06.04.1923
Neðri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil í stuttu máli svara nokkrum orðum, sem hv. frsm. (MG) vjek að mjer í ræðu sinni við síðustu umræðu. Honum fórust svo orð, að jeg væri ákveðnari á móti stjórnarskrárbreytingu nú en áður. En þetta er ekki rjett. Jeg var raunar hás, og talaði lítið við 1. umr., en tók þó skýrt fram afstöðu mína til breytingarinnar og fór alveg eins langt þá eins og síðar. Hann vjek sömuleiðis að þeim spádómi mínum, að ef einu sinni væri farið að hrófla við stjórnarskránni, myndu margar fleiri breytingar sigla í kjölfarið og gömul deiluefni risa upp. Og jeg benti hv. frsm. á, að það væri þegar komið á daginn. Hann sagði, að jeg hefði fengið flokksbróður minn til að bera fram brtt. við stjórnarskrána, til þess að láta spá mína rætast. Jeg veit, að mjer er varla nauðsynlegt að fara að bera þetta af mjer, því fáir munu trúa því, að jeg færi að biðja um að komið væri með breytingar á stjórnarskránni, sem jeg legðist svo strax á móti. Enda hefi jeg, satt að segja ekki orðið var við svo sjerstakan stuðning hjá hv. þm. Str. (MP). Þykist jeg ekki þurfa að fara fleiri orðum um þessa tilgátu, enda býst jeg ekki við að háttv. frsm. hafi talað í alvöru, er hann kastaði henni fram. Sannleikurinn er sá, að þessar brtt., sem komnar eru og munu koma, eru ekki nema eðlilegar og sýna það eitt, hvað skoðanir manna á ýmsum atriðum stjórnarskrárinnar eru margbreytilegar.

Hv. frsm. hneykslaðist á því, er jeg sagði að breytingar á stjórnarskránni ættu að koma frá stjórninni og hún ætti að undirbúa mál eins og þessi fyrir þingið, en hann kvaðst ætla eftir öðrum stjórnarfrumvörpum að dæma, að ekki væri mikils að vænta af þeim undirbúningi. En því er að svara, að hafi stjórnin búið frv. sín illa undir þingið, þá fái það sjer aðra betri. Annars játa jeg, að jeg sje ekki hvaða ástæða er til þess fyrir hv. frsm. (MG) að víkja þessu að stjórninni. Í einu frv. vantaði raunar eitt ákvæði í textann og var vikið að því í aths. við frv. Jeg býst við að það sje þetta, sem hv. frsm. á við, og geta menn þar af sjeð, hve smávægilegar forsendur hans eru fyrir þessum dómi á stjórnina. Þá bjóst hann við því, að það væri af afbrýðisemi, að stjórnin hefði snúist í móti þessum brtt. En síst öfunda jeg hv. þm. af þessum brtt., og ekki vildi jeg sjálfur hafa komið með þær. Og hvernig svo sem afstöðu okkar hv. frsm. (MG) er háttað, er það ástæðulaust fyrir hann að gera mjer þær getsakir, að jeg komi þannig fram gagnvart honum eða vilji yfirleitt kasta nokkrum steini í götu hans. Jeg kvaðst ætla að sú yrði reyndin á, að þing yrðu á hverju ári, þó brtt. næðu fram að ganga, og spurði frsm. (MG) þá, fyrir hverju þá væri barist. En því er að svara, að jafnvel þó vjer samþyktum þá breytingu, mundi hún samt aldrei komast inn í stjórnarskrána, kjósendur myndu sjá fyrir því. En það er annað, sem vjer hræðumst. Vjer óttumst, að aðrar enn þá óheppilegri breytingar elti þessar og vaktir verði upp gamlir eldar með þjóðinni. Undirtektirnar í hv. deild spá engu góðu um frið í framtíðinni. Margir þeirra hv. þm., sem tala á móti brtt. nú, mundu, þó þær yrðu að þessu sinni samþyktar á þinginu, ekki hætta að láta til sín heyra, og það er vafalaust, að þjóðin mundi taka fult tillit til þeirra. Þessu máli hefir verið haldið uppi sem sparnaðaratriði, en ef vjer lítum aftur í tímann, og það er altaf heppilegt, ef gera skal áætlanir um fjármál, þá sjáum við að á árunum 1900–1921 hafa verið haldin 17 þing, aðeins 4 ár hafa þau fallið niður. Ef vjer reiknuðum út frá því, verður sparnaðurinn ca. 33 þús. kr. á ári. Það er alt og sumt.

Hv. frsm. kvað mig vilja gera mikið úr þeirri tryggingu, sem fengist með árlegum þingum, að stjórnin færi ekki um lengri tíma ein með völdin. Þetta er satt, og hefir verið sýnt fram á, hversu það er þýðingarmikið atriði. Þá talaði hann um það, að þingin 1907 og 1909 hefðu afgreitt ýms mjög merk lög. Það er alveg rjett, en jeg verð að benda á það, að tímarnir eru mjög breyttir frá því, sem þá var. Þá var farið eftir föstum grundvallarreglum, sem menn litu til og virtu. En óróinn er orðinn meiri og byltingarnar tíðari í heiminum nú en þá var. Og það er ekki síst þess vegna, að nauðsynlegt er að hafa árleg þing.

Það má kannske segja, að það hafi verið að bera í bakkafullan lækinn fyrir mig að fara að standa upp hjer til andsvara brtt., svo margar ástæður og veigamiklar sem þegar hafa verið bornar fram á móti þeim af munni ýmsra hv. þm. En jeg gat ekki látið þessa umr. fara svo framhjá mjer, að jeg gerði ekki athugasemdir við það, sem háttv. frsm. (MG) vjek að mjer. Hann kvað það sið, að breyta lögum, ef þau þættu athugaverð. En hann gætir þess ekki, að öðruvísi stendur á með stjórnarskrána en önnur lög. Hún er grundvöllurinn, víggirðingin um þau grundvallarákvæði, sem mestu máli skifta þjóðina. Því er það, að erfiðara er þjóðinni gert fyrir um það að breyta henni heldur en öðrum lagabálkum. Vona jeg það að lokum, að háttv. deild athugi það, að stjórnarskrá vor er yfirleitt frjálsleg og vel gerð, og að breytingar þessar á henni yrðu áreiðanlega stórt spor aftur á bak. Og merkilegt er það að ætla sjer að koma fram með brtt. af sparnaðarástæðum, þar sem þing hefir verið háð á hverju ári frá 1911 til 1919 og eitt árið tvisvar sinnum, meðan ákvæðið um þing annaðhvert ár var þó enn þá í stjórnarskránni.