ef hv. þm. (BK) á við Rússland, þá er það mesti misskilningur, ef hann heldur, að kaupmenn eigi þar nokkurn fulltrúa. Það er þá alveg ný kenning, sem jeg hefi hvergi sjeð setta fram fyr, ekki einu sinni í Morgunblaðinu. Það hefir einmitt verið kvartað yfir ráðstjórnarfyrirkomulaginu vegna þess, að það hafa þar ekki nema sumar stjettir fulltrúa, en hjer er þó gert ráð fyrir því, að allar aðalstjettir í landinu hafi fulltrúa í þessari fjármálanefnd. Þá hefir það verið talið undarlegt, að fjármálaráðherra skuli aðeins hafa óbreytt atkvæði í bankaráðinu samkv. frv. En hvernig er það nú? Er það eigi svo, að hluthafar Íslandsbanka hafa 3 fulltrúa, Alþingi skipar 3 og íslenski ráðherrann er oddamaður? Er æðihart að fá kritik á þessu frá hv. 2. þm. G.-K. (BK), og virðist mjer hann ganga þar nokkuð nærri sínum eigin garði, því að hann er einn af feðrum Íslandsbanka. Þá hefir hv. þm. (BK) haldið því fram, að eftir frv. yrði starf þetta lífstíðarstarf. Það er hvergi tekið fram í frv., en aftur á móti er þess getið í áliti minni hl., að æskilegt væri, að bankaendurskoðun yrði lífstíðarembætti. Jeg er ekki á því, að heppilegt sje að gera þetta að lífstíðarstarfi. Stjettirnar ráða auðvitað þessa menn til þessa starfa meðan þær bera traust til þeirra. Getur vel verið, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) verði einhverntíma formaður Verslunarráðs Íslands, og máske verður hann endurkosinn meðan hann lifir. Það er auðvitað undir því trausti komið, sem fjelagið ber til hans. Máske allraskrítnasti þátturinn í röksemdaleiðslu hv. þm. (BK) sje sá, að kommúnistar verði í meiri hluta í bankaráðinu. Við skulum athuga það nánar.

Það er þá fyrst fjármálaráðherra, sem er oddamaður bankaráðsins. Hann er kosinn af meiri hluta þingsins, og eftir því ættu kommúnistar að vera í meiri hluta á Alþingi. Þeir munu vera fáir, sem gera ráð fyrir því. Þá er það kaupmannaráðið. Hjá því hefir enn ekki orðið vart við kommúnistiska strauma, og eru þetta því höfuðórar hv. þm. Þá eru það verkamenn. Það er ekki óhugsanlegt, að ef þeir væru kommúnistar, þá væri fulltrúi þeirra í bankaráðinu það. Svo er það samband kaupfjelaganna. Jeg skil ekki, hvernig hv. þm. (BK) fer að hugsa sjer fulltrúa þeirra kommúnista, því kaupfjelagsfyrirkomulagið er í eðli sínu jafnóskylt kommúnisma eins og kaupmannafyrirkomulagið. Þá er það Búnaðarfjelagið, og eru þeir, sem að því standa, tæplega kommúnistar, eða ekki hefi jeg orðið var við það, hvorki í ræðu nje riti leiðandi manna þess fjelags. Niðurstaðan verður því þveröfug við það, sem hv. þm. (BK) vill vera láta. Það er hugsanlegt, að verði 1 kommúnisti í bankaráðinu, og hitt þó sennilegra, að það yrði hægfara jafnaðarmaður. Bendir þessi röksemdaleiðsla hv. þm. (BK) aðeins á botnlausa fáfræði hans á pólitísku ástandi hjer og erlendis.

Það er meinloka að blanda saman bankaráði og kritiskri endurskoðun, Hana framkvæma sjerstakir menn. í Danmörku var það Green, hjer á landi þingmaður Dalamanna. Reyndar var hann bankaráðsmaður, en það var ekki nauðsynlegt til þess að hann gæti endurskoðað og fengið sinn nafntogaða bitling fyrir.

Vitaskuld þarf „kritiska“ endurskoðun; því neita jeg allra manna síst, En bankaráð þetta á að hafa yfirumsjón með bönkum og lánsstofnunum landsins, samræma störf þeirra og marka ákveðnar línur í starfsemi þeirra.

Það var eins og maður væri aftur horfinn í umr. um rannsókn á Íslandsbanka, þegar minst var á bækur bankanna. Þær mega fulltrúar stjettanna, t. d. fulltrúar bænda, ekki sjá. Hjer er það vitanlega hræðslan um Íslandsbanka, sem rekur upp höfuðið, eins og draugurinn í Miklabæ forðum. En hver getur hugsað sjer bankaráð, annað en núverandi bankaráð Íslandsbanka, sem ekki hefir aðgang að bókum bankans? Þetta er fullkominn misskilningur á slíkri stofnun, það er að segja, ef hún á að vinna en ekki einungis vera bitlingur.

Það er nú sýnt, að nál. og ræða frsm. minni hl. nefndarinnar (BK) eru skaðlegar tilraunir til að hindra, að viðunanlegt skipulag fáist á bankamál landsins. Er þó sannarlega þörf á „forum“, þar sem bankarnir gætu talast við og hafið samstarf, í stað þeirrar óeiningar, sem ríkt hefir milli þeirra.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. forsrh. (SE) og ummælum hans um hið nýja endurskoðunarmannsembætti skal jeg taka það fram, að mjer virðist undarlegt, ef stofna á nú síðustu daga þingsins nýtt embætti, sem enginn hefir heyrt getið um eða kennir á sporð eða hala. Jeg hygg útilokað, að nokkur maður, sem hefði aldur eða reynslu til að vera heppilegur umsjónarmaður bankanna í Reykjavík, fengist til að leggja á sig öll þau ferðalög að vetrarlagi, sem heimta verður af eftirlitsmanni sparisjóðanna úti um land. Sú meinloka í því frv., sem hlýtur að verða því að falli, er, að ósamrýmanlegt virðist, að sami maður, sem fær væri um að hafa á hendi umsjón bankanna hjer í bænum, sje á sífeldu ferðalagi úti um sveitir landsins.

Þá hygg jeg, að landslýð komi kynlega fyrir, ef stofna á nýtt embætti til þess m. a. að líta eftir hinum rándýru bankastjórum Íslandsbanka, sem einn hefir 40 þús. kr. laun minst, annar 30 þús. að sögn og hinn þriðji víst 25 þús. Ef nú yfirmaður þeirra ætti að fá laun eftir rjettum veitingareglum, þá yrðu þau a. m. k. 50 þús. kr. árlega. Jeg vildi ráðleggja hæstv. landsstjórn að skipa sæmilega í bankastjóraembættin við Íslandsbanka, og jafnvel lækka launin þar eitthvað, en fara ekki að stofna nýtt embætti til þess að hafa gætur á þessum bankastjórum.

Þó að jeg teldi rjettast að samþykkja frv. það, sem hjer liggur fyrir, þá mun þó heppilegast að rannsaka málið í heild sinni frekar og leggja fyrir næsta þing frv., sem fer í svipaða átt. Þess vegna greiði jeg atkv. með dagskrá hv. meiri hl. fjhn. Hún fer í rjetta átt, þó hún tefji um eitt ár, að Íslandsbanki komist undir rjettmætt eftirlit þjóðarinnar.