30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Lárus Helgason:

Ræða hv. 1. þm. Reykv. (JakM) er góð sönnun þess, hve hv. þm. Dala. (BJ) tókst framsöguræða sín leiðinlega. Er því einkennilegra, þar sem það kemur sjaldan fyrir, að honum takist það illa. Ræða hv. 1. þm. Reykv. sannaði það, hvað framsöguræðan var óviðkomandi frv. Tek jeg undir það með þessum hv. þm. (JakM), að frv. sjálft er í raun rjettri gott, en ástæður hv. flm. (BJ), er hann færði fram fyrir því, voru þvert á móti. — Er líka sýnilegt, að þótt frv. yrði samþykt, þá gæti það aldrei komið í veg fyrir, að of dýr hús yrðu bygð. Endurskoðun fer ávalt fram eftir á. Geta auðvitað ekki þessir endurskoðendur á nokkurn hátt aftrað því, að ráðist verði í vafasöm fyrirtæki og kostnaðarsöm, því að endurskoðun þeirra fer ekki fram fyr en eftir að alt er komið í kring og verkið framkvæmt.

Er því auðsætt, hvað dæmi hv. þm. Dala. (BJ) voru illa og óviturlega tekin. Voru þau að öllu leyti óviðeigandi og ekki þingleg.