06.04.1923
Neðri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Þegar málin ganga svona seint, er ástæða til, að ýmislegt fyrnist, sem annars hefði verið dregið fram, og má vera, að jeg gleymi einhverju, sem jeg hefði þurft að taka fram.

Jeg skal fyrst víkja að nál. Það er mjög á reiki, og finst mjer það gefa þinginu hugmynd um, hvernig málið muni fara, þegar það kemur til þjóðarinnar. Þessir 5 nefndarmenn eru að minsta kosti þríklofnir, og skoðanir þeirra eru svo sundurleitar, að ritari nefndarinnar, svo pennafær maður sem hann er, og auk þess lögfræðingur, hefir ekki treyst sjer til að setja saman nál., er gefur betri hugmynd um afstöðu nefndarmanna. Þetta gefur ótvíræða bendingu um, að þegar málið kemur til þjóðarinnar, muni verða vakin upp mörg ný atriði og deilur um þau, sem vjer getum nú ekki sjeð fyrir endann á.

Þá skal jeg víkja að breytingum þeim, er felast í frv., og gera að umtalsefni eitt atriði, sem meira felst í heldur en tekið hefir verið fram. Það er lenging kjörtímabilsins. En með þessu er eiginlega verið að fara krókaleiðir til þess að svifta þjóðina nokkru af þeim rjetti, sem hún hefir til íhlutunar um þjóðmál. Jeg skil vel, að mönnum muni ekki þykja árennilegt, svona rjett fyrir kosningar, að bera fram tillögur um að skerða og þrengja kosningarrjettinn. En þetta kemur í sama stað niður, því að þegar kjörtímabilið er lengt, fá kjósendur sjaldnar tækifæri til þess að láta til sín taka.

Þá er sú breyting, að þing skuli háð annaðhvert ár. Menn hafa deilt um þetta atriði, en ýmsir halda því fram, þar á meðal hv. frsm. (MG), að lítið erfiðara sje að gera úr garði fjárhagsáætlun fyrir 2 ár heldur en eitt. Jeg get ekki skilið, hvernig auðið er að halda þessu fram. (MG: Jeg hefi aldrei sagt þetta). Hv. þm. taldi það lítið erfiðara, enda liggur það beinlínis í breytingunni. Nú, þegar þing er á hverju ári, veitir því sannarlega fullörðugt að gera áætlun um eitt ár, hvað þá heldur 2. Auk þess verður að gæta, að mikið af gjöldum ríkissjóðs, svo sem öll laun embættismanna, eru háð atvikum, sem ekki verða sjeð fyrir. Þetta getur munað mjög miklu, ef á að spá 2 ár fram í tímann, og er í raun rjettri að renna blint í sjóinn. Og ef áætlunin stenst ekki, verður stjórnin að ráða fram úr því á sitt eindæmi og þingið að láta sjer það lynda, hvernig sem tekist hefir. Þetta er að fjarlægja Alþingi Frá því að hafa áhrif á, hvernig fje þjóðarinnar er varið. Og með allri virðingu fyrir stjórninni, tel jeg þetta óheppilegt, og jeg hygg, að stjórnin muni ekki sparsamari á landsfje heldur en þingið. Fje það, sem þingið ráðstafar, kemur og öllum almenningi að notum, en frekar hygg jeg, að það mundi brenna við hjá stjórninni, að hún ljeti gæðinga sína sitja í fyrirrúmi.

Í sömu átt sem að fjarlægja kjósendur frá því að hafa áhrif á þingið og þingið frá því að hafa áhrif á fjármálin miðar fækkun ráðherra. Því var nokkuð lýst af hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að ef einn ráðherra kæmi í stað þeirra 3, sem nú eru, mundu koma ábyrgðarlausir menn í stjórnarráðið, er færu með landsmál. Það er alveg óhugsandi, að einn maður geti til nokkurrar hlítar kynt sjer og ráðið fram úr öllum þeim málum, er koma til kasta stjórnarinnar. Í þessu efni þýðir ekki að bera saman ástandið, sem nú er og vjer hillum framundan, við það, sem var fyrir 10–15 árum. Ástæðurnar eru svo alt aðrar og gerólíkar, að ekki verða bornar saman.

