17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Jónsson:

Hv. 2. þm. N.-M. (BH) fór mörgum fögrum orðum um það í ræðu sinni, hversu nauðsynlegt það væri að fækka þingunum. Vel má vera, að hann hafi það álit á sjálfum sjer, að hann eigi lítið erindi á þing, en jeg álít eigi hið sama um mig.

Jeg hjó eftir því í ræðu þessa hv. þm., að hann taldi till. minni hl. nefndarinnar margar merkar og rjettar, en þó kvaðst hv. þm. eigi geta fylgt þeim. En hverju getur þá þessi hv. þm. fylgt, ef hann treystir sjer eigi til að fylgja þeim málum, sem hann álítur bæði merk og rjett? Mjer er spurn, hvort þeir hv. þm. munu vera margir, sem þannig vilja láta hið háa Alþingi ganga aftur á bak. Þar er sagt um börn, þegar þau ganga aftur á bak, að þau sjeu að ganga hana móður sína ofan í jörðina. Og það er vissulega satt, að með þessari till. er verið að reyna að ganga Alþingi Íslendinga ofan í jörðina, því að með till. er sannarlega fært til verri vegar það, sem nú er. (MG: Þetta eru kerlingabækur). Verið getur, að það þyki meiri karlmenska að vilja eigi hafa þing nema annaðhvert ár, en ef við, sem erum því mótfallnir, erum kerlingar, þá verður þeim karldómi eigi alllítið hætt.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) kvaðst eigi vilja neinar stórfeldar breytingar á stjórnarskránni, en vilja þó breytingar. Hví þá það? Er það til þess að spara þingtímann nú og fyrirhöfn, að verið er að koma fram með smákáksbreytingar á stjórnarskránni?

Háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) kvaðst eigi leggja mikið upp úr þessu nýja stjórnskipulagi voru, sagði, að sjer hefði eigi reynst vel þessi 3 ráðherra stjórn, og bygði hann þennan dóm sinn á 6 ára reynslu fyrirkomulagsins. En hvað er 6 ára reynsla í þessu efni? Hvað er hægt að byggja á henni? Ekkert. Hv. þm. talaði um það, að stjórnirnar hefðu verið leiksoppur Í höndum þingmanna. Jeg kannast alls eigi við þetta. Það hefir einmitt reynst ómögulegt að fella þessar stjórnir árum saman, enda þótt full ástæða hafi verið til. Svo fastar hafa þær verið í sessi. Bendir slíkt eigi til þess, að stjórnirnar hafi verið leiksoppur þingmanna. En þó að svo hefði verið, þá liggur meinsemdin eigi í stjórnskipulaginu, heldur í skapferli þingmanna.

Hv. frsm. (MG) talaði um það, að útreikningur minn á kostnaði þeim, sem af þessari breytingu hans mundi leiða, væri rangur. En það er eigi rjett hjá hv. þm. Jeg reiknaði kostnaðinn með vöxtum og vaxtavöxtum og miðaði viðtímann frá því að stjórnarskráin var samþykt, 1919, og til ársins 1940, er samningurinn við Dani er útrunninn, og 6. og 7. gr. verða teknar út. Er því rjett að reikna, að fjeð standi á vöxtum þennan tíma, og sjá menn á þeim útreikningi, hversu barnalegt er að vera að tala um kostnaðinn, sem sparist við það, að þing komi eigi saman nema annaðhvert ár. Enn fremur má gera ráð fyrir því, að altaf þurfi að halda aukaþing, þó að fjárlagaþing verði ekki háð nema annaðhvert ár. Verður það til þess, að spádómar fjárlaganna verða algerlega gerðir í blindni. Jeg heyri, að hv. form. fjvn. segir, að jafnauðvelt sje að spá fyrir 2 ár sem 1 ár. En jeg býst við, að alt starf hans í fjvn. mæli á móti honum, eða finst honum eigi fullerfitt að spá fyrir 1 ár, þó að eigi sje verið að færa það upp í 2 ár?

