28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Sveinn Ólafsson:

Jeg held, að hjer sje gott mál á ferðinni og nytsamlegt, þar sem er stofnun mentaskóla norðanlands, og trú mín á rjettmæti þeirrar stofnunar hefir styrkst mjög við mótmæli þau gegn skólanum, sem fram hafa komið hjá þrem hv. andmælendum. Þeir hafa flutt málið svo einhliða og óvægilega frá sinni hlið, lokað augunum með öllu fyrir kostunum við norðlenska skólann og dregið fram með fölskum litum ókostina, og þó einkum kosti þá, sem þeir telja við einn lærðan skóla í Reykjavík. Slík málafærsla sannfærir aldrei, því að í þessu máli sem öðrum verður að líta á báðar hliðar, hlýða á báða málsparta.

Háttv. andstæðingar þessa máls halda því mjög fram, að hjer sje um metnaðarmál Norðlendinga að ræða, en ekkert þarfamál, og telja þeir hjeraðsmetnaðinn engan rjett eiga á sjer. Þessi mótbára er að engu nýt, því að fyrst og fremst á metnaðurinn fullan rjett á sjer, ef hann er heilbrigður, svo sem hjer er, og horfir fjöldanum til heilla, en í öðru lagi er hjer um miklu róttækara mál að ræða en metnað Norðlendinga, þar sem hugmyndin er studd af mönnum úr öðrum landshlutum. Jeg er þó enginn Norðlendingur. En breytingu þessa gagnfræðaskóla nyrðra í lærðan skóla fylgi jeg eingöngu vegna þess, að jeg treysti því, að þar nyrðra verði miklu hollari áhrifin á æskulýðinn, sem mentaveginn gengur, en hjer í Reykjavík, auk þess sem þar er miklu kostnaðarminna að stunda nám en hjer.

Eftir mínum hugmyndum um þessa hluti er Reykjavík einhver allra óhollasti og lakasti staður á landi hjer fyrir uppeldi ungmenna, en Akureyri sá líklegasti — þegar annars er miðað við kaupstað — og hefir meiri líkingu af sveit en nokkur annar kaupstaður hjerlendis. Sveitin umhverfis hann mótar íbúana, og alt bæjarlífið er að nokkru litað af sveitinni. Hingað til Reykjavíkur senda margir sonu sína nauðugir og aðeins vegna þess, að ekki er í annað hús að venda. Ótrúin á Reykjavíkuráhrifunum og óttinn við ill áhrif hjer á ungmennin á sjer djúpar rætur viða úti um sveitir landsins. Sjálfsagt er þessi ótti ekki ætíð á fullum rökum bygður, en ekki er hann þó ófyrirsynju, því að ótrúlega eru þeir margir, sem hjer hafa vilst á mentaveginum og dregist út í hvimleiðan soll og óreglu og brugðist vonum vina og vandamanna í fjarlægum hjeruðum, sem sent hafa þá hingað með hálfum hug, en ærnum erfiðleikum og kostnaði. Enginn neitar því, að unglingar geti einnig ratað í ógæfu annarsstaðar. En hjer virðist mjer staður og bæjarbragur með því lakasta, sem jeg þekki, og öll viðskifti svo erfið, alt svo ósanngjarnlega dýrt, að mörgum efnalitlum nemendum er um megn að dvelja hjer, svo að skaplega fari um þá.

Önnur meginástæðan, sem færð hefir verið fram á móti frv., er sú, að stúdentaframleiðslan mundi tvöfaldast eða aukast svo mikið, að ekki mundu verða til sómasamlegar stöður fyrir allan þann sæg lærðra manna, sem eftir hugmyndum andstæðinga frv. ættu að verða óhæfir til alls, nema embættisstarfa. Jeg er þó ekki hræddur við þetta. Því stúdentum mundi fækka svipað í Reykjavík og þeim fjölgar á Akureyri. En þótt einhver aukning yrði, þá tel jeg eigi að því neinn skaða, ef þeir væru vel mannaðir og aldir upp á góðum stað og skynsamlega, svo eigi yrðu þeir að ónytjungum og landeyðum. Jeg viðurkenni ekki, að námið þurfi að svifta neinn mann hæfileika til líkamlegrar vinnu eða spilla á neinn veg þroska eða innræti ungmenna, þótt hjer kunni að vera nokkur brögð að því. Jeg sje ekki, að allir þessir mentuðu menn þurfi að verða embættismenn, eða að að því eigi að keppa. Þeir gætu orðið bændur, iðnaðarmenn, kennarar o. s. frv., og hvað er við því að segja nema gott eitt að eignast skólagengna, jafnvel háskólagengna bændur? Það er engin nýlunda hjá nágrannaþjóðunum að hitta slíka menn meðal bænda, og bæði hafa þeir verið hjer og eru til í bændastjett.

Jeg vil nú ekki tefja tímann með lengri ræðu, þó margt mætti enn taka fram. Þetta nægir mjer til þess að skýra afstöðu mína til málsins. Hins vegar get jeg að nokkru leyti viðurkent, að ef til vill hafi verið nokkuð fljótlega að þessu máli unnið, og að því muni eins vel borgið með nokkurri bið, því að undirbúningur þess er enn þá skamt kominn. Þó má sá dráttur eigi verða lengri en til næsta árs.

Áður en jeg hverf frá þessu skal jeg minnast lítillega á tvö atriði, sem fram hafa komið hjá andmælendum málsins.

Annað er það, að breyting Akureyrarskólans í mentaskóla muni loka honum fyrir mörgum gagnfræðanemendum og draga úr alþýðumentuninni. Hitt kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv. (MJ), og vildi hann vefengja það, að ódýrara væri að stunda nám á Akureyri en í Reykjavík, með því að benda á, að opinberir starfsmenn á Akureyri krefðust dýrtíðaruppbótar til jafns við opinbera starfsmenn í Reykjavík, og benti það á, að dýrtíðarverðið væri sama nyðra og hjer.

Fyrra atriðinu er fljótsvarað með því að benda á alþýðuskólana, sem upp eru komnir og eru að rísa upp, svo sem á Eiðum, í Þingeyjarsýslu og víðar. Þeir eiga að taka við unglingunum og koma þeim áleiðis, og stefnan verður að vera sú, að láta þá búa ungmennin þannig undir, að þau geti án tímaeyðslu fetað stig af stigi í æðri metnastofnunum jafnvel upp í háskólann.

Hin viðbáran, um kröfur opinberra starfsmanna á Akureyri um dýrtíðaruppbót, er einskis verð. Þeir hafa yfirleitt eftir launalögunum snögt um lægri laun en hliðstæðir starfsmenn hjer í Reykjavík, og þess vegna sömu þörf á dýrtíðaruppbót eins og þeir, sem hjer búa, eins þótt lífsnauðsynjar flestar sjeu mun ódýrari á Akureyri en hjer. Krafa þeirra er af þessari ástæðu alt eins eðlileg og sanngjarnleg sem starfsbræðra þeirra hjer.