24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsætisráðherra tók orð mín allóstint upp, en svaraði þó ekki aðalatriðinu, því, hvað stjórnin hefði gert til að losast við Spánarvínin.

Var það vilji þm. í fyrra, að sem minst undanhald yrði í máli þessu; má þar minna á ræðu háttv. frsm. viðskiftamálanefndar. En nú hefir stjórnin slegið því föstu í löggjöfinni, að ástand þetta skuli haldast um óákveðinn tíma. Trúi jeg vart, að það verði samþykt, eftir röddunum í fyrra að dæma.

Óþarfi var það af hæstv. ráðherra í SE) að fara að minnast á ummæli blaðanna. Það var algerður óþarfi af honum að láta hafa eftir sjer ummæli þau, er danska blaðið flutti, og er hann ásökunarverður fyrir það, því Spánarsamningarnir voru ekki af frjálsum vilja gerðir, heldur nauðung. En ummæli hæstv. forsætisráðherra gefa í skyn, að okkur sje þetta ekki svo nauðugt.