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) mintist á það, sem jeg drap á, að Englendingar væru eigi altaf að breyta stjórnarskrá sinni. Þeirra magna charta er látið í friði í lengstu lög. Sagði hv. þm., að það kæmi af því, að stjórnarskrá Englendinga væri eigi eins nákvæm og okkar. Má í þessu sambandi bera saman hugarfar þjóðanna. Önnur er sífelt að breyta stjórnarskrá sinni, en hin lætur skynsamlega reynslu bæta við sína, án breytinga.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) sagði það, að vísu í svari til annars hv. þm. en mín, að það væru aðallega jafnaðarmenn, sem vildu hafa þing einskift. Jeg skal geta þess, að jeg skil eigi orðið einskift, nema ef vera kynni, að hann ætti við einskeftu, — að axarskaftið væri ekki nema eitt, og álít jeg það mjög til bóta að fækka axarsköftunum hjer á þingi. Annars þykir mjer trúlegast, að hv. þm. hafi átt við óskift þing. Jeg lít svo á, að rjett sje, þar sem um almennan kosningarrjett er að ræða, að hafa óskift þing, og er jeg þó enginn jafnaðarmaður, þ. e. a. s. að skoðunum eða flokki. Hins vegar álít jeg, að fátækum mönnum og gjaldþrota sje gert rangt til með stjórnarskránni, með því að svifta þá almennum mannrjettindum, og ef nokkru þarf að breyta í stjórnarskránni, þá er það því. Er það næsta undarlegt, að menn vilja óðir breyta smáatriðum, eins og því, hvort þingmenn komi saman annaðhvert ár eða eigi, en ganga alveg fram hjá höfuðatriðunum, eins og þessu mannrjettindaráni. Því að svifta menn mannrjettindum sakir fátæktar eða óhappa, er alt of harðdrægt og ranglátt, og það furðar mig, að hjer skuli sitja þingmenn, sem eigi vilja sjá þetta ranglæti. Það, að maður verður gjaldþrota, orsakast eigi sjaldan af óhöppum eða slysi, og það með nýtustu og bestu mönnum. Menn þessir hafa ef til vill goldið meira til ahnenningsþarfa en flestir aðrir, þeir hafa ef til vill sýnt miklu meira vit og atorku en aðrir, en ef þeir verða fyrir óhöppum eða fyrirtæki þeirra mishepnast, þá missa þeir almenn mannrjettindi. Og ef maður, sem ef til vill er mesti dugnaðar- og gáfumaður, á 10 börn — 10 mannsefni fyrir þjóðina — og getur eigi alið önn fyrir þeim öllum, sakir þess, að honum er það ofvaxið, hvað er sagt við hann? Jú, — þú færð ekki að njóta almennra mannrjettinda; þú fœrð ekki að kjósa á þing, fíflið þitt! Hvers á maður þessi að gjalda Jeg veit það, að höfuðmótbáran gegn því að breyta þessu er sú, að margir sjeu á sveitinni fyrir ódugnaðar sakir. Það er mikið rjett. En er það rjett að setja alla þessa menn undir sama númerið, aðeins til þess að geta náð sjer niðri á ónytjungunum? Er það því álit mitt, að hv. þm. Str. (MP) hafi borgið sóma Alþingis, með því að koma fram með þessar till. sínar. Ætti aldrei að koma fram breyting á stjórnarskránni án þess, að þessar till. komi fram um leið. Hafa þessar kerlingabækur, að svifta menn almennum mannrjettindum sakir fátæktar, haldist öld eftir öld, vegna þess að fátæklingarnir hafa mátt sín minna í þjóðfjelögunum, en eigi af því, að það sje rjettlátt.

Jeg lít svo á, að það skifti eigi svo miklu máli, hvort þing er óskift eða eigi, en jeg efast aftur á móti um, að það sje rjett að fækka tölu þingmanna. Hins vegar tel jeg rjett, að afnema hina svo nefndu alþjóðkjörnu þingmenn. Mun það hafa verið svo, að þegar rofa fór fyrir frjálsræði hjer á landi, þá hafi menn viljað losna við hina konungkjörnu þingmenn, sem voru á þingi sem nokkurskonar forngripir frá hinu svarta myrkri miðaldanna, en að það hafi eigi verið auðgert að koma því fram á Alþingi, nema með því að setja í staðinn svipaða grýlu, hina alþjóðkjörnu. En hvernig eru þessir hv. alþjóðkjörnu komnir á þing? Það er þannig, að nokkrir menn í Reykjavík, sem teljast til einhverra flokka, koma sjer saman um að bjóða fram þennan og þennan mann. En kjósendur hafa ekkert atkvæði um það, hverjir settir eru á þessa landskjörslista. Verða kjósendur því að láta sjer nægja að velja á milli þeirra manna, sem þessir fáu menn í Reykjavík hafa boðið fram. Í rauninni væri rjettast, að kjósendur fengi að velja á milli allra í landinu. Væri þá gaman að sjá, hverjir yrðu kosnir. Því hefir verið haldið fram, að þessir alþjóðkjörnu þingmenn ættu að vera akkeri eða stjórar, sem Alþingi lægi við. Kemur hjer að því sama sem oft vill verða, að þm. lita svo lítið á sig, að þeir áliti að þeir þurfi einhverjar hömlur á sig. En því fer svo fjarri að þessir alþjóðkjörnu þm. sjeu nokkrir stjórar í þessu efni. Sumir þessara manna eru hreinustu byltingamenn, en einstaka íhaldsmaður. En venjulega eru þessir menn þeir, sem lengst fara í flestum efnum. En það er eigi fyrir afturhaldsmenn að bjóða sig fram til þingsetu. Það eru ekki stjórar, sem Alþingi vantar, en það vantar vind í seglin og stýri, sem óhætt er að treysta á, þó að særinn ýfist. Auk þess er það dýr skemtun að stofna til kosninga 3 manna um land alt á 4 ára fresti. Jeg mæli því fastlega með brtt. um að leggja niður þessa alþjóðkjörnu þingmenn, en jeg er hins vegar á móti fækkun þingmanna. En jeg vildi helst, að kjördæmunum væri fjölgað og þannig bætt úr ójöfnuði þeim, sem nú á sjer stað. Má menn eigi undra það, þó að hjer sjeu fleiri þingmenn að tiltölu en hjá öðrum þjóðum. Kemur það af því, að landið er viðáttumikið en strjálbygt og það er því ofætlun fámennu liði manna, að þekkja allar þarfir landsins og landshluta.

