17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Hallsson:

Það er nú nærri hálfur mánuður síðan mál þetta var seinast á dagskrá og umræðum frestað hjer í hv. deild. Er því eðlilegt, að farið sje að fyrnast yfir ýmislegt, sem hjer var sagt seinast, og líka, að jeg endurtaki sumt, sem annars hefði ekki orðið. En mjer finst tæplega fara vel á því, að eins þýðingarmikið mál og þetta skuli vera látið sitja á hakanum fyrir smámálum. En þau ganga svona stundum hjá okkur, vinnubrögðin. Lítilsverð mál taka oft langan tíma frá þinginu, og svo verður að lokum að kasta höndunum til þeirra, sem meira er um vert. Jeg vil nú beina þeirri spurningu til deildarinnar og hæstv. forseta, hvort ekki sje nú ráð að fara að vinsa úr þau málin, sem einhverja verulega þýðingu hefir að gangi fram, og hin sjeu svo látin eiga sig. Með því eina móti gæti ef til vill orðið einhver von um, að þingið þyrfti ekki að standa langt fram á sumarið.

Jeg var víða spurður um það eystra, áður en jeg fór til þings, hvort ekki myndi beinn sparnaður að því að fækka þingunum, halda þau aðeins annaðhvert ár. Jeg var því samþykkur fyrir mitt leyti, en taldi óvíst, að þingið vildi ganga inn á þá braut að gera nú breytingar á stjórnarskránni, og því síður, að um þær næðist fult samkomulag.

Þegar frv. á þskj. 30 kom fram, leist mjer strax vel á það, og mun jeg ljá því fylgi mitt hjer í þessari hv. deild. Get jeg ekki annað fundið en að því fylgi verulegar sparnaður, með því fyrst og fremst að fækka þingunum. Þegar tekið var upp það atriði í stjórnarskrána á þinginu 1920, að þing skuli koma saman á hverju ári, var meðal annars sú ástæða færð fyrir árlegum þingum, að þau yrðu styttri en þing annaðhvert ár, og því lítið eða ekkert dýrari. En reynsla þessara ára, sem síðan eru liðin, hefir ekki stutt það. Þingin eru nú yfirleitt eins löng og áður. Orsakir þess liggja í augum uppi. Fyrst og fremst verður því meiri málafjöldi og lagabreytingar fyrir þingunum, því oftar sem þau eru háð, og hætt er við að mörg af þeim málum verði óþörf, eða svo bendir reynslan til. Er oft illa varið tíma og peningum til þess að þvæla þau, og mættu mörg þeirra að skaðlausu hvíla sig eða sofna alveg. Hins vegar verður betlið til þingsins enn þá meira, því oftar sem kostur gefst á að kvabba, en eins og menn vita, hefir þetta mjög tafið störf fjvn. og lengt þingtímann. Þar sem nú þingin undanfarin ár hafa kostað 2–3 hundruð þúsund krónur, er það ekki lítið, sem sparast, jafnvel þótt gera mætti ráð fyrir lengri þingsetu, sem jeg efast um að yrði, þótt þing sje háð annaðhvert ár. Þó skal jeg játa, að ekki er ólíklegt, að svo yrði.

Þá er þessu fundið það til foráttu, að með því sje kastað of stórum bagga á herðar stjórnarinnar, og vald hennar um leið aukið um of. Þetta gekk þó alt vel á meðan einn var ráðherra ásamt landritara, og mætti það eins verða hjer eftir. Mjer sýnast fjáraukalögin geta náð nógu hárri upphæð nú undanfarið, þrátt fyrir árleg þing.

Vitanlega heyrast alltaf annað slagið raddir um það, að þing sje háð alt of stuttan tíma árlega. T. d. er alþekt skoðun hv. þm. Dala. (BJ) á því efni, sem vildi ef til vill helst, að þing stæði yfir alt árið. Tók hann í þann strenginn seinast, er hann talaði í þessu máli. Það er þó augljós sparnaður í því, að þingið losni annaðhvert ár við að sitja undir óþörfum rœðum hans, og jafnvel sumra annara hv. þm., og myndu landinu þar sparast drjúgir peningar, sem ella færu í prentunarkostnað og annan óþarfan þingkostnað. (BJ: Jeg felst ekki á það, að mínar ræður í þinginu sjeu óþarfar, en jeg skal játa, að ræður hv. 2. þm. N.-M. (BH) eru það). Um það býst jeg þó við að gætu orðið skiftar skoðanir, en það sannast á hv. þm. Dala (BJ), að hverjum þykir sinn fugl fagur. En svo kunnugur ætti hann að vera orðinn hv. þm., að hann vissi það, að margra leiðindastunda hefir hann aflað þeim með sinni alkunnu og óþörfu mærð.

