28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

61. mál, samvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir ekki getað orðið sammála að öllu um þetta mál. Meiri hlutinn telur ekki sanngjarnt, að meina Borgfirðingum og Mýramönnum að njóta góðs af samvinnulögunum, enda þótt þeir vilji ekki gangast undir hina sameiginlegu ábyrgð. Jeg sje ekki, að hjer sje nokkuð lagt í hættu, og get ekki fallist á ástæður minni hlutans, að þetta geti orðið til þess að veikja lánstraust kaupfjelaganna, því þótt eitt fjelag verði undanþegið þeim reglum, sem nú gilda, þá er það vitanlegt, að sú undantekning nær ekki nema til þess eina fjelags. Og úr því að Mýramenn og Borgfirðingar vilja ekki taka á sig hina sameiginlegu ábyrgð, þá virðist samt harla ósanngjarnt að refsa þeim með því að setja þá ver en aðra, hvað sem annars má segja um samábyrgðina. Það kom fram við umræður málsins í nefndinni, að lina þyrfti á samábyrgðinni, og allir voru því samþykkir í nefndinni, en hvenær því yrði komið í kring, vildi minni hlutinn ekki ákveða. En hart væri að meina fjelaginu, sem hjer um ræðir, þau rjettindi og ívilnanir á skatti, sem það hefir þann tíma, þangað til sú endurbót kemst á, sem minni hlutinn tók fram, að óhjákvæmileg væri áður langt um liði. En eins og jeg tók áður fram, var ekki hægt að fá ákveðið svar um það, hve nær sú breyting verði.