Enda þótt það hafi verið sagt í fornöld, að því fleiri heimskra manna ráð sem saman komi, því ver muni duga, þá mega þingmenn eigi líta svo á, sem þetta eigi hjer við, heldur hið gagnstæða, að því fleiri skynsamra manna ráð, sem saman komi, því betur muni duga. Jeg hefi heyrt því haldið fram, að eigi sje vert að vera að krukka í stjórnarskrána að sinni, meira en þessar 2 brtt. gera. En hvaða brjef eru fyrir því, að næsta Alþingi taki þessar breytingar upp. Nú er einmitt best tækifæri til að breyta því, sem breyta þarf í stjórnarskránni og þar á meðal því, sem mest er um vert, sem sje mannrjettindaatriðinu. Ef það er gert, sem hv. þm. Str. (MP) vill, að gera nú gagngerðar breytingar á stjskr., þá mundi eigi þurfa að rjúfa þing nema sjaldan. En ef verið er með þessar sífeldu smábreytingar, þá getur farið svo, að rjúfa þurfi þing 5–6 sinnum, áður en von yrði á endalokum, og væri það eigi lítið fje, sem það kostaði, að óreiknuðum öllum bifreiðakostnaði hjer í bæ og slysum, auk stórtjóns fyrir 27 mörg heimili, að menn þurfa að fara langar leiðir á kjörstaði, þar sem kjördagurinn er svo illa valinn nú.

Annars skal jeg geta þess, að þáð er rangt hjá hv. 1. þm. Skagf. (MG), að jeg hafi, þegar jeg greip fram í hjá honum, sagt að jeg gæti sætt mig við þing annaðhvert ár, ef það sæti í 8 mánuði. Jeg sagði, að það mundi eigi veita af því, að það sæti í 8 mánuði, eftir vinnubrögðum þeim, sem nú eru, ef það ætti að afkasta nokkru. En þar sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir nú talað sig dauðan, þá skal jeg eigi fara með ófrið á hendur honum. En jeg verð að þakka honum þann heiður, sem hann hefir sýnt mjer með því að lyfta mjer hærra en nokkur annar hefir áður gert. Reyndar hefir hann áður margt gott til mín gert, og verið fús á að varðveita minn hag, en aldrei hefir hann komið mjer í heilaga þrenningu fyr. Mjer er nú að vísu ekki kunnugt um, hvert vald Skagfirðingar hafa gefið honum til þess að stofna þessa nýju þrenningu, og ekki veit jeg hverju hæstv. kirkjumálaráðherra svarar þeirri stofnsetningu frá kristindómsins sjónarmiði. En það munu víst eiga að vera smyrsl á sár ráðherrans, að hann á sjálfur sæti í þessari nýju þrenningu. Annars er það spá mín, að þessi hv. þm. (MG) ræki sig á það, að þjóðin í heild er ekki lítið fylgjandi þessari nýju þrenningu, reki sig á, að vilji þjóðarinnar í máli þessu mun vera í fullu samræmi við vilja þessara þriggja manna, því með till. um að hafa þing aðeins annaðhvert ár, er eigi aðeins stigið stórt spor aftur á bak, heldur er hjer einnig um hinn argasta ósparnað að ræða, stórtjón fyrir þjóðina, sem búast hefði mátt við, að „sparnaðarmenn“ þingsins hefðu síst viljað baka henni Og jeg leyfi mjer að spyrja: Hver hefir beðið um þessa breytingu? Hver hefir beðið um nokkra stjórnarskrárbreytingu? Ekki eru það kjósendur. Ekki þjóðin. Þingmenn hafa því fundið upp á þessu sjálfir, og með því orðið valdir að vikutíma þingtöf a. m. k. það er varla gerandi ráð fyrir, að svo miklir sparnaðarmenn hafi borið fram till. um stjórnarskrárbreytingu í þeim tilgangi einum að tefja þingið, enda var hægurinn hjá, að gera máltöf í hverju öðru máli. Jeg fæ því ekki skilið, hvað því veldur, að frv. þetta er fram komið, og því síður, að það hafi fylgi, nema hv. aðstandendur þess sjeu svo harðir í dómum um sjálfa sig, að þeir áliti að þeir vinni þjóðinni því meira tjón, sem þeir komi oftar saman á Alþingi. Þó að jeg hafi oft hörð orð um missmíðar Alþingis, þá fer fjarri því, að jeg geti felt mig við svo strangan dóm, og myndi jeg taka óstint upp fyrir hverjum þeim, sem kvæði hann upp yfir mjer a. m. k. Mjer dylst ekki að þingmenn vinna mikið gagn, er þeir koma saman til þess að hugsa og ræða vandamál þjóðarinnar, og því meira, sem þeir koma oftar. Jeg þykist vita, að enginn hv. þm. vilji kveða þennan dóm upp yfir samþingmönnum sínum, en hver, sem fylgir þessari till., kveður hann upp yfir sjálfum sjer. Það er eina skýringin.

