04.04.1923
Neðri deild: 33. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2189)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Jónsson:

Þó að jeg eigi eina brtt. við stjórnarskrárfrv., má það ekki skiljast sem yfirlýsing um, að jeg sje í áhlaupshernum á stjórnarskrána, að svo komnu. Það er skoðun mín, að henni eigi að breyta svo sjaldan sem auðið er, og undir engum kringumstæðum fyr en einhver ákvæði hennar eru orðin alveg óþolandi. Yfirleitt hygg jeg, að með tíðum breytingum tapi stjórnarskráin þýðingu sinni fyrir menn, og ef menn fara að leggja það í vana sinn að breyta henni 2. og 3. hvert ár, væri betra að stytta hana að mun og taka einungis aðalatriðin upp í hana, svo að þau fái þó að haldast. Hvað sem því liður, að þingið geti jafnan breytt lögum sínum, ættu að vera nokkur grundvallaratriði, sem ekki yrði breytt eða haggað við fyr en brýn nauðsyn kallar að.

Jeg er algerlega mótfallinn anda frv., að breyta stjórnarskránni af sparnaðarástæðum. Af því að hagur ríkissjóðs er ekki góður í eitt skifti, ætti ekki að ráðast á stjórnarskrána til þess að koma fram sparnaði, sem mjög er deilt um, hvort nokkur sparnaður er í raun og veru.

Þetta mætti virðast einkennilegur formáli fyrir meðmælum með brtt. við stjórnarskrána. En brtt. er þó bein afleiðing af því, sem jeg hefi nú sagt. Ef sjaldan á að breyta stjórnarskránni, verður að gera allar þær breytingar í einu, sem mönnum þykja nauðsynlegar. Að gera einungis smábreytingar og sætta sig við, að margt standi enn þá í stjórnarskránni, er menn telja óheppilegt, í því liggur bein yfirlýsing um, að bráðlega þurfi að breyta henni aftur. Þetta er ástæðan til þess, að jeg bar fram þessa brtt.

Sá er munurinn á þessari brtt. minni og flestum hinna, að hún stendur í engu sambandi við sparnað. Hjer er farið fram á, að 2. málsgr. 58. gr. verði feld niður, um að breyta megi því með einföldum lögum, að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Auðvitað má segja, að ef altaf er verið að breyta stjórnarskránni; sje lítið meiri trygging fyrir ákvæðum hennar en annara laga. En þó er sá munur á, að henni verður ekki breytt, nema þjóðin sje spurð að. Og þar má ekki undanskilja þau stórmál, sem altaf er óráð að breyta skjótlega.

Jeg hygg, að allir hv. þm., hvort sem þeir eru fylgjandi skilnaði ríkis og kirkju eða ekki, sjeu mjer samdóma um það, að þetta sje ákaflega mikið stórmál. Ríki og kirkja hafa lengi fylgst að, og væri erfitt að sjá fyrir afleiðingarnar, ef þau væru aðskilin. Og auk þess, sem þetta er stórmál, er ef til vill ekkert annað mál meira tilfinningamál fyrir allan þorra manna. Jeg ímynda mjer að vísu, að þingið mundi aldrei ráðast í aðskilnað ríkis og kirkju án þess að leita álits þjóðarinnar. Það má gera á ýmsan hátt, t. d. leggja það undir alþjóðaratkvæði. En fyrir þessu er hvergi gert ráð, og engin trygging er fyrir því, að þetta verði gert.

Jeg vona, að hv. þm. skilji — hvað sem líður skoðunum mínum í þessu efni — að hjer er ekki stefnt að því að gera skilnað ríkis og kirkju óframkvæmanlegan, heldur er einungis trygt, að kjósendur fái að láta í ljós skoðun sína á málinu. Jeg undrast annars stórlega, að þetta ákvæði skyldi komast inn í stjórnarskrána. Ef vjer, athugum samskonar ákvæði í stjórnarskránni, sem breyta má með einföldum lögum, eru það æfinlega aukafyrirkomulagsatriði, svo sem t. d. tala þingmanna, en ekki fyrirkomulag þingsins í stærri atriðum, svo sem hvort hafa mætti einungis eina málstofu. Eins má breyta samkomutíma Alþingis, og ákvæðum 60. gr., um gjöld utan þjóðkirkjumanna, og er ekkert við það að athuga. — Jeg vona því, að hv. þm. athugi brtt. mína með velvild og greiði fyrir henni, ef nokkur breyting verður á annað borð gerð á stjórnarskránni.

Jeg leyfi mjer að þakka hv. þm. Str. (MP) fyrir það, að hann hefir tekið það til greina, sem jeg mintist á við 1. umr., um varaþingmenn fyrir Reykjavík. En þó þykir mjer hann ekki hafa bætt úr þessu svo fullkomlega, sem jeg hefði óskað, og er það eiginlega af vangá, að jeg hefi ekki borið fram brtt. í þessa átt, og við 28. gr. að öðru leyti, en jeg mun gera það, ef brtt. hv. þm. falla og landskjörnir þingmenn sitja áfram. — Að varamenn skuli vera jafnmargir sem þingmenn, er mjög skaðlegt ákvæði, sem þyrfti að breyta. Nú þegar er komið í ljós átakanlegt dæmi þess. Varamaður eins listans er látinn, og hefir sá listi nú engan varaþingmann. Ef þingmaður þessa lista heltist úr lestinni á einhvern hátt, yrði að fara fram kosning um alt land. Þetta er ákaflega bagalegt, en má bæta úr því án þess að gera neinn skaða, sem sje með því að orða greinina svo, að allir menn á hverjum lista skuli vera varamenn í sömu röð sem þeir standa á listanum. Þetta girðir fyrir þann mikla kostnað, sem aukakosning um alt land mundi hafa í för með sjer. Jeg hygg og, að mönnum þyki nú fullerfitt að vekja áhuga allra landsmanna fyrir kosningu 3 þingmanna, hvað þá heldur ef kjósa ætti einn. Enda raskaðist þá hlutfallið, því að fjölmennasti flokkurinn mundi jafnan hreppa sætið, án tillits til þess, hvaða listi misti fulltrúa sinn.