Það, sem menn fá með þessari breytingu, í stað þess, sem nú er, er að fjarlægja þing og þjóð frá því að hafa áhrif á þjóðmál og fá þau í hendur sumpart ábyrgðarlausum mönnum. Að ráðherra beri formlega ábyrgð á þessum mönnum gef jeg lítið fyrir. Jeg býst við, að þingið mundi ekki ganga hart að, ef embættismenn í stjórnarráðinu gerðu eitthvað það í fjarveru ráðherra, er því þætti miður.

Svo jeg víki aftur að 2 ára fjárhagstímabilinu, er þing nú háð í ársbyrjun og þarf því að spá lengra fram í tímann heldur en meðan sumarþing voru, auk þess sem ástandið er nú svo miklu erfiðara. Hæstv. forsrh. (SE) gat þess rjettilega, að miklar deilur mundu rísa um þetta með þjóðinni, eins og jeg sýndi fram á í upphafi ræðu minnar. Þetta gæti orðið upphaf langrar stjórnarskrárdeilu, sem tefði fyrir nauðsynlegum innanlandsmálum. Þessi stjórnarskrá hefir nú staðið skamma stund, og þó að jeg kysi, að ýmsum ákvæðum yrði breytt, verð jeg þó að vera því mótfallinn, að breytingar hv. frsm. (MG) nái fram að ganga. Um brtt. hv. þm. Str. (MP) skal jeg taka það fram, að jeg er hlyntur mörgum þeirra og álít þær til bóta, en jeg efast um, hvort tilvinnandi er að breyta nú stjórnarskránni þeirra vegna. Að minsta kosti mætti þá ekki samþykkja neitt af brtt. hv. frsm. (MG).

Hv. frsm. (MG) staðhæfir, að tillögur sínar hafi fylgi þjóðarinnar. Jeg skil ekki, á hverju hann byggir þetta. Það væri þá helst af því, að eitt af landsmálablöðunum hefir haldið því eindregið fram, að nægilegt sje að heyja þing annaðhvert ár, og skilja beri ummæli hv. þm. svo, að hann ætlaði að gera samband við það blað. (MG: Hvaða blað talar þm. um?). Það er Tíminn, og jeg hygg, að hv. þm. mundi ekki vera svo öruggur, nema hann vissi, að hann hefði trygt sjer volduga bandamenn.

Þetta á að vera sparnaður: að fækka ráðherrum og hafa þing annaðhvert ár, það getur verið, að hv. þm. (MG) geti reiknað svo út á pappírnum. En þetta verður einungis sparnaður í orði, og er jeg hræddur um, að svo muni ekki reynast í framkvæmdinni. Reynsla undanfarinna ára sýnir, að þörf var á því að halda þing árlega, og jeg man ekki betur en að eitt árið hafi þingið verið kallað saman tvisvar. Þetta bendir í þá átt, að ekki sje gerlegt að breyta þessu. Og ef svo er mælt fyrir í stjórnarskránni, að með lögum megi ákveða að þing skuli háð annaðhvert ár, gæti það komið fyrir, að fjárveitinganefnd þættist einhverntíma vera í kröggum, segði t. d. að sig vantaði 200000 krónur, og fengi samþykt lög um það, að þing skyldi ekki koma saman næsta ár. Á næsta þingi gæti fjárhagurinn hafa batnað svo, að þá yrði aftur samþykt að hafa þing á hverju ári. Þá væri þingið og þinghald orðið að fjárlagaatriði, sem verið væri að hringla með fram og aftur frá þingi til þings.

Þegar um svo mikilsvert mál er að ræða sem það að fjarlægja þjóðina frá afskiftum af þinginu, skerða íhlutunarrjett þingsins í fjármálum og auka vald stjórnarinnar í þeim efnum, er það óframbærileg ástæða, að með því spöruðust nokkrir tugir þúsunda. Ókostirnir eru svo miklir, að jeg þykist viss um, að Alþingi muni ekki vilja gefa stjórninni meira vald og draga fjárveitingavaldið að miklu leyti úr höndum sjer fyrir þetta. Þessir ókostir fylgja tillögum hv. frsm. (MG), og skil jeg því ekki, að þær muni ná fram að ganga.