En þá skilst mjer annað ráð heppilegra til þess að losa landið við það tjón, sem þeir álíta að þeir vinni með setu sinni á Alþingi. Þeir skulu stíga á stokk og strengja þess heit að bjóða sig eigi oftar fram, og geta þeir með því friðað samvisku sína. Vænti jeg þess, að þeir taki upp þetta ráð og taki frv. aftur, nema þeir fallist á, að þeir sjeu hjer alþjóð til gagns og að því meira gagn sje að þeim, sem þeir sitji hjer lengur.

Jeg er þess viss, að engin þjóð, þar sem fjárveltan er tiltölulega jafnmikil og hjer á landi, síðustu ár um 9 milj., geti fallist á slíka till., sem hjer um ræðir, að hafa þing aðeins annaðhvert ár. Það nær engri átt, að um tveggja ára bil fari 1–3 menn, hversu góðir sem þeir annars væru, með svo mikla fjármuni fyrir svo fámenna þjóð, upp á eigin spýtur og að talsverðu leyti eftir eigin geðþótta. Því margar þarfir koma ófyrirsjeð, sem ómögulegt er að gera ráð fyrir með löngum fyrirvara, en góð stjórn hlyti að taka tilliti til, án þess að hafa beina heimild til þess. Jeg trúi því síst, að Íslendingar vilji láta fara með fjármál sín á þann hátt. Þeir mega muna, að með svipuðu móti var fjármálum þeirra stjórnað ekki alls fyrir löngu. Og þeir vita, að hinar stórstigu framfarir landsins á síðustu áratugum, einhverjar hinar stórfeldustu, sem sögur fara af, stafa fyrst og fremst af því, að þeir tóku fjármál sín að sjer sjálfir og hafa látið Alþingi mestu um þau ráða.

Breytingar síðustu ára voru svo snöggar og ófyrirsjáanlegar, að bestu menn þjóðarinnar sáu, að nauðsyn bar til, að fjárlagaþing væri háð á hverju ári, til þess að þingmenn gætu haft sem glegst yfirlit yfir fjárhag landsins og meðferð stjórnarinnar á fje ríkissjóðs. Þetta þótti þá dýrmæt trygging og er enn, og jeg er viss um, að hv. kjósendur trúa því ekki, fyrr en þeir sjá þingtíðindin, að nokkrir sjeu þeir þingmenn, er vilji svifta þá þessari tryggingu. Og ekki er vel samrýmanlegt, að þeir hv. þm., sem eru svo glöggir fyrir landsins hönd, þegar verið er að skera niður hvern fárra króna styrk til farlama manna og fátækra, láti sig henda þá mestu ógætni í fjármálum, sem hugsast getur, en það væri samþykt þessarar till. Jeg hefi nú sagt nokkurn hluta þess, sem jeg vildi sagt hafa um þetta mál, og þó að margt mætti telja enn máli mínu til stuðnings, þá yrði þó fleira ótalið. En jeg vil gefa öðrum hv. þm. tækifæri til að tala og læt því staðar numið.