17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Pjetursson:

Mjer þykir leiðinlegt, að jeg sje ekki hjer inni háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), sem aðallega gerði það að verkum, að jeg þarf að taka til máls. Því hann var eiginlega sá eini, sem dálítið reyndi að andmæla till. mínum. Jeg ætla því að gera dálitla athugasemd við ræðu háttv. þm. S.-Þ. (IngB), þar sem hann talaði um, að ekki hefði verið nægur tími til að athuga till. En þar sem deildin hafði svo mikið við málið að setja það í sjerstaka nefnd, var það auðvitað til þess, að það yrði betur athugað heldur en önnur mál, sem látin eru til fastanefnda. Hv. deild hafði því með nefndarkosningunni sjerstaklega fyrirskipað nákvæma athugun. Þessi ástæða er því ekki frambærileg.

Þá kem jeg að háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), og kemst jeg ekki hjá því að svara honum nokkru. Hann byrjaði á því að greina í sundur atriði brtt. minnar; taldi hann sum þeirra stefnumál, en önnur aðeins skipulagsatriði.

Hann taldi það stefnumál að láta þá, sem komist hafa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, fá kosningarrjett, og einnig það að hafa einskift þing, en afnám landskjörinna þingmanna væri aftur á móti skipulagsatriði.

En þessi skilgreining hans er ekki rjett. Afnám landskjörinna þingmanna er stefnumál. Það kemur til af því, að þessir menn eru ekki að öllu leyti kosnir af þeim sömu mönnum, sem þjóðkjörnu þingmennirnir eru kosnir af, —aldurstakmarkið er annað. Hins vegar er það skipulagsatriði, hvort þingið er óskift eða tvískift, einungis ef þeir þingmenn, sem þar sitja, eru kosnir af sömu kjósendum. Sú skifting áhrærir aðeins vinnubrögð þingsins. Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) skildi þetta rjett. Hann gat þess í ræðu sinni, að mjög hefðu verið skiftar skoðanir um það hjá nefndinni, hvernig þingmenn skyldu kosnir, og að þetta fyrirkomulag, sem orðið hefði ofan á, væri bræðingur. Í nefndinni mættust sem sje tvær stefnur. Önnur var að hafa aðra deildina skipaða eingöngu þingmönnum, sem kosnir væru sjerstaklega, á líkan hátt og landskjörnir þm. nú, en hin, að þingmenn allir væru kosnir af sömu kjósendum og með sama fyrirkomulagi. Og úr þessum andstæðum skapaðist svo það viðrini, sem deildaskipunin nú er. Mjer hefir nú heyrst oft og einatt á hv. þm., að þeim fyndist, að ekki veitt af, að vinnubrögð þingsins bötnuðu eitthvað. En auðsætt er það, að mikið mundi það flýta fyrir störfum þingsins, að það væri óskift. Nú er það svo, að Ed. hefir lítið að starfa fram eftir öllu þingi. Þeir kraftar, sem þar eru, liggja ónotaðir. Hv. þm. hafa líka ósjálfrátt fundið þetta og hneigst að því fyrirkomulagi, sem hjer er farið fram á. Á það bendir skipun samvinnunefndanna, sem hafa verið skipaðar, þegar stórmál hafa verið á ferðinni, til þess að flýta þeim og undirbúa þau betur. Hefir og reynst svo, að málin hafa orðið fljótar afgreidd, þegar svo hefir verið að farið.

Um það, hvort telja skuli það stefnumál, að þeir, sem þegið hafa af sveit, skuli hafa kosningarrjett eða ekki, má deila. Má vera, að rjett sje að kalla það svo, en vist er þó, að margar eru skoðanirnar um það, hve langt skuli gengið hjer. Stefnurnar eru því hjer nokkuð margar, eins og löggjöf undanfarinna ára ber ljósastan vott um.

Jeg játa, að það er rjett, að sumir hafa orðið þurfandi sveitarstyrks vegna ónytjungsháttar eða annara sjálfskaparvita, en jeg hygg, að fáir hv. þm. sjeu þeirrar skoðunar, að rjett sje að refsa 99 rjettlátum einungis til þess að geta hegnt þessum eina rangláta. Jeg að minsta kosti kýs heldur, að hann sleppi.

