12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2096)

61. mál, samvinnufélög

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Eins og sjá má af greinargerð þessa litla frv., sem hjer liggur fyrir háttv. deild, á þskj. 91, er það fram komið fyrir áskorun aðalfulltrúafundar Kaupfjelags Borgfirðinga, sem haldinn var 27. f. m. Á fundinum voru 20 atkvæðisbærir menn, og greiddu 18 af þeim atkv. með till. sama efnis og frv. þetta er, en enginn móti. Meðal þessara 18 manna voru þessir alkunnu samvinnumenn: Framkvæmdarstjóri fjelagsins, Svavar Guðmundsson, og meðstjórnendur, Guðmundur Jónsson, bóndi á Skeljabrekku, og Guðmundur Ólafsson á Lundum, varameðstjórnandi Sigurður Fjeldsted, bóndi í Ferjukoti, endurskoðunarmenn fjelagsins Davíð þorsteinsson frá Arnbjargarlæk og Jón Hannesson, bóndi í Deildartungu, er báðir voru þingmannsefni samvinnumanna við síðustu kjördæmakosningar og hinn síðarnefndi í kjöri hjá samvinnumönnum við síðustu landskjörskosningar.

Fulltrúar deildanna eru úrvalssamvinnumenn á fjelagssvæðinu og ýmsir þeirra nafnkunnir sæmdarmenn, svo sem Sverrir Gíslason, bóndi í Hvammi í Norðurárdal, Jóhann Magnússon, bóndi á Hamri, Sveinn Níelsson fyrverandi bóndi á Lambastöðum og fleiri. Allir þessir menn, sem að fundarsamþyktinni stóðu, hafa verið samvinnufjelagar, ýmist síðan sá fjelagsskapur hófst í Borgarfirði fyrir rúmum 20 árum eða þá síðan þeir komust á þroskaskeið, er yngri eru.

Jeg hefi tekið þetta fram til að sýna það og sanna, að þessi fundarsamþykt kaupfjelagsins er ekki neinn flausturstilbúningur viðvaninga eða samvinnuóvita. Jeg held, að nöfn ýmsra þessara manna sjeu full trygging fyrir því, að hjer hefir ekki verið rasað fyrir ráð fram.

Þegar það nú kemur hjer til álita, á hvern hátt þeirri kröfu, sem hjer um ræðir, verði haganlegast fram komið, þá verð jeg að ætla, að það sje auðsætt öllum háttv. deildarmönnum, að henni er algerlega fullnægt með þeirri fáorðu setningu, er frv. gerir ráð fyrir, að aukið verði inn í 3. gr. laganna. Og þá kem jeg að meginatriði málsins: Hvað er það í raun og veru, sem hjer er farið fram á að breyta? Flestum mun finnast því fljótsvarað: Samábyrgðarskipulagið.

Jeg þarf ekki að eyða orðum að því hjer, hvernig samábyrgðinni er háttað í samvinnufjelögunum hjer á landi. Það er alkunnugt og að hún er í fullu samræmi við lagaákvæðin, sem hjer er um að ræða.

Með frv. er þá ekki farið fram á að fella burt eitt einasta orð í fyrirmælum laganna, heldur aðeins að auka inn í þau þessari heimild. það er ekki hjer um að ræða valdboð til að smækka samábyrgðarsviðið að svo miklu leyti, sem því verði við komið, heldur aðeins heimild, sem er þess eðlis, að sje það skipulagið, eins og það nú er almennast, það besta og hagkvæmasta fyrir fjelögin í reyndinni, þá leiðir það af sjálfu sjer, að hún verður ekki notuð nema í fáeinum tilfellum eða sem undantekning.

Að slík undantekning sje þó til, sýnir nú Kaupfjelag Borgfirðinga. Fjelag þetta hefir starfað sem samvinnufjelag í meira en 20 ár og á ýmsum tímum sitt með hvoru samábyrgðarskipulaginu.

Reynsla Borgfirðinga í þessu efni veldur því, að þeir leggja nú svo mikla áherslu á að fá þessa heimild inn í lögin.

Hin einstöku atriði þessarar reynslu þykir mjer ekki ástæða til að fara frekar út í að þessu sinni. Jeg vil þó aðeins drepa á eitt, sem sje, að einstöku óreiðumönnum hefir verið miklu greiðari vegur til að vinna fjelaginu fjárhagslegt tjón í skjóli hinnar víðtækari samábyrgðar, en það hefði alls ekki átt sjer stað innan þrengri samábyrgðarinnar, takmarkaðrar eins og hjer er gert ráð fyrir.

Á hinn bóginn fáum við flm. frv. ekki sjeð, að þetta ákvæði þurfi að gera samvinnufjelagsskapnum nokkurt mein eða vinna honum ógagn eða valda óreiðu og ruglingi í honum, en erum sannfærðir um það, að frv. komi góðu til leiðar og verði til þess að stuðla að því, að fjelagsskapurinn aukist og eflist og verði þjóðinni til gagns, öllu fremur en verið hefir.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Það er svo ljóst, að varla þarf að búast við, að það geti valdið misskilningi eða mótstöðu, og vona jeg, að það fái að ganga viðstöðulaust til 2. umr.