06.04.1923
Neðri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Pjetursson:

Jeg hefði gjarnan viljað, að fleiri hefðu tekið til máls áður en jeg stæði upp aftur, en þó eru nokkur atriði frá síðasta fundi, sem jeg get svarað nú.

Jeg skal byrja á að benda á prentvillu í brtt. mínum á þskj. 229, sem jeg hefi ekki tekið fyr eftir. Í 8. brtt. stendur „orð 30. gr.“, en á að vera „orð 39. gr.“, og verður þetta leiðrjett við næstu prentun.

Eiginlega hefi jeg fylstu ástæðu til að vera mjög ánægður með undirtektir þær, sem brtt. mínar fengu á síðasta fundi, að minsta kosti með það, hve andmælendum mínum hefir tekist óhöndulega. Það er aðallega hv. frsm. (MG), og hæstv. forsrh. (SE) lítils háttar, sem hafa lagst á móti þeim. Jeg geri ráð fyrir, að hv. frsm. (MG) hafi ekki ekki verið svo linur að hrekja brtt. mínar af þeirri ástæðu, að honum þyki afdrif þeirra svo auðsæ, að hann þurfi ekki að beita rökfimi sinni gegn þeim. Það væri hættulegt og gæti skilist svo, að engin rök væru til. Jeg hygg þetta ekki heldur vera ástæðuna. Jeg býst við, að jafnvandvirkur þm. sem hv. frsm. (MG) er, hafi íhugað brtt. mínar nákvæmlega, að jeg nefni ekki hina vandlegu yfirferð yfir alla stjórnarskrána, er hann gat um. Það má því gera ráð fyrir, að hann hafi komið með alt, sem hann hafði til brunns að bera.

Hæstv. forsrh. (SE) var að bera í bætifláka fyrir landskjörnu þingmennina, að þeir ættu að hafa meiri þekkingu til brunns að bera og skapa íhald í þinginu. Jeg verð að mótmæla því algerlega, að nokkurt íhald skapist með því fyrirkomulagi, sem nú er á kosningu landskjörinna þm. Reynslan hefir sýnt, að landskjörnir þm. eru ekkert íhaldssamari heldur en sumir kjördæmakosnir þm. Ef vjer lítum fram í tímann og hugsum oss, að tveir heilbrigðir flokkar mynduðust, framsækinn flokkur og Íhaldsflokkur, og Íhaldsflokkurinn ætti að setja upp lista við landskjör. Auðvitað yrðu ekki allir íhaldsmennirnir kosnir. Og þó að þeir kæmu 1 eða 2 mönnum að, hvaða gagn væri í því? En vitanlega koma slíkir íhaldsmenn altaf líka meðal hinna kjördæmakosnu þingmanna. Hvort landskjörnir þingmenn hafa meiri þekkingu en aðrir, skal jeg ekki dæma um. En það er ljóst, að með núverandi fyrirkomulagi er engin trygging fyrir því, að þeir hafi meira til brunns að bera en aðrir menn.

Það hefir verið sagt um efri deild, að hún ætti að vera til þess að skapa íhald. Mætti því ætla, að Alþingi hefði lagt í vana sinn að velja svo í þá deild, að í henni sætu rosknustu og ráðsettustu þingmennirnir. En raunin hefir orðið sú, að oft hafa einmitt yngstu og óreyndustu mennirnir verið valdir í efri deild.

Þá er það frsm. hins klofna meiri hl. (MG), sem jeg verð að víkja orðum mínum að, og fyrst því, er hann beindi til hæstv. forsrh. (SE). Hann gaf það í skyn, að hæstv. forsrh. (SE) hefði fengið mig — sem flokksmann sinn — til þess að bera fram þessar brtt, í þeim tilgangi að eyðileggja frv. Jeg þarf ekki að gefa neina yfirlýsingu í þessu efni, því að jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. (SE) geti skýrt málið eins vel. En mjer finst nokkuð undarlegt, að hv. þm. skuli vera að bera þetta fram, því að jeg þykist þess fullvís, að hv. þm. hafi vitað, áður en 1. umr. fór fram og hæstv. forsrh. (SE) sagði þau orð, er hv. þm. vitnaði til, að jeg ætlaði að bera fram frekari brtt. (MG: Hvernig átti jeg að vita það?). Á orðum mínum utan þings og innan áður. Jeg gæti þá með sama rjetti lagt þá spurningu fyrir hv. frsm. (MG), hvort það var fyrir tilstilli Tímans, sem hann kom fram með þetta frv. Því allir vita, hvaða stefnu það blað hefir tekið upp í þessu máli, og það átti frumkvæðið að því.

