24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Jeg verð að játa það, að ræða hv. 2. þm. Reykv. (JB) kom mjer nokkuð á óvart, því hjer hefir ekkert annað skeð en það, sem stjórnin lýsti yfir, að hún mundi gera, í þinglokin í fyrra, nefnilega leggja svona frumvarp fyrir þingið. — Var þetta og skilyrði fyrir bestu kjörum áfram hjá Spánverjum. Stjórnin hefir því algerlega hagað sjer eftir loforðum sínum, er voru í samræmi við þingviljann, og tek jeg því með engum þökkum móti ávítum í þessu máli. Um hitt atriðið, hvernig stjórnin hefir framkvæmt lögin, er það að segja, að það var auðvitað á stjórnarinnar valdi og má auðvitað um deila, hve langt skyldi farið, en þess skal þó geta, að jeg rjeð engu til lykta fyr en jeg hafði ráðið ráðum við þá, sem kunnugastir voru þessu máli, meðal annars formann íslensku sendinefndarinnar.

Um framkomu sumra hjeraðsstjórna í málinu verður það vægast sagt, að hún var ekki lofsverð. Vissu þær vel, að mótmæli þeirra mundu að engu metin, en ef þau hefðu verið tekin til greina, hefði fiskmarkaðinum stafað hætta af því. — Jeg veit, að jeg hefi verið kallaður Gissur Þorvaldsson í einu blaði hjer, út af framkomu minni í þessu máli. Jeg ljet mjer það í ljettu rúmi liggja, en vera má, að margir reynist Gissurarnir um það leyti er frv. þetta verður að lögum. Annars vil jeg láta þess getið, að jeg er fús að gefa nefndinni ýmsar upplýsingar, sem jeg get ekki gert hjer fyrir öllum þingheimi.