06.04.1923
Neðri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil reyna að forðast endurtekningar og skal vera mjög stuttorður. Jeg verð þó, að gefnu tilefni, að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Jeg er sammála honum í því, að þingið eigi ekki að blanda sjer inn í hin eiginlegu stjórnarstörf (administrationina). En jeg sje ekki, að ferðir mínar til hv. allsherjarnefndar nú geti gefið tilefni til ummæla háttv. þm. (JÞ), því jeg veit ekki til, að jeg hafi rætt nein mál við háttv. nefnd önnur en Spánarmálið og landhelgisgæsluna. Taldi jeg það skyldu mína að skýra þingnefndinni frá þeim málum, enda mundi það hafa verið talin vanræksla, ef jeg hefði ekki gert það, í hvaða þingi sem var.

Um stjórnarfyrirkomulagið á þeim gullnu tímum, sem þennan hv. þm. (JÞ) dreymir um, þarf jeg ekki að fjölyrða. Tímarnir og ástandið alt er nú svo gerbreytt síðan, að ekki er saman berandi við það, sem þá var. Deildarstjóra- fyrirkomulagið, sem hann talaði um í sambandi við landritaraembættið, er heldur ekki rjett skilið hjá honum. Því skrifstofustjórarnir hjer eru einmitt alveg samskonar embættismenn og deildarstjórarnir, sem hann talaði um, en embætti á borð við landritaraembættið hjer er ekki til annarsstaðar á Norðurlöndum. Annars er engin reynsla fengin fyrir því, og ekkert hægt um það að fullyrða, hvernig hið gamla skipulag hefði reynst á hinum nýju og breyttu tímum, sem síðan hafa komið. Er það kunnugt, að margfalt meira erfiði hefir nú mætt á stjórninni heldur en í fyrri daga. Þannig er það, að þessar snöggu og miklu breytingar í fjárhagslegu lífi þjóðarinnar gera alt aðrar kröfur til stjórnendanna en áður; mundi og þessara breytinga eins hafa orðið vart, þótt gamla fyrirkomulagið hefði haldist, sem hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir svo mikla tröllatrú á. Það eru draumórar einir að halda því fram, að hjer gæti ekki sömu áhrifa á þessu sviði og annarsstaðar.

Þá sagði þm., að það væri óhugsandi, að stjórnin tæki duglega menn úr hópi lögfræðinga utan stjórnarráðsins fyrir skrifstofustjóra í stjórnarráðinu. Jeg held nú, að reynslan sýni alt annað. Þegar jeg var fjármálaráðherra, tók jeg sýslumann utan af landi og gerði að skrifstofustjóra í minni deild, og jeg verð að segja það, að jeg hefi ekki iðrast eftir það verk mitt, fyr nje síðar. Það liggur og í augum uppi, að sýslumenn eru svo nákunnugir öllum umboðsstörfum, að þeir hljóta að vera manna færastir til að gegna slíkum embættum. Hvað viðvikur núverandi stjórn, þá mun sú stjórn vandfundin, sem allir væru ánægðir með; en sje svo, að þingið hafi verið óheppið í vali sínu á stjórninni, þá liggur næst fyrir, og vandinn hægur, að skifta um og fá aðra. Þessu má alls ekki blanda saman, hæfileika stjórnarinnar til að fara með völdin og stjórnarskránni. Það mun engin sú stjórnarskrá til vera, sem getur girt fyrir misfellur í stjórnarfarinu. Það eru og ekki þeir ábyrgðarlausu, sem mest veltur á um stjórn landsins, heldur einmitt þeir, sem ábyrgðina hafa. Setjum svo, að gamla fyrirkomulagið, með landritarann, yrði tekið upp aftur, þá væri þó alt undir stjórninni komið, hvernig landritarinn yrði. Jeg verð því að halda því fram, að alt er undir því komið, hvernig þeir menn eru, sem ábyrgðina hafa. Og jeg segi það, að það er engum ráðherra ofætlun að setja sig inn í öll þau störf, sem fyrir koma í stjórnarráðinu, eða þau mál, er undir hans úrskurð koma. Jeg geri ekki ráð fyrir, að nokkur ráðherra með ábyrgð sje til, sem felli úrskurð um mál, án þess að hafa sett sig inn í þau frá rótum. Eigi annaðhvort að fara að fækka þingunum eða ráðherrum, skal jeg glaður samþykkja fækkun ráðherranna heldur en þinganna. En komi sú tillaga fram að fækka ráðherrunum, vil jeg ekki berjast á móti henni; en jeg vil benda á þá samlíkingu, sem nýverið hefir verið komið með um bankanna, að sje þörf fyrir þrjá bankastjóra fyrir hvorum þessara litlu banka, ætti ekki síður að vera þörf þriggja ráðherra til að stjórna landinu öllu. Jeg held því og fram, eins og jeg hefi þegar tekið fram áður um þetta mál, að þegar ráðherrann fer utan á fund konungs, til að leggja fram fyrir hann lög, og í öðrum embættiserindum, þá hljóta menn að bera fram þá kröfu, að einhver maður með fullri ábyrgð á stjórninni sje kyr eftir í landinu. Það getur alveg eins alvarlega hluti borið að höndum á þeim tímum, sem ráðherrann er utan, og því er ekki rjett að svifta þjóðina þeim mönnum, sem ábyrgð geta borið á því, hvernig fram úr þeim málum verður ráðið.

Þó að ráðherrann eigi nú að bera ábyrgðina á landritaranum, er það vitanlegt, að hann yrði ekki hengdur fyrir þau verk, sem landritarinn fremdi meðan ráðherrann væri utan, og gat því ekki vitað um. Það er því vafasamt, að hann gæti eða yrði látinn bera ábyrgð á slíku. Þess vegna verða að vera að minsta kosti 2 ráðherrar.

Umr. frestað.