Þá sagði hv. þm. (MG) að þjóðin myndi ekki verða á móti þessum breytingum. Það var gott að fá þá yfirlýsingu hv. þm. (MG). Nú verður skiljanlegt, af hverju frv. er fram komið. Það eru kosningarnar, sem í hönd fara, sem hafa vakið þessa getnaðarþörf hjá hv. flm. Ella hefði hann fyrir löngu verið búinn áð koma fram með það, því að nóg voru tækfærin og það talsvert veglegri en nú. (MG: Þá hefði breytingin kostað aukaþing). Það er líka einmitt það, sem hún átti að gera. Þegar slík mál koma fram, er rjett, að kosningarnar snúist um þau; annars sjest ekki, hvort þetta eða hitt er vilji þjóðarinnar. Og það mun einmitt hafa verið upprunalega ætlun löggjafanna, sem settu þetta ákvæði í stjórnarskrána, að þegar um stjórnarskrárbreytingu væri að ræða, þá skyldi á þennan hátt tryggja það, að sú breyting væri að þjóðarvilja, með því að láta kosningarnar snúast um það eitt atriði og ekkert annað.

Það er annars leiðinlegt að heyra það, hve hv. flm. (MG) sýndi mikla viðleitni í því að sneiða hjá sannleikanum í ræðu sinni á síðasta fundi, um þetta mál. Af þessum sökum leiddist jeg til að gera einum samnefndarmanni hans rangt til, þar sem jeg trúði orðum hv. frsm. (MG) og tók þá alla í einu númeri. En síðan hefi jeg bæði sjeð það í gerðabók stjórnarskrárnefndar, að hv. 1. þm. G.-K. (EÞ) hefir ekki verið þar sannur að sök, enda hefir hann síðar viðurkent það við mig, að hann hafi aldrei sett sjer þetta veglega takmark, að vera á móti öllum öðrum breytingum á stjórnarskránni en þeim, er frv. flytur, og þótti mjer vænt um að heyra það.

Þá mun hv. flm. (MG) hafa gengið fullnærri sannleikanum, er hann gaf þá skýringu, að meiri hl. hefði tekið þessa afstöðu til brtt. minna af því, að hann hefði, eftir ítarlega athugun stjórnarskrárinnar, komist að þeirri niðurstöðu, að engu þyrfti þar öðru að breyta. Það er þessi ítarlega athugun, sem jeg dreg dálítið í efa. Af þeim fundum, sem nefndin hefir haldið, eru aðeins tveir, sem jeg hefi ekki getað verið á. Sá fyrri var í byrjun nefndarstarfanna, og gat jeg ekki sótt hann sökum anna. Í síðara skiftið var jeg veikur, og notuðu hv. samnefndarmenn mínir tækifærið til að koma fram með þessa spaklegu ályktun og gera út um málið á þann hátt. En eitt sást þeim yfir: að geta um þessa ítarlegu yfirvegun stjórnarskrárinnar í gerðabókinni. Þar er hana hvergi að finna, og mjer er næst að halda, að eins sje það um þessa „ítarlegu yfirvegun“, að hún sje ekki enn þá orðin til. Það þýðir því ekkert að ætla sjer að slá ryki í augu manna með öðru eins og þessu. Það hefði verið langtum rjettara af hv. meiri hl. að kannast við það, að hann hafi, til hægðarauka, ætlað að reyna að notast við flaustursafgreiðslu, sem ósæmileg er stjórnarskránni.

Háttv. flm. (MG) hefir altaf verið að klifa á því, að stjórnin fari eins vel með fje þjóðarinnar og Alþingi. Það þýðir ekkert að vera að deila um slíkt. En eitt er víst, og það er, að hvort sem stjórnin fer vel eða illa með fje þjóðarinnar, þá fer hún heimildarlaust og ólöglega með það fje, sem Alþingi hefir ekki fyrirsagt henni hvernig nota skyldi. En Alþingi hefir aftur á móti valdið til þessa, hvernig sem það svo ver fjenu.

