30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það er auðheyrt, að þetta er nýr þingmaður. Heldur hann, að menn greiði atkv. um framsöguræður, en ekki um frv. sjálf. Skal jeg leiðbeina honum um þetta og segja honum, að svo er þetta aldrei skilið. Frsm. kemur fram með sínar ástæður fyrir frv., og geta þær verið alt aðrar en aðrir vilja færa fyrir því, og þm. greiða atkv. um frv., með eða móti, án nokkurs tillits til þess, hverjar skoðanir frsm. ljet uppi um frv.

Jeg kom fram með mínar ástæður fyrir frv. þessu og rjeðst þar á engan mann nema forstöðumann samvinnuskólans, og þó lítillega og miklu minna en vert var, því að vitað er, að maður þessi hefir enga verslunarþekkingu og er alls ófær til að standa fyrir skólanum. Auk þessa hafði hann farið um mig ærumeiðandi orðum í Ed. nú fyrir skömmu. Er einkennilegt, að hv. þm. skuli spretta upp, eins og þeir væru bitnir af nöðru, ef satt er sagt um þessa stofnun og þá menn, sem við hana eru. Það er að vísu lofsvert, að þeir skuli vilja verja þá, sem næst þeim standa; en þeir ættu ekki að gera það með þjósti og ósannindum, hvað þá heldur hágrátandi, eins og hv. þm. V.-Sk. (LH).