14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2118)

61. mál, samvinnufélög

Jakob Möller:

Jeg greiddi þessu frv. atkvæði aðeins til 3. umr., af því að jeg gat ekki sannfærst um af umræðunum, að fjelagi því, sem um er að ræða, væri nein lífsnauðsyn, að frumvarpið yrði að lögum. Hins vegar var jeg á móti öllum sjerrjettindum fyrir kaupfjelög, þegar samvinnulögin voru afgreidd út úr þinginu 1921. Og þar af leiðandi verð jeg einnig að vera á móti því, að kaupfjelög, sem ekki uppfylla skilyrði þeirra laga, fái slík rjettindi, og þannig færðar út kvíarnar, og þó að sú breyting yrði gerð á frv., að það yrði aðeins látið ná til eins fjelags, þá mundu fleiri væntanlega koma á eftir. Hins vegar get jeg ekki neitað því, að Kaupfjelag Borgfirðinga eigi sama siðferðilega rjettinn til hlunninda samvinnufjelagalaganna sem önnur samvinnufjelög, en þar sem jeg hefi ekki getað ljeð atkvæði mitt til þess, að slík hlunnindi yrðu veitt nokkru samvinnufjelagi, get jeg þá ekki heldur nú farið að greiða atkvæði mitt með því að stækka þann hring. En jeg þykist hafa fulla ástæðu til þess að leiða þetta mál alveg hjá mjer og greiða ekki atkvæði um það.

Eins og jeg tók fram, hefi jeg ekki getað sannfærst um, að þessu kaupfjelagi bæri nauðsyn til þessarar undanþágu, eins og ástæður liggja fyrir. Jeg get ekki annað skilið en að öll fjelög með samábyrgð hljóti að koma fram út á við sem einn ábyrgðarhafi. Og sje jeg því ekki annað en að fjelagið geti í sínum eigin lögum gert einstaklingum og deildum að skyldu að ábyrgjast sínar eigin skuldir. Hin takmarkaða ábyrgð gæti gilt inn á við, meðal einstakra deilda, eftir ákvæðum þeirra eigin fjelagslaga. Þó yrði kaupfjelagið að svara til þess sameiginlega út á við, sem hver einstök deild getur ekki int af hendi. En ef hitt á að gilda, að fjelagið sjálft beri enga ábyrgð út á við, að öðru leyti en því, sem hver einstök deild svarar til með sínum viðskiftum, þá virðist mjer það stappa næst fjárglæfrum. Jeg hygg, að þeir, sem mundu skifta við slík fjelög, gætu ekki vinsað úr eða vitað, hver hluti viðskiftanna væri við góðu deildirnar og hvað við hinar. Þetta skipulag mundi ekki heldur gera fjelagsstjórnina gætnari í lánveitingum til einstakra manna eða deilda, heldur þvert á móti veikja ábyrgðartilfinninguna. Mjer er ekki fyllilega ljóst, hvort sá er tilgangurinn, að ábyrgðin eigi að vera takmörkuð út á við. En væri svo, teldi jeg það tæplega verjandi að láta málið afskiftalaust. En hvað hitt snertir, að skuldir hverrar deildar eigi að lenda á henni sjálfri, að svo miklu leyti, sem hún hefir gjaldþol til, þá er lafhægt að byggja það í lögum hvers fjelags, og þarf þá enga breytingu á samvinnufjelagalögunum til þess, að Kaupfjelag Borgfirðinga komist undir þau.