04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2136)

58. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Jeg skal játa, að það er erfitt að tala um þetta mál fyrir mann, sem ekki hefir haft tækifæri til að reyna kosningalögin í framkvæmdinni. Því get jeg vel sætt mig við, þótt menn reki augun í einhverja agnúa á brtt. á þskj. 464. Þótt minni hluti nefndarinnar gæti ekki fallist á frv. þetta eins og það kom frá hv flm. (BJ), þá fanst honum í því svo augljós rjettarbót, að hann vildi láta grundvallarhugsun þess halda sjer. Jeg get ímyndað mjer, að hv. flm. kunni að finnast, að við höfum hjer deilt rjettinum með 2, eins og hann hefir stundum komist að orði um eitt og annað. En svo er ekki. En oft verður að taka meðaltal af því, sem krafist er, og hinu, sem getan leyfir, og það höfum við reynt hjer.

Þá skal jeg snúa mjer að ástæðum meiri hlutans. Held jeg mjer þá við nál., því að hv. frsm. meiri hlutans (MG) þræddi það orði til orðs.

Fyrsta ástæðan, sem meiri hl. ber fram, er sú, að ekki hafi orðið vart við óánægju út af þessu. Það má nú vel vera, að ekki hafi borist kvartanir eða bænarskrár út af þessu, en jeg efast þó ekki um, að allmargir hafi kvartað undan því, að geta ekki komist út af heimilinu á þeim nauma tíma, sem skamtaður er. Þess ber að gæta, að þetta, sem hjer er farið fram á, er í raun rjettri samkvæmileg afleiðing af rýmkun kosningarrjettarins. Meðan það voru húsbændur einir, sem höfðu kosningarrjett, þá var auðvelt fyrir þá að fara sama daginn, og þótt karlmenn yfirleitt fengju þennan rjett, var það ekki ógerningur. En eftir að konur hafa einnig hlotið þennan rjett, er orðið alt öðru máli að gegna. Þá fer að verða augljóst, hve fjarstætt það er, að allir af heimilunum geti neytt atkvæðisrjettarins svo að segja í einu. Það er vitanlegt, að þannig er ástatt á fjölda heimila og margir menn hafa ekki getað farið til kosninga af þessum ástæðum. Það er satt, að það er ekki fullkomlega hægt að tryggja, að allir neyti kosningarrjettar síns, nema með heimakosningu, en það þótti okkur nokkuð stórt spor, of stórstig breyting; en þegar ekki er hægt að gera fullan rjett, þá er betra að veita eins mikinn rjett og hægt er, heldur en gera ekki neitt.

Þá var það ein af höfuðmótbárum meiri hl., að kosningin færi ekki eins tryggilega fram, ef hún stæði í tvo daga. Fyrir þessu færði hv. frsm. (MG) engin rök, og er mjer það því með öllu óskiljanlegt. Það er máske af því, að kjörstjórnin muni verða farin að dotta seinni daginn. Þá var önnur mótbára, að kosningin yrði dýrari með þessu móti, að hafa hana í tvo daga, og það er að sumu leyti satt. En þessi kostnaður, sem af þessu legst á kosninguna, í samanburði við annað, sem til er kostað til þess að menn geti neytt kosningarrjettar síns, er svo lítill, að það er ekki í það horfandi. En hjer kemur fram tilhneiging til hins gamla vana, að spara úrslitaupphæðina, til þess að láta verkið verða að fullum notum. Menn vilja gjarna eyða 99 þús. í eitthvað, en svo ekki bæta einu þúsundi við til þess að fullkomna það, sem byrjað er á. Þessi kostnaður, sem hjer getur komið til greina, er harla smávægilegur í samanburði við það, sem vinst. Þá er ein ástæða meiri hl. sú, að það baki kjörstjórnunum tortrygni, að geyma atkvæðakassann með seðlunum yfir nóttina, og þetta mun hv. frsm. (MG) hafa átt við, er hann talaði um, að kosningin yrði ótryggari. En það er svo gert ráð fyrir, að um kassann verði búið alveg eins og gengið er frá honum að síðustu, er hann fer frá kjörstjórninni, svo það ætti að vera nokkuð örugt. Þá segir meiri hl., að þetta geti leitt til atkvæðasmölunar. Atkvæðamsölun fer nú fram eigi að síður, og þó að hún færi í vöxt, þá er það bara gott. Tilgangurinn er, að sem flestir geti kosið. Það er gott, að sem flestum verði náð á kjörstað, en hitt verður alt af undir persónulegu sjálfstæði einstaklingsins komið, hve mikið hann lætur bræra í sjer með skoðunina. Atkvæðasmölun út af fyrir sig, er enginn galli. Þá fyrst er hún ill, ef flokkum er gert mishátt undir höfði, en því er ekki til að dreifa hjer.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (MG), að þetta gæti jafnvel orðið til þess, að færri kysu, vegna þess, að vera kynni, að menn færu ekki fyrri daginn, þótt gott væri veður, en seinni daginn væri veður orðið ófært. Þetta er harla ljeleg röksemd. Það má vera, að þetta geti komið fyrir sem óvenjuleg undantekning, ef ætla má, að kjósendur væru svo óforsjálir, að fresta ferðinni í lengstu lög. En annars er það öllum auðsjeð, að þetta hlýtur að auka þátttöku í kosningunni, og gera það að verkum, að sveitamenn fara að geta neytt kosningarrjettar síns í eins ríkum mæli og nú er gert í kaupstöðum.

Þá skal jeg snúa mjer lítið eitt að brtt. Að því er snertir 1. brtt., þá hefði jeg helst viljað vísa til hv. 1. þm. Rang. (GunnS), til að mæla með henni. Það var mest að hans ósk, að hún var tekin upp, en jeg sá ekkert á móti því, að láta þetta flakka með. Jeg skal lýsa því yfir, að það er ekki ætlast til, að hún verði notuð nema í undantekningartilfellum, t. d. þar sem ill vatnsföll hamla stórkostlega aðsókn o. s. frv. Þá hefir verið talað um, að umslögin yrðu að vera fleiri, ef ætti að skifta hreppunum í fleiri kjördeildir. En það, sem stendur undir b., að umslögin skuli vera 8 í stað 4, stendur ekki í sambandi við skiftingu í kjördeildir, heldur hitt, að kosningin stendur í tvo daga, svo kjörstjórnin hafi til skifta fyrri og seinni daginn. En umslög þau, sem send eru hverri undirkjörstjórn, þurfa ekki að vera fleiri, þótt hreppi sje skift, því að hver partur hreppsins fær sína undirkjörstjórn.

2. brtt. a. og b. eru orðabreytingar.

Þá er 3. brtt. Hún fer mest frá frv. þar er sagt svo um, að kosningin skuli standa í tvo daga. Svo er lítil breyting, um að láta kjörstjórnirnar halda opnu í 1/2 klukkustund, í staðinn fyrir 1/4, eftir að kjósendur hætta að gefa sig fram.

Jeg skal að endingu taka það fram, að jeg get ekki álitið kosninguna að nokkru leyti ótryggari með þessu móti, og það þótt alræmdir skálkar sætu í kjörstjórnunum, í stað valinkunnra sæmdarmanna, eins og þeir eru vitanlega ávalt.

Jeg get ekki sjeð, að hægt sje að setja í kassann falska seðla, þótt ekki sje talið. Kassinn er innsiglaður og látinn í innsiglaðan poka, milli kjördaganna, svo ekki er hægt að eiga við hann. Hitt er öllu grunsamlegra, ef opna ætti kassann og telja í honum.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. þdm. á því, að fara alment út í málið.