28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Forseti (BSv):

Jeg vil geta þess, að mjer hefir borist svo hljóðandi áskorun frá 8 þm. (PO, GunnS, JS, ÓP, EE, ÞorlG, MG, BH):

„Undirritaðir óska, að umræðum verði þegar slitið.“

Kann jeg þó eigi alls kostar vel við að skera niður umræður um þetta mál, því að hvorttveggja er, að það er merkilegt og íhugunarvert, enda hafa nú fjórir hv. þm. kvatt sjer hljóðs, en þó mun jeg bera áskorun þessa undir atkvæði deildarinnar.

Þá hefir komið fram önnur rökstudd dagskrá, frá hv. 4 þm. Reykv. (MJ), svo hljóðandi:

Með skírskotun til þingsályktunar um heimavistir við hinn lærða skóla í Reykjavík, frá 1921, og í því trausti, að stjórnin taki til rækilegrar athugunar til næsta Alþingis fyrirkomulag mentaskólans í Reykjavík, einkum það, með hvaða móti megi gera þeim utanbæjarnemendur, sem til stúdentsprófs lesa þar, vistina sem ódýrasta, og með því að málið vantar nægilegan undirbúning, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Þá hefir og háttv. þm. Dala. (BJ) tekið sína rökstuddu dagskrá aftur, er þessi kom fram. Enn fremur hefir hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) óskað þess, að málið væri tekið út af dagskrá, er marga þm. vanti á fundinn. Get jeg eigi tekið þessa kröfu til greina, enda veit jeg engin fordæmi fyrir því, að þetta hafi verið gert.