Jeg var hissa, er jeg heyrði það koma fram hjá hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), sem er formaður fjvn., að fjárlögin væru í raun rjettri aðeins spádómur, og heyra hann styðja sitt mál með slíkri röksemd. Jeg vil þá leggja það til, ef þingið af þessum sökum ætlar sjer að taka upp þann sið að leggja fjárveitingavaldið í hendur stjórnarinnar, að þetta verði alt gert miklu einfaldara og þingtíminn um leið sparaður í stórum stíl. Þetta mætti hæglega gera með því, að þingið tiltæki aðeins, hve miklar skyldu tekjur og gjöld ríkisins á hverju fjárhagsári, og stjórnin útbýtti svo fjenu eftir sínu viti og vild. (MG: Eru það nú rök!). Það eru engu verri rök en það, að stjórnin fari betur með fje en Alþingi, og á þessu er aðeins stigmunur og frv., stefnan er sú sama.

Þá fanst mjer til um, hve krakkalega hv. flm. (MG) fór, er hann sagði, að það væri jeg, sem óvirða vildi stjórnarskrána með smábreytingum. Það er þessi látlausa, en ofurlítið einfalda röksemd krakkanna, þegar einhver jafningi þeirra álasar þeim eða sneypir, þá er það að segja: „Nei, þú ert það, þú ert ljótur!“ o. s. frv. Þykir mjer sýnt, að ekki er hin barnslega einfeldni enn máð úr huga hv. þm. (MG).

Mjer þótti annars vænt um að heyra, að hv. þm. (MG) er ekki mótfallinn fækkun þm. Hann kvaðst vilja íhuga það. En hví mátti stjórnarskrárnefndin ekki íhuga það? Jeg býst við, að það hefði varla orðið mjög hættulegt, því þótt hún hefði komið sjer saman um að fækka kjördæmakosnu þm., þá býst jeg varla við, að hv. þm. hefðu yfirleitt reynst svo kjarkmiklir rjett fyrir kosninguna, að fara að svifta kjördæmin þm. sínum.

Þá kvað hv. þm. (MG) það meðmæli með tvískiftingu þingsins, að þannig væri það einnig hjá frændþjóðum okkar. Það tel jeg ljettvæg rök. Jeg býst við, að heppilegast verði fyrir okkur, í því tilliti, að aka seglum eftir þeim vindum, sem blása hjá okkur, en ekki því, hvernig vindstaðan er hjá öðrum þjóðum. Auk þess villist hv. þm. á því, að þessu sje svo háttað hjá frændþjóðum vorum. Jeg veit ekki til þess, að þing þeirra skifti sjer sjálft í deildir, eins og á sjer stað hjá okkur. Jeg skal játa, að reynslan hefir stundum sýnt, að gott sje að hafa tvær deildir. En hún hefir líka oft sýnt það gagnstæða. Með þessu fyrirkomulagi, sem er, kastar neðri deild oft áhyggjum sínum yfir á þá efri og ætlar henni að laga það, sem hún sjálf hefir kastað höndum til. Væri engin efri deild, myndi sú eina deild finna meira til ábyrgðar sinnar og vanda sig meira í störfum sínum.

Þá kvartaði hv. þm. um það, að mjer þætti ekki málinu liggja mikið á, er jeg mæltist til þess, að það væri tekið út af dagskrá. Það var nú bara þessi eini dagur, sem um var að ræða, og þarf hv. þm. (MG) ekki að blöskra það. Aftur á móti lá við að mjer blöskraði, er þessi hv. þm. (MG) gerði það að skilyrði fyrir leyfi sínu, að málið yrði tekið til umr. daginn eftir, og fór svo að rekast í því, að það væri gert. Heldur hv. þm., að hann hafi nokkuð um þetta að segja? Það er forseti, sem samkvæmt þingsköpunum hefir fult vald til að taka mál út af dagskrá, og þarf hann ekki samþykki neinna þm. til þess.

