04.04.1923
Neðri deild: 33. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2186)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get því miður ekki verið frsm. allrar nefndarinnar, þar sem hún er allmjög ósammála um þetta frv. Það er aðeins eitt atriði, sem öll nefndin er sammála um, sem sjá má af nál. á þskj. 148; og mun þó háttv. þm. Str. (MP) eigi heldur samþykkur því með öllu.

Eins og sjá má af greinargerð þeirri, er frv. fylgir, eru í því fólgnar aðeins tvær breytingar á stjórnarskránni. Um aðra þeirra, að þing skuli aðeins haldið annaðhvert ár, eru fjórir nefndarmenn sammála. En um hina breytinguna, fækkun ráðherranna, hefir nefndin eiginlega klofnað í þrent. Það eru aðeins tveir, sem fækkuninni eru fylgjandi, þ. e. hv. 1. þm. G.-K. (Ep) og jeg. En þingmenn S.-þ. (IngB) og A.-Sk. (ÞorlJ) eru henni mótfallnir, og hvað snertir hv. þm. Str. (MP), hygg jeg, að hann gæti fallist á það atriði, ef þingum yrði ekki fækkað. Þó fullyrði jeg ekkert um það, enda mun hann sjálfur gera grein fyrir því. Fyr en jeg hefi heyrt andmæli skal jeg ekki fara nánar út í það, hvaða ástæður eru fyrir fækkun ráðherranna. Þeir hv. þm., sem eru mótfallnir fækkun ráðherra, munu óttast, að þetta fyrirkomulag muni leiða til einskonar einveldis. Jeg lít nú alls ekki svo á þetta mál, og óttast heldur ekki einveldi svo mjög. Einveldi fer alt eftir því, hvernig einvaldurinn er, og auk þess er þetta einveldi ekki svo stórhættulegt, er þingið getur rekið valdhafann af höndum sjer eftir 1–2 ár. Liggur nærri að jeg telji núverandi ástand ekki hættuminna, og jeg man ekki heldur til, að mikið væri talað um einveldi meðan ráðherra var einn og þing þá haldið annaðhvert ár.

Þessi ráðherrafjölgun er til komin á ófriðarárunum, og minnist jeg þess, að hv. þm. Str. (MP) var mjer þá sammála um, að þetta væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun, vegna stríðsins og þeirra ástæðna, er þá voru. Vona jeg því að háttv. þm. Str. (MP) verði mjer sammála um að fækka ráðherrum nú, er stríðið er á enda.

Eins og sjá má af n. 148, og þskj. 151, hafa 2 þm. komið fram með brtt. um, að 1.–4. gr. frv. falli niður; er það í samræmi við þá kenningu, að ráðherrar skuli vera þrír, og ræði jeg ekki um þá brtt. fyr en frsm. hafa mælt fyrir þeirri tillögu, og sama máli er að gegna um till. háttv. þm. Str. (MP) Jeg tek það fram, að 4 af 5 nefndarmönnum voru á móti frekari breytingum á stjórnarskránni en frv. gerir ráð fyrir, og jeg hygg jeg megi lýsa því yfir fyrir hönd þessara fjögra nefndarmanna, að þeir sjeu á móti öllum breytingum á henni, nema sínum eigin brtt.; og að það var aðeins eitt atriði, sem nefndarmenn voru ósammála um, sem sje fækkun ráðherranna.