17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (2205)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal reyna að lengja ekki umræðurnar mikið frá því, sem komið er, enda eru þær, satt að segja, farnar að verða nokkuð þreytandi. En jeg vildi þó benda á, af því sumum hv. þm. virðist það ekki enn ljóst, að það, sem farið er fram á með frv., er aðeins það, að ekki verði lögfest í stjórnarskránni, að þing skuli haldið árlega, eða hvað margir ráðherrar skuli vera. Og ástæður mínar fyrir þessu eru þær, að jeg tel óráðlegt og í alla staði óheppilegt, að stjórnarskrárbreytingar skuli þurfa við í hvert sinn, sem þessu þarf að breyta. Og þó menn annars telji ekki viturlegt að strjála þingin eða fækka ráðherrum, ættu þó allir að geta orðið sammála um það, að nema ákvæðið burt út stjórnarskránni, þar sem nú stendur svo á, að það þarf ekki að hafa neinar nýjar kosningar í för með sjer. Á næsta þingi má svo ókveða með lögum, hvernig þessu skuli haga framvegis, hvort einn eða fleiri ráðherrar skuli vera eða strjála skuli þingin. Um annað en þetta er ekki að ræða. Jeg hins vegar dreg enga dul á það, að okkur nægi að hafa einn ráðherra og þing annaðhvert ár, og tel mig hafa fært talsverð rök fyrir því í framsöguræðu minni.

Þá vil jeg í fám orðum snúa mjer að nokkrum ummælum sumra háttv. þm., sem hafa gefið mjer ástæðu til andmæla. Ekki finst mjer, að það geti verið þungt á metunum í þessu sambandi, að erfitt sje að halda uppi stjórnarstörfum, þegar einn ráðherra sje, er hann verður að fara utan. En hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) vildi gera mikið úr þessu. En þetta kom oft fyrir áður, og olli ekki vandræðum. Það er líka svo komið, að hægt er daglega að setja sig í samband við ráðherrann og leita álits hans, bæði er hann er kominn til útlanda og eins á leiðinni. Hefir það ekki verið sparað, jafnvel þó ráðherrarnir hafi verið 3, að sendast á leyniskeytum. Mjer kemur þó kynlegast fyrir sjónir, að hæstv. forsrh. skuli telja þetta ógerning, þar sem hann þó hefir verið einn ráðherra, án þess að vitað sje, að stjórnarstörfin hafi farið í ólestri meðan hann var utan. Þá er því enn haldið fram, að jeg hafi gert lítið úr sparnaðinum með þessu frv. En jeg hefi enn ekki látið í ljós neina skoðun um það, hvort sparnaðurinn yrði lítill eða mikill. Hitt hefir mjer talist til, að hann mundi nema um 10 þús. kr. á ári, og getur þá hver og einn dæmt um það út frá eigin brjósti, hvort sú upphæð eigi það skilið, að tillit sje tekið til hennar eða ekki.

Þá er ein mótbáran gegn frv. mínu sú, að ýmsir nýir málaflokkar hafi komið til sögunnar á síðari árum og starf ráðherranna þar af leiðandi vaxið mikið, í þessu sambandi var aðallega minst á utanríkismálin og vatnamálin. Eitthvað kann að vera satt í því, að utanríkismálin hafi aukist við það, að við 26 fengum fullveldið, en tæplega þó eins mikið og gert hefir verið orð á; að minsta kosti voru þau til áður, og stjórnin mun oftast hafa verið spurð um álit sitt og verið að einhverju leyti með í ráðum, þegar um samninga var að ræða, sem Ísland snertu. Og hvað vatnamálin snertir, þá er mjer ókunnugt um það, að stjórnin þurfi að leggja mikið á sig þeirra vegna, og veit jeg ekki til. að hún hafi gert annað í þeim en að leggja fyrir þingið, ár frá ári, frv. til vatnalaga, lítið breytt, og er það núna í 5. skiftið, sem það hefir verið gert. Og um landsverslunina er það að segja, að jeg veit ekki betur en forstjóri hennar hafi allan veg og vanda af henni og stjórnin leggi þar fátt til málanna. — Líkt er því varið um strandferðirnar. Það er heldur ekki ný saga. Þær kunna að hafa aukist eitthvað hin síðari árin, en tæpast svo, að nokkru verulegu nemi.

