28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2102)

61. mál, samvinnufélög

Pjetur Þórðarson:

Jeg verð að biðja hv. deildarmenn að veita því athygli, og jeg legg sjerstaka áherslu á það, að þetta frv. fellir ekki niður eitt einasta orð í samvinnulögunum, þótt sumir andstæðingar þess virðist halda því fram og telja það ískyggilega breytingu. Það ætti þó að vera nægilega ljóst, að frv. fer ekki fram á neitt annað eða meira en nokkurskonar undanþágu frá aðalákvæði 2. liðs 3. gr. laganna samskonar undanþágu og nú er í sömu grein, en aðeins bundin við aðrar tegundir fjelaganna en kaupfjelög. Þetta bið jeg menn að gera sjer ljóst, áður en jeg sný mjer að aðalatriðunum.

Athugi maður nefndarálit minni hlutans, sjer maður, að ástæðurnar, sem það byggist á, eru í þrem meginþáttum. það er þá fyrst, að breytingin hafi í för með sjer lánstraustsmissi og álitshnekki fyrir kaupfjelögin og Sambandið. En hvernig má það ske? Meginþorri kaupfjelaganna er í Sambandinu; í því eru öll elstu og bestu fjelögin, þau, sem hafa stofnað það og haldið því við, og öll hafa þau hina alfullkomnustu samábyrgð. Hv. þm. S.-Þ. (IngB) taldi þetta skipulag hafa reynst traustasta stoð fjelagsskaparins og hjelt því fram, eins og líka hv. 1. þm. Bang. (GunnS), að með þessari breytingu væri verið að kippa henni undan samvinnufjelagsskapnum. Hvað mikið sje hæft í þessu, er eftir að sanna. Mjer er óhætt að fullyrða það, að engum þeirra, sem að þessu frv. standa, hefir dottið í hug að veikja með því grundvöll þessa fjelagsskapar, og enginn þarf að hugsa sjer, að hann geti talið mjer trú um það, að lánstraust kaupfjelaganna sje svo veikt, að því sje hætta búin af þessari litlu undanþágu. Og sje svo, sem jeg helst vil trúa, að breyting sú, sem farið er fram á með frv., veiki á engan hátt kaupfjelögin í Sambandinu, — og það hefir ekki verið skýrt frá því enn þá, hvernig það mætti verða, — þá finst mjer einkennileg og harla ósamræmileg í sjálfri sjer sú mótspyrna, sem komið hefir fram gegn frv. þessu. Og þegar þess er gætt, að annar þáttur minni hl. nefndarálitsins telur ábyrgðarhættuna lítið minka við breytinguna, þá er ekki nema um tvent að gera; annaðhvort er þessi fullyrðing minni hl. röng eða undanþágan — þó að lögum yrði — fjarri því að vera eftirsóknarverð, alment sjeð, og þar með engin hætta á ferðum fyrir allan þorra kaupfjelaganna nje Sambandið.

Jeg get því ómögulega sjeð, að það yrði á nokkurn hátt til þess að veikja lánstraust fjelaganna, þótt þessi undanþága væri leyfð. Mjer finst það vera fjarstæða að ætla það, að fjelög þau, sem í Sambandinu eru, rjúki þegar upp, til þess að breyta því skipulagi, sem þau álíta nú sína styrkustu stoð, ef þessi undanþága, — sem í lögunum er leyfð framleiðslufjelögunum o. fl., — næði einnig til kaupfjelaga.

Borgfirðingar hafa í 20 ár reynt hvorttveggja þetta skipulag, sem hjer er um að ræða, og reynslan hefir kent þeim það, að betra er að vera laus við allsherjarsamábyrgðina, þar sem það m. a. hefir sýnt sig, að einstökum mönnum hefir verið mögulegt að gera fjelögunum skaða í skjóli hennar.

Loks vil jeg athuga nokkuð þriðja þáttinn í áliti hv. minni hluta. Hann segir m. a., að breyta þurfi í náinni framtíð ýmsum ákvæðum samvinnulaganna og þar á meðal þessu um samábyrgðina. Þetta er merkilegt atriði í álitinu, því með því er algerlega fengin viðurkenning fyrir því frá sambandsmönnum sjálfum, að breytingin eða viðaukinn, sem við förum fram á, sje nauðsynleg og rjett í sjálfu sjer, en aðeins beri á milli um það, hve nær eigi að breyta. En úr því svona er nú, að viðurkend er nauðsynin, virðist mjer það bera vott um nokkuð mikla einþykni, eða hvað á að kalla það, að standa á móti undanþágunni, ekki síst þegar hún kemur fram frá stóru og góðu fjelagi, sem hefir langa reynslu í þessu efni að baki sjer. Því það er ekki nema sjálfsögð sanngirni, að það fjelag fái að starfa undir því skipulagi, sem það telur heppilegast og tryggast, þegar því er jafnframt svo varið, að það getur á engan hátt verið öðrum til meins eða miska. Jeg vil þess vegna alveg víkja frá mjer þeim ummælum, sem hjer hafa komið fram um það, að þetta frv. sje á nokkurn hátt fram komið til þess í einu eða neinu að halla á Sambandið. Og það er ómögulegt að sanna það með nokkurri sanngirni eða nokkrum rökum, að Sambandið mundi bíða minsta tjón af þessari undanþágu. Þetta er þvert á móti fram komið til þess að gefa þeim fjelögum, sem þess óska, en öðrum ekki, — því engan á að þvinga til nokkurs hlutar —, gefa þeim færi á því að þroskast eftir því, sem þau sjálf álíta best. Samvinnuhreyfingin er svo holl og góð, að það er sjálfsagt að gera engar ráðstafanir um skipulag hennar, sem fælt geti menn frá henni á nokkum hátt, þegar að öðru leyti er hyggilega frá öllu gengið, eins og hjer er, og margra ára reynsla er fyrir í Kaupfjelagi Borgfirðinga. Það er líka alkunnugt, að sum kaupfjelög hafa ekki viljað ganga í Sambandið, af því að þau hafa ekki getað sætt sig við samábyrgðarskipulagið. En þeir menn eiga auðvitað eins mikinn rjett á sjer og hinir, sem eru með Sambandinu og núverandi skipulagi þess. Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira að sinni, en vænti þess, að þessu frv. verði vel tekið af samvinnuvinum, hvort svo sem þeir vilja sjálfir búa undir þessu skipulagi eða ekki, því að jeg vænti, að þeim skiljist það, að hjer er um að ræða sanngirniskröfu, sem mörgum getur orðið til góðs og til styrktar samvinnustefnunni, en engum til skaða.