21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (2227)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Það gleður mig, að háttv. þm. Dala. (BJ) hefir snúist á móti þessu máli, vegna kostnaðarins, sem málinu sje samfara; en slíkt er ekki venja hans. Enda hygg jeg nú samt, að það hafi ekki verið kostnaðarhliðin, sem ráði andstöðu hans í þessu máli, heldur aðrar ástæður. Yfirleitt hrakti hann ekki neitt af þeim rökum, sem jeg færði í fyrri ræðu minni, sem hann raunar ekki virtist hafa heyrt, enda þóknast honum heldur ekki að hlusta á mig nú, því jeg sje hann ekki hjer í deildinni, og svarar hann þá aftur sennilega einhverju öðru en því, sem jeg sagði, og get jeg ekki að því gert.

Jeg geri ráð fyrir að minka gagnfræðaskólann á Akureyri þannig, að engin deildin verði tvískift, og þess vegna ætti breytingin að vera síður tilfinnanleg að því er kostnaðinn snertir. Jeg hefi aldrei sagt, að gagnfræðadeildirnar í Reykjavík og á Akureyri eigi að vera framhald af barnaskólunum, enda þótt jeg áliti, að lærdómsdeildin geti tekið við af gagnfræðadeildunum, gagnstætt því, sem háttv. þm. Dala. ætlast til. Það er rangt að telja gagnfræðaskólann á Akureyri aðeins fyrir Akureyringa; Akureyringar hafa ekki frekar gengið í hann en Eyfirðingar, Skagfirðingar, Húnvetningar, Þingeyingar eða Austfirðingar. Þar að auki hafa margir Vestfirðingar og Sunnlendingar sótt skólann.

Samkvæmt því, sem jeg tók fram áður í ræðu minni, er skoðun mín sú, að það eigi að herða á ákvæðum reglugerðar lærða skólans um inngöngu í deildina.

Háttv. þm. (BJ) gerði lítið úr því, hvað ódýrara er fyrir nemendur að stunda nám á Akureyri en í Reykjavík. Taldi hann, að nemendur hjer gætu haft með sjer mötuneyti, eins og á Akureyri, enda vakir það líklega fyrir honum að stofna heimavistarskóla hjer í Reykjavík, þar sem hann augsýnilega virðist aðeins vilja hlynna að skólum í Reykjavík, en hvergi annarsstaðar.

Hann taldi, að kostnaðarmismunurinn fyrir nemendur hjer og nyrðra væri aðeins fólginn í fargjaldi nemenda að norðan hingað til Reykjavíkur. Á því er auðsjeð, að hjer talar maður, sem ekki veit, hvað hann er að fara. Jeg sýndi glögglega kostnaðarmuninn við námsdvöl í þessum tveim umræddu bæjum. Eða telur hv. þm. (BJ) 1000 kr. kostnaðarmismun á ári einskis virði fyrir fátæka nemendur?

Háttv. þm. (BJ) sagði, að það mundi enginn blettur á jörðinni með 90 þús. Íbúa hafa meira en einn lærðan skóla, ef hann annars hefði nokkurn. Í sambandi við þessa umsögn hans vil jeg benda á, að meðan við höfðum hjer tvo lærða skóla, Hólaskóla og Skálholtsskóla, voru hjer á landi eigi meira en 40–50 þús. íbúar. En vjer höfum margar stofnanir aðrar, sem ekki tíðkast annarsstaðar í heiminum, að hverjar 90 þús. manna hafi. Má þar nefna háskóla og hæstarjett. Mun þó ekki hv. þm. Dala. vilja leggja þær niður. Vjer höfum einnig 42 manna þing, sem starfar 1/4–1/3 af hverju ári, og mun það líka vera einsdæmi með smáþjóð sem vjer erum. Það hafa ekki heyrst áður frá hv. þm. Dala. (BJ) varúðarorð gegn því, þó 90 þús. Íslendingar legðu í þann kostnað, sem jafnstór hópur annarsstaðar á hnettinum mundi ekki ráðast í.

Þá talaði háttv. þm. um kensluna og gerði mikið úr því, að fjölga þyrfti kennurum og kenslustofum við Akureyrarskólann. Hann hefir sýnilega ekkert tekið eftir því, sem jeg sagði, að deildum í skólanum væri nú tvískift, að skólinn hefði nóg húsrúm, ef deildunum væri ekki tvískift, og að jeg gerði ráð fyrir, að tvískifting í deildum yrði ekki leyfð. En þetta gengur nú svo, að þegar varinn er slæmur málstaður, þá er ráð að beita fyrir sig misheyrn í staðinn fyrir rök.

Þá gerði hv. þm. mikið gaman að því, sem jeg hefði sagt um takmörkun stúdentaframleiðslunnar, og að það ætti að reka þá aumingja til Reykjavíkur, sem útundan yrðu þar nyrðra. Þetta var aðeins útúrsnúningur hjá hv. þm. Vitanlega þarf víða að setja takmörk. Þeir, sem best eru til þess hæfir að ganga mentaveginn, eiga að fá að sitja fyrir að ganga hann.

Háttv. þm. sagði, að ekki þyrfti að kenna sjer, hve marga kennara þyrfti við lærðan skóla. Jeg gæti trúað því, ef hann ætti að ráða, að þá yrðu kennaraembættin ekki fá, sem bætt yrði við Akureyrarskóla, ef hann breyttist í lærðan skóla. En hinu trúi jeg ekki, að Alþingi geri hann að sínum ráðunaut í þessu efni.

Stefna háttv. þm., eftir þeim rökum, sem hann hefir flutt í ræðum sínum hjer í deildinni, er sú, að einungis börn efnamanna og Reykvíkinga geti stundað nám við lærðan skóla. Jeg tók það fram í framsöguræðu minni, og sjerstaklega kom það skýrt fram í ræðu hv. þm. S.-Þ. (IngB), að fáir foreldrar utan af landi gætu kostað börn sín til náms í Reykjavík og yrðu því oft sjálf að fylgja þeim eftir þangað, af því þeir gætu helst klofið skólakostnaðinn á þann hátt, að verða búsettir í bænum. Að mentaskólinn er aðeins einn, eykur fólksstrauminn til Reykjavíkur svo, að til vandræða sýnist horfa.

Fyrst skólahúsið er til nyrðra, gott og vel útbúið, en þröngt um skólann í Reykjavík, finst mjer sjálfsagt að nota það fyrir lærðan skóla. Kenslukrafta þarf ekki að auka að mun, þó að skólarnir verði tveir, því að lærða skólann í Reykjavík má minka sem nemur lærdómsdeild við Akureyrarskóla.