Þá gat hv. þm. ekki skilið það rjett, er jeg spurði, hvernig þeir þingmenn, sem setið hefðu á þingi árum saman, án þess að finna neitt að þessum árlegu þingum, ætluðu að verja þá skoðun, að óþarft sje að hafa þing nema annaðhvert ár. Jeg átti þar ekki við, að svo erfitt væri að verja þetta, að skifta um skoðun. Hitt átti jeg við, hvernig þeir ætluðu að gera grein fyrir þingsetu sinni þessi ár, sem þing hefir verið háð árlega. Hvað þeir ætluðu að segja þjóðinni, að þeir hefðu verið að gera í þinghúsinu. Það er í rauninni dálítið broslegt, ef þingið í alvöru ætlaði sjer þann vitnisburð, að það hafi nú setið hjer ár eftir ár aðgerðalaust og til einskis gagns.

Jeg gæti trúað því, að sumir hv. þm. myndu fremur hallast að því, að þing væri árlega, ef þeim væri gefin trygging fyrir því, að þau yrðu stutt. Gott og vel. Jeg er fús að benda á auðvelda leið til að stytta þingin. Hún er sú, að fjárveitinganefnd sje kosin í lok hvers þings og látin koma saman hálfum mánuði áður en þing byrjar. Þá þyrfti ekki að standa á störfum hennar. Þetta tel jeg rjettara en að vera að hlaupa slík gönuhlaup, sem hjer er um að ræða. (MJ: Hvernig fer þá með fjvn. rjett fyrir kosningar?). Þau þing, sem væru næst á eftir kosningum, mættu vel vera lengri, ef ekki er hægt að finna leið þessu til bjargar. Það er annars ekki svo, að þessi hugmynd sje allsendis ný. Jeg hefi fyrir nokkrum árum átt tal um þetta við Pjetur heitinn Jónsson, fyrverandi ráðherra, og fjelst hann á, að þetta myndi talsverður búhnykkur. Sömuleiðis oft við landlækni, sem einnig hefir talið þetta ágætt ráð. Og ekki þarf á stjórnarskrárbreytingum að halda til að koma þessu fram. Og jeg býst við, að benda megi á ýmsar fleiri leiðir til að spara þingkostnaðinn, án þess að grípa til þeirra örþrifaráða, sem hjer er um að ræða. Jeg skal t. d. benda á, að ein leiðin er sú, sem jeg ber fram í mínum brtt., að ekkert frv. væri tekið til greina af þinginu, til fullnaðarúrslita að minsta kosti, nema það væri komið fram í síðasta lagi viku eftir að þing er sett. Þetta myndi áreiðanlega verða til að stytta þingtímann að nokkrum mun. Nú er þetta svo, að fæstir þm. vita, hvað í þessum frv. stendur, nema þá þeim, sem fara gegnum þær nefndir, sem þeir eru í. Auk þess er miklu verra að athuga nokkurt mál til hlítar, þegar frv.- moldviðrið er svona mikið. Að vísu mætti gera þetta með því aðeins að breyta þingsköpunum, en frá þingsköpum má veita afbrigði, og er því miklu tryggara og vænlegra til gagns að hafa þetta í stjórnarskránni sjálfri.

Jeg hefi heyrt það á sumum hv. þm., að þeir sjeu því hlyntir, að landsk. þm. væru lagðir niður, en þinginu skift eftir sem áður. Það má vera, að þeir hafi nokkuð til síns mál. Gætu þeir komið fram með brtt. þessa efnis við 3. umr., ef þeim sýndist svo. Jeg vil annars benda hv. deild á það, að jeg hygg það rjettara, með tilliti til eftirtímans, að þessum brtt. mínum sje leyft að fara til 3. umr., hversu sem svo fer úr því. Þá væri ekki hægt að segja, að þingið hafi farið óvarlega í því að drepa svo skjótt það, sem þjóðin kemur áreiðanlega til að leggja sinn dóm á síðar. Því það ætla jeg að fullyrða, að þótt hv. þm. þori ekki nú að samþykkja þessar brtt., þá munu þær komast fram síðar, því það er áreiðanlegt, að þm. sem hugsa um sparnað alvarlega, en ekki til þess eins að krydda með kjósendaræður, munu taka þetta mál upp síðar.