28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

61. mál, samvinnufélög

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg verð að segja það, að mjer kom það næsta undarlega fyrir sjónir, er jeg sá þessa breytingu á samvinnulögunum, sem hjer liggur fyrir, á þskj. 91, borna fram samkv. ósk og fyrirlagi Kaupfjelags Borgfirðinga. Mjer þótti furðu gegna, að nokkurt kaupfjelag í landinu skyldi bera breytinguna fram, vegna þess, að jeg lít svo á, að það sje augljóst, að ef kaupfjelögin taka hana upp í lög sín, mundi það óhjákvæmilega hafa í för með sjer meiri eða minni lántraustsmissi fyrir þau, þar sem breytingin kippir í burtu því ákvæði, er samvinnulögin krefjast nú, að fjelagsmenn, allir sem einn, ábyrgist skilsemi fjelags síns út á við.

Og jafnvel þó fjelögin breyttu ekki lögum sínum eða samþyktum í þá átt, sem frv. bendir til, mundi samvinnufjelagsskapurinn í landinu tapa að nokkru trausti erlendra viðskiftavina, þegar þeir sæju, að samvinnulöggjöfin í landinu heimilaði slíka burtfelling ábyrgðarákvæðanna, sem hjer ræðir um.

Þetta held jeg öllum hljóti að vera ljóst, enda liggur óbein viðurkenning þess í greinargerð frv., þar sem mjer skilst, að gert sje ráð fyrir, að breytingin muni ólíklega verða tekin upp af samvinnufjelögunum. Hið sama kom í ljós hjá hv. flm. (PÞ) við 1. umr. Hann sagðist vonast eftir, að þessi breyting þurfi ekki að skaða samvinnufjelögin alment, og ef hún væri óheppileg, mundu önnur fjelög ekki taka hana upp.

En hvað er það þá, sem á að vinnast við frv.? Það hefir enn ekki verið upplýst. Því hefir verið haldið fram, að breytingin væri Kaupfjelagi Borgfirðinga nauðsynleg, en það hefir verið sagt með almennum orðum, en ekki verið rökstutt eða sýnt fram á, í hverju sú nauðsyn væri fólgin, Og í viðtali mínu um málið við hv. flm. (PÞ), fjekk jeg ekki aðra grein gerða fyrir því en þá, að Borgfirðingar teldu mjög þýðingarmikið fyrir sig að fá þessu breytt. En jeg verð að álíta, að sú skoðun hljóti að vera af misskilningi sprottin og fram komin af athugaleysi. Enda óskiljanlegt, að þessu kaupfjelagi sje svo öðruvísi háttað en öðrum samvinnufjelögum, að því sje t. d. ekki nauðsynlegt að afla sjer lánstrausts með skipulagi sínu.

En enda þótt ástæður Kaupfjelags Borgfirðinga væru í þessu efni sjerstakar eða frábrugðnar öðrum samvinnufjelögum, þá tel jeg samt ekki rjett að breyta samvinnulöggjöf landsins aðeins með hag þessa fjelags eins — verulegan eða ímyndaðan, — fyrir augum, ef það miðaði fjelögunum alment til skaða, svo sem jeg hefi fært rök fyrir, að eigi sjer stað um þessa breytingu.

Í nefndaráliti meiri hlutans er því haldið fram, að þessi ráðgerða breyting snerti í engu grundvöll samvinnustefnunnar. Þetta er ekki rjett. Breytingin stefnir að minni hyggju beinlínis að því að nema í burtu þann siðferðilega og fjárhagslega grundvöll samvinnufjelagsskaparins, sem reynst hefir traustasta stoð hans gegnum alla starfsemi hans hjer á landi frá fyrstu byrjun og brautryðjendur og forvígismenn stefnunnar hafa jafnan lagt mesta áherslu á, sem sje sú skýlausa og ákveðna stefna, að standa í fullum skilum til hins ítrasta á öllum skuldbindingum sínum út á við. Og þetta er að minni hyggju aðaleðlismunurinn á samvinnufjelögum og hlutafjelögum með takmarkaðri ábyrgð, og má því fyrir engan mun nema burt úr samvinnulöggjöfinni.