23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla að byrja með því, að svara með nokkrum orðum háttv. þm. Ak. (MK). Hann kvaðst mundu greiða atkvæði móti frv., og var það sem vænta mátti. Hann kvað það vera auðsætt af því, að breytingartillögur kæmu svo seint í málinu, að það hefði ekki verið nægilega undirbúið. Því svara jeg svo, að brtt. þær, sem nú hafa komið fram, eru mjög einfaldar og auk þess í samræmi við þá hugsun, sem lá bak við atkvgr. við 2. umr., að einni undantekinni. Það, sem vakir fyrir mjer, er að binda ekki sem stjórnarskrárákvæði, hvort þing skuli haldið á hverju ári eða annaðhvert ár, og ekki heldur tölu ráðherra. Veit jeg satt að segja ekki til, að þetta ákvæði, um tölu ráðherra, finnist í stjórnarskrá nokkur annars lands. Jeg get því mæta vel felt mig við, að þetta megi ákveða með einföldum lögum, því það liggur í augum uppi, að altaf geti komið fyrir að þörf verði á að breyta tölu ráðherranna, og er þá óviðfeldið að þurfa að raska stjórnarskránni til þess. Jeg hefi ráðgast um það við hæstv. forseta, hvort hægt myndi vegna þingskapa að koma að brtt. þessa efnis, og kvað hann nei við, af því að samskonar till. hafi verið feld hjer við síðustu umr. Það hefir því enga þýðingu að taka málið út af dagskrá í því skyni að koma því að.

Jeg skal taka það fram, að hafi hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) fundið millileið, þá mun jeg fyrir mitt leyti ekki standa í gegn því, ef líkur yrðu til samkomulags. En hvað sem öðru líður, vildi jeg mælast til þess, að frv. verði nú látið ganga til háttv. Ed. skal jeg þar á móti lofa þeim því, sem eru móti fækkun ráðherra, að jeg mun gera það sem í mínu valdi stendur til þess að koma samkomulagi á í hv. Ed. (ÞorstJ: Hver þorir að treysta slíku?) Háttv. þm. Ak. (MK) talaði um, að svo liti út sem margt yrði nú í stjórnarskránni, sem breyta mætti með einföldum lögum. Þetta er alls ekki undarlegt og hefir altaf verið, og jeg held því afdráttarlaust fram, að það sje rangt að hafa ráðherra og þingatölu fastákveðna í stjórnarskránni.

Gagnvart háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) skal jeg taka það fram, að ekki þarf stjórnarskrárbreytingu til að fjölga ráðherrum, heldur aðeins til að fækka þeim niður í einn. Hjer er því aðeins um það að ræða, hvort það ákvæði skuli áfram bundið á sama hátt.

Þá kvað háttv. þm. Str. (MP) það ekki útilokað, að aldurstakmarkið yrði hið sama við landskjör og við kjördæmakosningar. Jeg hefi litið svo á, að hv. d. mundi ekki ætlast til, að aldurstakmarkið væri hið sama við hvorutveggju þessar kosningar, en nú mun það koma fram við atkvgr., hver er vilji háttv. þingdeildarmanna. Þá var það fjarri mjer að halda því fram, að kvenfólkið myndi ekki geta komist að í kjördæmum, en hinu hjelt jeg fram, og held enn, að konum muni ef til vill þykja grunsamlegt, er farið verði að hlaupa til og afnema landskjörna þm., undir eins og fyrsta konan er komin á þing með þeim hætti.

Vil jeg svo enn að síðustu láta í ljós þá ósk mína, að málið verði látið ganga til háttv. Ed.