10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

2. mál, sýsluvegasjóðir

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er ekki nýr gestur í deildinni. Kom það, eins og háttv. þm. muna, fyrir Alþingi 1921. Eins og menn vita. er tillag til sýsluvegasjóðs 3 kr. á hvern verkfæran mann, og liggur í augum uppi, að það er ónógt þar, sem um akfæra vegi er að ræða, og ekki síst í þeim sýslum, sem viðhald akvega hvílir á. Því hefir Alþingi tvívegis, bæði 1915 og 1919, skorað á stjórnina að koma með frv. um hækkuð vegagjöld. Árangurinn varð, að frv. frá stjórninni, samið af vegamálastjóra. kom fyrir Alþingi 1921, eins og áður var sagt. Frv. þetta var samþykt í þessari deild, en kom of seint til Ed. og var vísað frá með rökstuddri dagskrá. Aðalbreytingin frá frv. því, er lá fyrir Nd. fyrir 2 árum, og þessu, er nú kemur fram, er sú, að hjer er sýslunefndum veitt heimild til að gera samþyktir um sýsluvegasjóði, samkvæmt þeim óskum, er komið höfðu fram í Ed. Ekki verður að svo stöddu hægt að sjá. hvað kostnaðurinn yrði mikill, því alveg er óvíst um, hversu margar sýslur myndu nota sjer þessa heimild. Jeg get þó ímyndað mjer, að kostnaðurinn við þetta yrði ekki stórum meiri en fje það, sem nú er veitt í fjárlögum til akfærra sýsluvega, eða svo var það talið í Ed. Vænti jeg þess svo, að hæstv. deild leyfi máli þessu að koma til 2. umr. og vísi því síðan til samgmn.