Þá hefi jeg mótmælt því í ræðu hv. þm. (JÞ), sem hafði við nokkur rök að styðjast. En heldur sýndist það bera vott um, að hv. þm. hefði ekki of mikið af rökunum, er hann greip til þess að vara menn við að samþykkja till. mínar sökum þess, að nú væri jeg í leiðtogi með þeim mönnum, er kollvarpa vildu núverandi þjóðfjelagsskipulagi. Það má vel vera, að þessir menn fylgi brtt, mínum. En það er ekkert athugavert. Hafa enda fjöldamargar brtt. þessara manna verið teknar inn í löggjöf annara þjóða og gefist vel. það mun því reynast harla áhrifalítið, þótt hv. þm. hrópi: „Varið ykkur að fylgja till. hans, jafnaðarmennirnir fylgja honum!“ Hjer er gerð tilraun til þess að hræða hv. þm. eins og óvita börn. Mun og hv. þm. kunnugt, að þessari till. mínar eru ekki nýjar hjer, og að áður stóðu að þeim menn, sem voru engir stórbyltingaforkólfar. Mun það og sönnu næst, að brtt. mínar mundu ekki valda neinum stórbyltingum í íslensku þjóðskipulagi, þótt samþyktar yrðu.

Þá mátti skilja það á hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að hv. 2. þm. Reykv. (JB) mundi vera eini fylgismaður minn í þessu máli. En jeg get sagt þessum hv. þm. (JÞ) það, að hann rennir ekki grun í, hve margir það eru, bæði utan þings og innan, og þar á meðal eru hans eigin flokksmenn, sem aðhyllast brtt. mínar og hafa samúð með þeim, hvernig svo sem um þær kann að fara að þessu sinni við atkvgr.

Þá vildi hv. þm. láta skiljast, að jeg hefði auglýst eftir öðrum brtt. á stjórnarskránni, sökum þess, að jeg mundi hafa fundið, hve vanhugsaðar till. mínar voru. Jeg gat þess aðeins, að verið gæti, að aðrar till. kæmu fram viðvíkjandi þessu. Hugsa jeg, að hv. þm. alment líti ekki svo stórt á sig, að þeir geti ekki ímyndað sjer, að eitthvað geti komið betra en þeir sjálfir hafa fram að færa. Jeg að minsta kosti hefi aldrei haft svo stóra hugmynd um sjálfan mig, að jeg teldi mig neina „alvisku“ í þinginu.

En þess er jeg fullviss, að innan skamms munu koma fram háværar raddir um að taka upp þetta skipulag, sem í mínum till. felst. Mun það þykja meiri sparnaður og hagkvæmara en að halda þing aðeins annaðhvert ár, þótt einhver sparnaður kynni að því að verða. Er þetta fyrirkomulag, að hafa þingið tvískift, orðið úrelt, og er full ástæða til að athuga, hvernig reynist að hafa óskift þing, eins og þau nýju ríki, er risið hafa upp eftir stríðið, hafa. Þau hafa flest annaðhvort óskift þing, eða þá að önnur deildin hefir aðeins frestandi neitunarvald (vetó) um nokkurn tíma.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) vildi finna brtt. mínum það til foráttu, að við þær myndi þjóðin skiftast í flokka og verða hörð barátta með og móti. Jeg held, að ef svo reyndist, þá mættu þær teljast góður gestur. Það væri heilnæmt að fá einu sinni hreinar línur, og málið væri vel til þess fallið, að menn skiftust í flokka um það. Væri það miklu betra en að búa við þann bræðing, sem nú er í þessu máli. Hv. frsm. (MG) sagði, að í brtt. sinni fælist ekki annað en það, að það skyldi ekki verða lögfest í stjskr., að þing skyldi haldið á hverju ári. En þá er það eðlilegast, að hv. þm. sameinist um mína till., því að hún gerir þegar á næsta þingi mögulegt að ákveða þing aðeins annaðhvert ár.

Hann sagði, að jeg hefði orðið reiður af því, að hann bendlaði mig við hæstv. forsrh. í þessu máli. Það var ekki rjett. En hafi jeg reiðst, var það sökum þess, að hann brigslaði mjer um það, að mjer hefði verið sigað fram til að koma með brtt. mínar.

Um það, að jeg muni í nánu sambandi við Tímaflokkinn ásamt fleirum, sem nú mun haft í hámælum innan klíku þeirrar, sem hann reynir að halda saman af alveg sjerstökum orsökum, skal jeg ekkert segja. Nægir að brosa að því. Heldur ekki skal jeg hjer á þessum stað fara út í samanburð á því, hvor okkar hafi verið meira á vegum þess flokks. Til þess þyrfti jeg að rekja tildrögin til næstsíðustu stjórnarskifta, þegar hv. þm. (MG) varð ráðherra fyrir aðstoð Framsóknarmanna, eða sumra þeirra. Um jafnóljúffengt efni og það stjórnarbaks er ekki vert að ræða að sinni. Mun það sannast, að þótt hv. þm. felli nú brtt. mínar, móti röddum samvisku sinnar, þá mun síðar svo fara, að á þær mun fallist, og mun þá hægt að segja með jafnmiklum rjetti, að þjóðin eigi upptökin að þeim, eins og nú er sagt um brtt. hv. 1. þm. Skagf. (MG).