Þá kem jeg að fækkun ráðherranna. Þessi þríhöfðaða stjórn myndaðist vist bæði af því á þinginu 1916, að flokkariðlið var svo mikið, að ekki var hægt að koma sjer saman um einn ráðherra, og líka af því, að störfin þóttu of umfangsmikil á stríðsárunum fyrir einn ráðherra. Þetta var því aðallega bræðingsstjórn, og svo hefir í raun og veru verið síðan, og svo stríðsráðstöfun.

Mjer hefir alt af fundist þessi samsteypa ekki vera til annars en að ala á sundrung í þinginu, þannig, að hvert flokksbrot vill ná sæti í stjórninni. Sá siður er ekki heldur hjá okkur, eins og hjá ýmsum nágrannaþjóðum vorum, að einum manni sje falið að mynda ráðuneytið, heldur hefir það jafnvel stundum gengið erfiðlegast að koma sjer saman um meðstjórnendur forsætisráðherrans. Jeg held því, að það yrði breyting til bóta, að fækka ráðherrum, og líklegt þætti mjer, að fremur gætu myndast hreinir flokkar í þinginu, ef einn væri ráðherrann, en á því tel jeg brýna nauðsyn.

En auðvitað þarf að vanda ráðherravalið sem best, sem og altaf er þörf, hvort sem þeir eru einn eða fleiri, þótt meira riði á, ef hann er einn. Hins vegar er það alkunnugt, að skrifstofur stjórnarráðsins vinna fyrst og fremst að þeim málum, sem fyrir þeim liggja, hver fyrir sig, og hefir stjórnin þær alt af sjer við hlið, og getur auk þess fengið aðstoð sjerfróðra manna, er um samning lagafrv. er að ræða og undirbúning mála, eins og t. d. símamála, vitamála, vegamála, póstmála, búnaðarmála o. fl. Jeg styð þessar breytingar á stjórnarskránni og vildi óska, að þingið gæti orðið samtaka í að koma þeim fram. Þá kæmist þó eitt mál fram, sem fylgdi verulegur sparnaður og ávinningur á fleiri vegu.

Þá er brtt. á þskj. 246, þess efnis, að fella niður úr 58. gr. stjórnarskrárinnar það ákvæði, að breyta megi því með einföldum lögum, að kirkjan sje þjóðkirkja. Eins og kunnugt er, hefir talsvert bólað á þeirri hreyfingu hjer undanfarin ár, að koma á aðskilnaði ríkis og kirkju, og þótt jeg sje ekki mjög ákafur í þá breytingu, þá finst mjer rangt að gera það svo erfitt, ef það yrði ofan á hjá þjóðinni, að til þess þyrfti að breyta stjórnarskránni. Það kostar þingrof og kosningar og auk þess aukaþing, ef þing ætti ekki að halda nema annaðhvert ár, og það þykir mjer of mikil fyrirhöfn og kostnaður. Jeg er því á móti þessari breytingu.

Jeg er yfirleitt móti brtt. á þskj. 229. Jeg gæti að vísu gengið inn á eina, fækkun þingmanna, sem sje að sleppa landskjörnu þm. Jeg sje ekki mikið eftir þeim. Mjer finst það nokkuð mikil fyrirhöfn að setja af stað kosningar um alt land fyrir eina 3 menn. Til þess fann jeg vel seinast þegar kosið var. Hins vegar eru þeir engin samstæð heild, eins og þeir konungkjörnu voru áður, og ná því ekki því markmiði, sem ætlað var. En sökum þess, að við þessa brtt. á þskj. 229 loða önnur ákvæði, sem jeg er alveg mótfallinn, eins og t. d. að þingið sje ein málstofa, og 4 umræður, þá mun jeg greiða atkv. móti brtt. í heild sinni. Enda gætu þessar breytingar orðið öðrum nauðsynlegri breytingum á stjórnarskránni að falli, ef þessar kæmust inn, og að því vil jeg ekki stuðla.

Brtt. á þskj. 251 miðar að því að fella alt burt úr stjórnarskrárfrv. nema ákvæðið um þing annaðhvert ár, og get jeg ekki greitt henni atkv. mitt.

Skal jeg svo ekki lengja umr. meira að þessu sinni.