23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (2211)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg flyt hjer brtt. á þskj. 417, og vil jeg leyfa mjer að fara fáum orðum um þær. Jeg skal taka það fram, sem almenna athugasemd, að þær eru komnar fram til þess eins, að breytingarnar á stjórnarskránni, eins og þær hafa verið samþyktar á þskj. 383, sjeu ekki athugaverðar að formi til.

Jeg tók það fram áður, að jeg hafði hugsað mjer, að ákveða mætti með lögum, hvernig fara skuli um stjórn landsins, ef ráðherra deyr, forfallast eða fer utan. Jeg hefi ekki komið með brtt. um þetta fyr, þar sem jeg gat ekki sjeð, hvort frv. mundi fá nóg fylgi. En atkvgr. við 2. umr. sýndi, að nokkrar líkur eru til, að frv. nái að ganga fram, og því ræðst jeg í að flytja þessa brtt. Því er ekki slegið föstu, hvort landritaraembættið skuli tekið upp, það er látið laust og óbundið, svo að næsta þing geti tekið ákvörðun um það.

2. brtt. er einungis til skýringar. Hún sýnir, að ákvæðið um að ákveða megi með lögum, að þing skuli háð árlega, skuli koma aftan við 18. gr. stjórnarskrárinnar. Það stendur ekki beinlínis í 5. gr. frv., en sú var tilætlunin, og er brtt. til þess að taka af allan vafa um þetta. Vona jeg að menn geti skoðað þessa brtt. samþykta án atkvgr., hvernig sem þeir líta annars á málið.

3. brtt. er um það, að forfallist þingmaður, sem kosinn er hlutbundinni kosningu, svo að hann getur ekki setið á einhverju þingi öllu, eða seinni hluta þess, megi varamaður koma í hans stað. Þetta ákvæði stendur í gildandi sjórnarskrá, en nær þar aðeins til landskjörinna þingmanna, en nú á það að ná til allra þeirra, sem kosnir eru hlutbundinni kosningu, svo sem þingmanna Reykjavíkur. Þetta er í samræmi við það, sem samþykt var hjer við síðustu umræðu, að varamaður taki sæti fyrir þingmann, sem svo er kosinn, ef hann deyr eða fer frá, en eftir þessari brtt. gildir það líka, ef þingmaður forfallast svo á miðju þingi, að hann getur ekki komið aftur á það þing. Þetta hefir komið fyrir áður um landskjörinn þingmann, þegar Hannes Hafstein fatlaðist frá þingsetu, og var allmikið um það deilt, hvort varamaður hans mætti taka sæti í hans stað.

4. og 5. brtt. eru við 10. gr. 5. brtt. er borin fram til þess að halda aldurstakmarki því, sem var áður um kosningarrjett til hlutbundinna kosninga um alt land. Þetta fjell niður vegna brtt., er samþykt var við 2. umr., og er það skiljanlegt, því að þar sem flm. þeirrar tillögu hugsaði sjer, að þingið væri ein málstofa, hafði hann ekki ástæðu til að taka upp ákvæði um kosningarrjett til landskosninga. 4. brtt. er líka nauðsynleg vegna brtt., er var samþykt við við síðustu umr.

Hv. þm. Str. (MP) kemur enn með brtt. á þskj 403, þar sem meðal annars er farið fram á, að landskjörnir þingmenn falli niður og umboð þeirra, sem nú sitja, falli í burt þegar lögin öðlast gildi. Vitanlega kemur ekki til mála að slík brtt. verði samþykt í hv. Ed. Þeir, sem nú eru landskjörnir, munu vafalaust vera því mótfallnir, en þeir eru nálega helmingur deildarmanna. Þeir munu líta svo á, að þeir sjeu kosnir til langs tíma, og að þeir svíkist undan skyldu sinni, ef þeir samþykkja að hverfa af þingi þegar í stað. Þetta yrði og til þess að safna kvenþjóðinni á móti stjórnarskrárbreytingunni. Konur mundu álíta, að þessi breyting væri komin fram til þess að bægja þessum eina kvenfulltrúa frá þingsetu. Jeg lít svo á, að þessar brtt. sjeu bornar fram í því skyni að efla mótspyrnu gegn frv., og verð jeg því að ráða eindregið frá því að samþykkja þær.

Meðal þeirra, sem vilja í raun og veru samþykkja breytingu á stjórnarskránni, er talsverður ágreiningur um, hvort fækka skuli ráðherrum. Jeg vil mælast til þess, að þeir, sem vilja stuðla að þingafækkun, en ekki að ráðherrafækkun, lofi frv. þessu að ganga til hv. Ed., ef þar væri unt að miðla málum. Hjer verður ekki borin fram tillaga um að ráðherrar skuli vera fleiri en einn. Það er á móti þingsköpum, því að hjer hafa verið feldar við 2. umr. brtt. um að fella niður fyrstu 4. gr. frv. En jeg vil lýsa yfir, að jeg er fús til samkomulags um þetta atriði, og mun stuðla að því eftir mætti, að þetta yrði lagfært í hv. Ed.

Jeg gleymdi að geta þess um brtt. hv. þm. Str. (MP), að til greina gæti komið að athuga þær frekar, ef þeir landskjörnir þingmenn, sem nú sitja, ættu að halda þingsæti lögákveðinn tíma, en síðan skyldu ekki kosnir aðrir í þeirra stað. En jeg er sannfærður um, að Alþingi samþykkir aldrei, að umboð þeirra skuli falla niður þegar í stað, og skoða jeg þessar brtt. því ekki öðruvísi en sem snöru fyrir frv.