Frá „teoretisku“ sjónarmiði er það auðvitað rjett, að lagaundirbúningurinn verður betri, ef þrír ráðherrar eru, heldur en aðeins einn. En því þá ekki eins að hafa ráðherrana tíu? Og í rauninni er engin trygging fengin fyrir betri lagasmíð, þó þrír ráðherrar sjeu, heldur en ef einn er, sem hefir til aðstoðar menn, sem þekkingu hafa á þeim málum, sem fyrir liggja. Hitt er viðurkent, að einn ráðherra hefir annríkt meðan á þingi stendur, en væri það óhugsandi, að starfsmaður úr stjórnarráðinu gæti mætt fyrir hann í þinginu og gefið upplýsingar og svarað væntanlegum fyrirspurnum?

Þá sagði hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að ef einn sýslumaður gæti ekki annað tveim sýslum, þá væru enn minni líkindi til þess, að einn ráðherra gæti staðið straum af öllu því, sem væri verksvið stjórnarinnar. En því vil jeg svara svo, að í sjálfu sjer tel jeg vafalaust, að 1 sýslumaður mundi vel geta annað starfinu sjálfu í tveim sýslum, ef það væru ekki samgönguvandræðin og aðrir örðugleikar slíkir, sem hömluðu því. Deilan í því falli er þá sú, hvort sparnaðurinn við það mundi vega á móti þeim óþægindum, er menn hefðu af því. Og jeg þykist geta sýnt fram á það með skýrum rökum, að sparnaðurinn við slíka breytingu yrði harla lítill og alls ekki sambærilegur við þau óþægindi, sem af því fyrirkomulagi mundi leiða. Má vel vera, að jeg fái tækifæri til að fara frekar út í það síðar, ef málið kemur aftur fyrir háttv. deild.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hjelt það, að af því að flokksbrotin væru nú 3, mundi vera enn þá erfiðara en áður að koma sjer saman um einn ráðherra, og nefndi til dæmis árin 1909 og 1913. En jeg man ekki betur en að þá hafi einmitt verið aðeins um tvo flokka að ræða og annar þeirra ákveðinn meiri hluta flokkur, að minsta kosti í annað skiftið, svo að þessi ár sanna ekkert. Það sýnir ekkert nema það, að altaf getur orðið sundrung út af þessu efni. Hins vegar hefir aldrei farið svo, að ekki hafi verið unt að koma upp einhverri stjórn.

Jeg er annars búinn að gleyma flestu því, sem jeg ætlaði að svara, frá því að málið var síðast rætt hjer, og skal því sleppa því. Þó minnir mig, að hv. þm. Dala. (BJ) hafi verið að tala um kostnaðinn við þessa stjórnarskrárbreytingu og reiknast hann eitthvað um 2 milj., þar sem hann gerði ráð fyrir því, að 5 sinnum yrði kosið og fjeð stæði á vöxtum í 15 ár. En þegar svona langt þarf að seilast eftir röksemdum móti breytingunum, munu þær, eins og jeg vissi reyndar, ekki liggja alveg á lausu. Sami hv. þm. (BJ) sagði einnig, að þessar tíðu stjórnarskrárbreytingar væru óhæfar, og ekki væri t. d. altaf verið að krassa í magna charta libertatis. En þar er nú ólíku saman að jafna. Þar er ekki verið að ákveða neitt um ráðherrafjölda og þingafjölda. Hæstv. forsrh. (SE) og hv. þm. Str. (MP) voru mjög reiðir yfir því, hver í sínu lagi, að jeg hefði kallað þá samflokksmenn — og þeir um það. Þessi síðastnefndi hv. þm. (MP) var líka eitthvað að tala um það, að jeg mundi vera að fara „yfir til Tímans“. Hann um það líka, hvað hann segir um það, jeg þarf ekki að svara því, en kunnugir munu þó vita, að hann sjálfur sje alt eins nærri því heygarðshorni og jeg.

Jeg skal svo ljúka máli mínu á því að segja hæstv. forsrh. (SE) það, að þrátt fyrir öll orð hans og spádóma er jeg ekki minstu vitund hræddur við það, að hleypa þessum breytingum mínum út til kjósendanna, og það alveg eins, þó þessi heilaga þrenning, hæstv. forsrh. (SE), hv. þm. Dala. (BJ) og hv. þm. Str. (MP) hafi talað og tali á móti þeim. Jeg er viss um það, að ef breytingarnar yrðu samþyktar nú, yrðu þær einnig samþyktar á næsta þingi.