23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Þorleifur Jónsson:

Eins og kunnugt er og háttv. frsm. (MG) gat um, ljet jeg uppi í nefndinni, að hvorki jeg nje háttv. þm.. S.-Þ. (IngB) gætum aðhylst aðrar breytingar á stjórnarskránni nú en að þingunum sje fækkað. Komum við fram með till. þess efnis, að öllum öðrum breytingum væri slept. En eins og háttv. deildarmenn vita, var hún feld með miklum atkvæðamun. Jeg skal að vísu játa, að jeg hefi greitt frv. atkv. til þessa, með þeirri von, að unt yrði að ná samkomulagi um ágreiningsefnin, nú við 3. umræðu.

En sú hefir orðið raunin á, að þetta hefir ekki tekist hjer í þessari háttv. deild, enda ekki hægt að bera fram breytingartillögur, sem búið er að fella. Nú finst mjer það svo stórt spor aftur á bak, að fækka bæði þingum og ráðherrum, að jeg sje mjer ekki fært að fylgja slíku frv. úr deildinni. Mjer hefir fundist svo, sem ekki muni hafa veitt af öllum ráðherrunum upp á siðkastið, er vandamálin hafa steðjað að þjóðinni hvert á fætur öðru, og tel jeg því varhugavert að flana svo að því að fækka þeim um 2/3 hluta. Ekki síst þegar um leið er ákveðið að fækka þingunum. Það er ekki einasta í verkahring hverrar landsstjórnar að standa fyrir öllum framkvæmdum ríkisins. Hún þarf líka að standa á verði sem helsti útvörður þjóðarinnar og skirra hana vandræðum eftir því sem hægt er. Og á því sviði hefir sannarlega verið nóg að vinna síðustu árin, og alt útlit er fyrir, að svo verði fyrst um sinn. Af þessum sökum treysti jeg mjer ekki til að samþ. þetta frv. eins og það er nú. Háttv. frsm. (MG) tók það fram, að rjett væri af deildarmönnum að láta það ganga til háttv. Ed., í von um að það, sem á þætti bresta, yrði lagfært þar. En hvaða vissu hefi jeg fyrir því, að þetta, sem jeg vil vera láta, nái fremur fram að ganga í þeirri deild? Vel mætti vera, að háttv. þm. þar sjeu sama sinnis og þorri manna hjer, að mista kosti treysti jeg engu í því efni. Mín afstaða er því sú, að þar sem málið hefir ekki fengið það snið, sem jeg felli mig við, þá tel jeg ekki sæmandi, þar sem um slíkt mál er að ræða, að greiða því atkv. út úr deildinni. Býst jeg og við að þessu sje eins varið um háttv. þm. S.-Þ. (IngB). Jeg vildi aðeins með þessum fáu orðum gera grein fyrir því, af hverju við nú greiðum atkv. gegn frv.