02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Jeg get tekið undir það með háttv. flm. frv. (MG), að vel geti verið ástæða til að breyta lögum, þótt þau sje ný, og eins þótt um sjálfa stjórnarskrána sje að ræða. Hitt er annað mál, hverjar breytingar eigi að skoðast þær heppilegu og hverjar ekki. Jeg verð að líta svo á, að þessar breytingar, sem hjer er um að ræða, sjeu ekki til bóta. En það eru ýms önnur ákvæði í stjórnarskránni, sem jeg vildi fremur fá bót á, enda myndi jeg nota tækifærið, ef farið væri á annað borð að hrófla við stjórnarskránni. Mun jeg, ef málinu yrði vísað til nefndar, koma fram með till. í því efni, og tel jeg því óþarft að fara ítarlega út í það hjer. Jeg skal þó nefna sem dæmi 29. gr. stjórnarskrárinnar, sem í framkvæmdinni hefir verið farið í kringum, og nauðsynlegt er því að breyta. Og eins er um ýmislegt fleira.

Því er haldið fram, að frv. þetta sje borið fram í sparnaðarskyni. Jeg vil þar benda á, að sú reynsla, sem fengin var, meðan stjórnarskráin kvað svo á, að þing skyldi háð annaðhvert ár, bendir til þess, að sparnaðurinn geti orðið mjög vafasamur. Því jeg geri þó naumast ráð fyrir því, að bannað verði með lögum að halda aukaþing, ef þörf krefur; að minsta kosti er það hvergi nefnt í frv.

Eins er því, að mínu áliti, farið um fækkun ráðherranna. Jeg sje ekki, að verra sje að hafa 3 ráðherra, alla ábyrga gagnvart þinginu, en að hafa aðeins 1 ráðherra ábyrgan og svo tvo menn í stjórnarráðinu, sem gegni ráðherrastörfum, án þess að bera nokkra ábyrgð gagnvart Alþingi. Þessi eini ráðherra gæti aldrei sint öllum flokkum mála, og yfir þeim flokkum, sem hann kæmist ekki yfir að sinna, yrðu þá ábyrgðarlausir skrifstofustjórar í stjórnarráðinu.

Að því er snertir þann sparnað, sem hv. flm. (MG) sagði að yrði við það, að þessi tíðu þing hættu, og þá um leið mörg útgjöld, sem þau ljetu til leiðast að samþykkja, en spara mætti, þá skal jeg láta þess getið, að jeg kýs þó heldur, af illu tvennu, að þingið eyði því fje, heldur en ábyrgðarlausir ráðherrar í stjórnarráðinu geri það.